Hefur ferðast um landið á launum

Einar Andri Ólafsson fór í eftirminnilega ferð til Bandaríkjanna árið …
Einar Andri Ólafsson fór í eftirminnilega ferð til Bandaríkjanna árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Einar Andri Ólafsson, iðnaðarmaður og fyrirsæta, svalar ævintýraþránni af og til með því að skella sér í skemmtileg ferðalög. Hann er svo heppinn að stór hluti af starfi fyrirsætunnar felst í því að sitja fyrir á fallegum stöðum. 

„Ég hef alla tíð elskað að vera úti í náttúrunni, svo er ég svo lánsamur að stór hluti af fyrirsætubransanum snýst einmitt um það að mynda á fallegum stöðum. Ég hef því fengið að ferðast um gjörvalt landið á launum,“ segir Einar. 

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Þórsmörk, engin spurning. Ég fer árlega í góðra vina hópi, alltaf á sama tíma, Jónsmessuhelgina.“

Vinahópurinn fer alltaf í Þórsmörk.
Vinahópurinn fer alltaf í Þórsmörk. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða stað langar þig að heimsækja á Íslandi en átt enn eftir?

„Mig langar að skoða Mælifellið.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Ætli ég verði ekki að segja Bandaríkjaferðin árið 2017. Þá fór ég með tveimur góðum vinum til Los Angeles. Þaðan keyrðum við til Las Vegas þar sem við eyddum nokkrum nóttum. Svo ókum við að Miklagljúfri þar sem við leigðum okkur múlasna og riðum niður gljúfrið. Svo var ferðinni heitið aftur til LA í nokkra daga en ekki áður en við stoppuðum í Perris og skelltum okkur í fallhlífarstökk. Sú ferð verður klárlega endurtekin.“

Á múlasna í Miklagljúfri.
Á múlasna í Miklagljúfri. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Mónakó.“

Einar ásamt bróður sínum í Mónakó.
Einar ásamt bróður sínum í Mónakó. Ljósmynd/Aðsend

Besti maturinn á ferðalagi?

„Ég er kannski svolítið gamaldags þegar kemur að því en ég er alltaf með góðan lifrarpylsukepp í bakpokanum. Svo er gott að taka með harðfisk, flatkökur og Poweraid.“

Mesta menningarsjokkið?

„Ég tel mig nú engan menningarmógúl en það sem situr í mér er þegar við evrópsku ferðamennirnir gengum strandlengjuna í Los Angeles. Þá klæddum við okkur í stuttar og litríkar sundskýlur sem féllu ekki vel í kramið hjá kananum. Þeir hreyttu í okkur skammaryrðunum og voru mjög uppteknir af kynhneigð okkar, eða gáfu sér hana að minnsta kosti. Þá eru þeir greinilega ekki vanir öðru en síðum Burton-skýlum eða körfuboltastuttbuxum og allt annað er gjörsamlega „nuts“. Mjög spes.“

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Gin & tónik og góð bók.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig langar mikið að sjá Egyptaland.“

Ætlar þú að ferðast í vetur?

„Já, ég fer til Ítalíu í nokkrar vikur á nýju ári.“

Einar í Suður-Frakklandi.
Einar í Suður-Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert