WSJ mælir með að skoða norðurljósin úr Sky Lagoon

Ljósmyndarinn Kevin Palmer segir útsýnið úr Sky Lagoon einstakt. Hann …
Ljósmyndarinn Kevin Palmer segir útsýnið úr Sky Lagoon einstakt. Hann mælir með því að koma sér fyrir í heita vatninu og freista þess að sjá norðurljósin að kveldi til. mbl.is/Sky Lagoon

Í nýlegri grein á vef The Wall Street Journal er mælt með leiðarvísi ljósmyndarans Kevins Palmers að því að upplifa norðurljósin berum augum víðsvegar um heiminn. Í greininni er vitnað í See the Aurora þar sem Palmer fjallar meðal annars um Ísland og hvetur ferðamenn til að fara í Sky Lagoon þegar norðurljósabeltið er yfir landinu og skoða himnaljósin úr heitu böðunum þar.

Þeir sem eru hrifnir af norðurljósunum þurfa að búa yfir ákveðinni hógværð því eins og flestir vita er flókið að ætla að panta eitthvað sem náttúran stjórnar. Það má þó auka líkurnar til muna á að sjá þessi náttúrulegu himnaljós sem verða til þegar hraðfleygar rafhlaðnar agnir, aðallega rafeindir frá sólinni, rekast á atóm og sameindir í lofthjúpi jarðar, með því að vera á réttu stöðunum. Þeir sem eru úti undir berum himni þegar norðurljósabeltið er yfir landinu og himinninn er heiðskír og úti er myrkur heillast af litum norðurljósanna sem eru gulgræn, græn og rauð. 

Palmer bendir á níu áhugaverða staði að heimsækja til að sjá norðurljósin í öllu sínu veldi. Þegar kemur að Íslandi segir hann ekki skipta máli hversu mikill loftkuldinn verður. „Þér verður hlýtt í 38 gráða heitu vatninu í Sky Lagoon sem er á Kársnesinu, nálægt miðborg Reykjavíkur. Lónið er opið til ellefu á kvöldin á föstudögum og laugardögum. Náttúran á staðnum er stórbrotin sem eykur á upplifunina þegar horft er til himins á norðurljósin,“ skrifar Palmer. 

Aðrir staðir sem Palmer mælir með eru stólalyfturnar í Abisko í Svíþjóð, Fairbanks í Alaska og/eða að koma sér fyrir í báti í Tromsø, Norður-Noregi. Churchill í Manitoba og Yellowknife í Kanada eru einnig góðir staðir að hans mati sem og að horfa á ljósin úr hundasleða á Grænlandi. 

The Wall Street Journal

mbl.is