Fórnarlamba minnst 20 árum frá árásunum

Minningu þeirra sem létust í árásunum 11. september árið 2001 …
Minningu þeirra sem létust í árásunum 11. september árið 2001 er haldið á lofti við minnisvarðann við World Trade Center. AFP

Tuttugu ár eru liðin frá árásunum á tvíburaturnana í New York borg í Bandaríkjunum. Af því tilefni hefur verið blásið til minningarathafnar við minnisvarðan og safnið sem stendur þar sem turnarnir stóðu áður. 

Safnið er tileinkað minningu þeirra 2.977 sem létust í árásunum 11. september árið 2001 og þeim sex sem létust í sprengjuárásinni á World Trade Center 26. febrúar árið 1993. Minningarvarðinn og safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni og allur ágóði rennur til fjölskyldna fórnarlambanna.

Í dag fer fram athöfn sem er aðeins fyrir fjölskyldur fórnarlambanna. Þar verða nöfn allra fórnarlambanna lesin upp. Um kvöldið verður svo ljósasýning en sýningin er sýnd 11. september hvert ár.

Minnisvarðinn var formlega opnaður hinn 12. september árið 2011, en fjölskyldur fórnarlambanna fengu að skoða hann í friði frá almenningi daginn áður, 11. september þegar tíu ár voru liðin frá árásunum. Safnið opnaði svo í maí árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert