Hefur rekið hestaleigu í 36 ár

Stefán Helgi Kristjánsson ásamt hópi fólks í reiðtúr.
Stefán Helgi Kristjánsson ásamt hópi fólks í reiðtúr. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Helgi Kristjánsson, eigandi Pólar Hesta í Grýtubakkahreppi, segir vini og vandamenn hafa rekið upp stór augu þegar hann lét draum sinn verða að veruleika fyrir 36 árum síðan um að stofna ferðaþjónustufyrirtæki þar sem hestar yrðu í aðalhlutverki. Stefán lét hneykslan fólks sem vind um eyrun þjóta og hefur hann rekið hestaleiguna Pólar Hesta síðan árið 1985.

„Menn skyldu ekkert í þessari hugmynd og hvöttu mig frekar til að fara í loðdýrarækt,“ segir Stefán sem rekur eina elstu hestaleigu landsins.

Stefán er fæddur og uppalinn í Grýtubakkahreppi og vill hvergi annars staðar vera en þar. Þrátt fyrir að vegalengdin sé heldur löpóng norður á land þá hefur fjölskyldufyrirtækið Pólar Hestar gengið vel síðustu áratugi. Grýtubakki er í aðeins 5 mínútna akstursfjarlægð frá Grenivík og um það bil 25 mínútum frá Akureyri. 

Hestaleigan Pólar Hestar eru við Grýtubakka II í Eyjafirði.
Hestaleigan Pólar Hestar eru við Grýtubakka II í Eyjafirði. Ljósmynd/Aðsend

„Það tekur því ekkert að fara héðan úr þessu. Maður er kominn upp í 65 sentímetra hæð á tommustokknum,“ segir Stefán og húmorinn leynir sér ekki. „Þetta er svolítið langt frá höfuðborgarsvæðinu og enn lengra frá útlöndum, eins og maður segir. Það hefur oft verið erfitt að fá ferðafólk frá Evrópu eða Ameríku hingað norður á land en við höfum alltaf haft opið og þannig hefur þetta gengið hjá okkur. Þó svo að það komi ekki nema einn viðskiptavinur í sjoppuna fyrir hádegi. Við erum alltaf með opið og bjóða alla velkomna á hvaða tíma dags sem er nánast. Við lifum á þessu,“ segir Stefán um gengi rekstursins.

Hestaferðir á veturna

„Við förum í ferðir á veturna en þær eru heldur styttri en þær sem eru farnar á sumrin. Við erum þá kannski að tala um einn til tvo tíma, ef veður leyfir. En á sumrin erum við með ferðir sem geta varið í einn klukkutíma og upp í sex daga - þá förum við alla leið austur á Raufarhöfn. Þær ferðir sem nú þegar hafa verið skipulagðar þangað austur eftir fyrir næsta sumar þær eru nánast allar orðnar fullar. Mikið af okkar viðskiptavinum eru gamlir kúnnar sem koma aftur, og aftur, og aftur. Það er náttúrulega allt vant fólk,“ segir Stefán.

„Það er alls ekki langt héðan og yfir á Akureyri. Það er kannski svona eins og úr Breiðholtinu og niður í miðbæ svo það er engin sérstök vegalengd. Svo erum við ekki nema 35 mínútur frá Reykjavík til Akureyrar,“ segir Stefán. „Ef þú tekur flugið,“ segir Stefán og hlær. „Maður á alltaf að líta á allt svona út frá tíma, ekki út frá vegalengdum.“

Veðurfar í Eyjafirði hefur verið með besta móti í haust en veður og vindar skipta sköpum fyrir reksturinn á veturna. Erlendir ferðalangar hafa verið að gera sér ferðir norður í land og tekið reiðtúra um einstakt fjalllendi sveitarinnar.

„Það er búið að vera mjög gott haust miðað við oft áður,“ segir Stefán. „Hingað hafa aðallega verið að koma ferðamenn á bílaleigubílum en einhverjir Íslendingar líka þó. Einhverjir sem hafa gert sér ferð til Akureyrar og langað að gera eitthvað pínulítið meira úr þeirri ferð,“ segir hann jafnframt. 

Tíðarfar í sveitinni hefur verið gott það sem af er …
Tíðarfar í sveitinni hefur verið gott það sem af er vetri. Ljósmynd/Aðsend

Erlendir ferðamenn tínast til

„Með hverjum reiðtúrnum höfum við alltaf boðið upp á uppáhelt kaffi of nýtt heimabakað brauð. Svona svolítið sveitalegt.“ Þá segir Stefán heimabakaða brauðið vekja mikla lukku á meðal erlendra ferðamanna.

Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn hjá Pólar Hestum eins og nær öllum ferðaþjónustufyrirtækjum. Segir Stefán veturinn í fyrra hafa verið þungur en að það hafi skyndilega létt yfir öllu með hækkandi sól síðastliðið sumar.

„Það var náttúrulega bara núll hjá okkur í fyrra en það kom á óvart hvað það var mikið að gera síðasta sumar. Þá voru líka margir Íslendingar að ferðast um landið og svona.“ Úrræði og aðgerðir stjórnvalda um styrkveitingu sökum heimsfaraldursins björguðu rekstrinum að einhverju leyti en þó hafi líka þurft að bregðast við með því að selja nokkur hross.

„Þetta hafði sitt að segja. Við gátum bjargað okkur rétt fyrir horn með því að selja nokkur hross en fyrirtæki sem hafa verið svona lengi í rekstri eins og við, þau eiga ekkert að vera svo skuldug,“ segir Stefán.

Stefán er nú með sex starfsmenn af erlendum uppruna í vinnu hjá Pólar Hestum. Enda er mikið að gera á bænum, Grýtubakkahreppi II, þar sem hreyfa og fæða þarf 150 hross.

„Þetta er meira og minna allt á haganum núna ennþá en sum hross eru komin á gjöf. Á veturna erum við ekki með mjög mörg hross á járnum, kannski svona tíu til fimmtán hross allt í allt. Við erum ekki að fara í svo stórar og langar ferðir á þessum tíma. Umfangið er miklu minna á veturna en á sumrin, enda viljum alls ekki að þetta endi eins og síld í tunnu,“ segir Stefán hress að lokum.

Styttri hestaferðir eru farnar á haustin og á veturna.
Styttri hestaferðir eru farnar á haustin og á veturna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert