Gómaður með fíkniefni á flugvellinum

Rapparinn Vic Mensa var handtekinn á flugvellinum í Dulles í …
Rapparinn Vic Mensa var handtekinn á flugvellinum í Dulles í Bandaríkjunum við heimkomu sína frá Gana. Ljósmynd/Twitter

Bandaríski rapparinn Vic Mensa var stöðvaður í öryggisleitinni á Dulles-alþjóðaflugvellinum í Bandaríkjunum á laugardag. Fundust fíkniefni í tösku hans en hann var að koma frá Gana í Afríku. 

Að sögn lögreglu í Virginíuríki fundust 41 gramm af LSD í vökvaformi, 124 grömm af ofskynjunarsveppum í hylkjaformi, 178 grömm af ofskynjunargúmmíi og sex grömm af ofskynjunarsveppum. Hann var handtekinn og ákærður fyrir vörslu á ólöglegum fíkniefnum og sætti gæsluvarðhaldi fram á þriðjudagsmorgun.

Mensa hafði verið á ferðalagi um Afríku með Chance the Rapper. Birti hann meðal annars mynd af þeim félögum með Nana Akufo-Addo, forseta Gana, á Twitter.

mbl.is