Yfirgaf Kanaríeyjar vegna kórónuveirunnar

Jennifer Lopez fór frá Kanaríeyjum eftir að gert var hlé …
Jennifer Lopez fór frá Kanaríeyjum eftir að gert var hlé á tökum á kvikmyndinni The Mother vegna Covid-19. AFP

Söng- og leikkonan Jennifer Lopez sást yfirgefa spænska eyjaklasann Kanaríeyjar um liðna helgi þar sem hún hafði dvalið alla síðustu viku við tökur á netflixmyndinni The Mother. Tekin var sú ákvörðun að gera hlé á tökum kvikmyndarinnar vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar á Kanaríeyjum.

Lopez náði aðeins að vera viðstödd einn tökudag áður en allt var blásið af sökum faraldursins en til stóð að taka upp margar senur á Kanaríeyjum. Söng- og leikkonan sást stíga um borð í einkaflugvél frá Las Palmas-flugvellinum á Kanarí þar sem leið hennar lá til Bandaríkjanna.

Jennifer Lopez fer með eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni ásamt mótleikurum sínum, Gael García Bernal og Joseph Fiennes. Tökur á kvikmyndinni The Mother hófust í október á síðasta ári og átti þeim að ljúka síðar í þessum mánuði. Samkvæmt fréttaveitunni Page Six verður líklega ekki af því þar sem útbreiðsla faraldursins er og hefur verið í algeru hámarki á spænsku eyjunum síðustu daga.

mbl.is