Fullkomnar ferðamyndir sýna ekki allt

Ekki er allt sem sýnist á samfélagsmiðlum.
Ekki er allt sem sýnist á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Pexels/Daniel Eliashevsky

Háskólaneminn Louise Truman ákvað að afhjúpa sannleikann á bak við fullkomnar myndir úr ferðalögum áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Truman heldur úti aðgangi á TikTok þar sem hún deilir veruleikanum að baki töfrandi ferðamynda. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá.

Myndir úr ferðalögum geta verið svo draumkenndar að þær eiga það til að blekkja augað. Hver kannast ekki við að sjá snotrar snekkjumyndir frá suðrænum slóðum, ástríðufullar myndir við Eiffelturninn eða nýstárlegar núvitundar myndir frá Balí? Allur þessi glamúr getur fengið okkur til að efast um eigin árangur og ágæti. 

Truman hefur ferðast mikið í gegnum tíðina og vill sannfæra „venjulegt“ fólk um alla veröld að ekki er allt sem sýnist. Fullkomnu ferðamyndirnar sem við sjáum á samfélagsmiðlum eru ekki alltaf teknar við kjöraðstæður. Áhrifavaldar þurfa að leggja mikið á sig við að ná hinni einu sönnu mynd og oftar en ekki er notast við ýmis ljósmyndaforrit áður en myndunum er deilt á alnetið. 

„Raunveruleikinn á bak við það hvernig 90% af öllum ferðalögum eru,“ skrifaði Truman við myndskeiðið á TikTok. Þar sést Truman í hinum ýmsu aðstæðum sem ekki líta út fyrir að vera öfundsverðar þrátt fyrir að ljósmyndir geti látið þær líta þannig út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert