Það runnu tvær grímur á Ásu þegar hún mætti í íbúðina

Ása Baldursdóttir í Cannes.
Ása Baldursdóttir í Cannes. Ljósmynd/Aðsend

Kvikmyndahátíðin Cannes í Frakklandi er þekkt fyrir mikinn glamúr. Það var hins vegar ekki mikill glamúr á gistingunni sem Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri í Bíó Paradís bókaði fyrir sig og Hrönn Sveinsdóttur samstarfskonu sína þegar hún fór í fyrsta sinn á hátíðina fyrir níu árum. Rjóminn af þeim kvikmyndum sem var frumsýndur í Cannes í fyrra er sýndur á Franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís í febrúar.

Það er erfitt að finna góða gistingu í Cannes á meðan hátíðinni stendur. Ása var því afar sátt þegar hún fann þessa fínu íbúð á Airbnb sem með glymskratta í stofunni og í göngufjarlægð frá kvikmyndahöllinni. „Þú þurftir bara að ganga strandlengjuna og þá varstu komin. Eini gallinn var að eigandinn talaði ekki ensku. Ég bókaði þessa íbúð í góðum fíling og þýddi allt sem konan skrifaði mér á Google Translate,“ segir Ása sem var nokkuð ánægð með sjálfa sig.

Kvikmyndahöllin í Cannes.
Kvikmyndahöllin í Cannes. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan fór ekki úr íbúðinni

Eftir mjög langt ferðalag til frönsku riveríunnar voru Ása og Hrönn loksins mættar. Það kom þeim á óvart að 12 ára gömul stúlka tók á móti þeim sem talaði enga ensku. „Það renna vissulega á okkur tvær grímur þegar þetta barn tók á móti okkur. Svo opnar hún hurðina inn í íbúðina og þar stendur móðirin. Já, þetta er dóttir hennar, það er allt í lagi hugsa ég og við reynum að tala við hana á mjög bjagaðri frönsku. Hún virðist vera rosalega glöð að fá okkur og leiðir okkur inn í herbergi með kojum. Svo heyrist djúp karlmannsrödd úr stofunni. Þá kemur í ljós að rúmlega sjötugur franskur faðir hennar sem bjó í bæ nálægt landamærum Þýskalands og Frakklands var þarna líka. Hann segist tala þýsku og bendir á Hrönn,“ segir Ása en Hrönn gat talað þýsku við manninn.

„Það kemur upp úr krafsinu að fjölskyldan ætlar ekki að fara úr íbúðinni á meðan við erum þarna í tíu daga ferðalagi,“ lýsir Ása. Afinn, mamman og barnabarnið ætluðu öll að sofa í u-laga sófa í stofunni ásamt fjölskylduhundinum.

Þýska kvikmyndagerðarkonan Elke ásamt Hrönn og Ásu.
Þýska kvikmyndagerðarkonan Elke ásamt Hrönn og Ásu. Ljósmynd/Aðsend

Óvæntar uppákomur voru þó ekki búnar eftir að þetta kom í ljós. „Við lokuðum að okkur og fórum í kojurnar. Þegar við komum fram daginn eftir var konan búin að reiða fram morgunverðarhlaðborð og stjanaði við okkur eins og við værum í heimagistingu. Við heyruðum þrusk á bak við eldhúsið og fram stígur fertugur karlmaður,“ segir Ása. Maðurinn reyndist vera kanadískur kvikmyndagerðarmaður sem einnig var búinn að leigja sér gistingu hjá fjölskyldunni.

Ása og Hrönn nutu þess þó að fara á kvikmyndir og mæta á fundi. „Við römbuðum meira segja inn á rangan fund. Við vorum að fara á fund með kvikmyndadreifingafyrirtæki en enduðum á röngu hóteli og vorum næstum því mættar í áheyrnarprufur fyrir Calvin Clein. Maðurinn sem var í anddyrinu horfði á okkur frá toppi til táar,“ segir Ása sem segir að það hafi verið augljóst að manninum hafi ekki fundist þær eiga heima í prufunum.

Ása og Hrönn voru næstum því lendar í prufu fyrir …
Ása og Hrönn voru næstum því lendar í prufu fyrir tískurisann Dior. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að gistingin hafi ekki verið sú sem þær bjuggust við segir Ása að þetta hafi verið mikil lífsreynsla og gaman að upplifa kvikmyndahátíðina í gegnum heimamenn. „Þetta gæti verið ein bíómynd inni í bíómynd. Það var gaman að vera með Frökkum sem búa þarna og sem hafa upplifað þessa stórglæsilegu hátíð í öll þessi ár. Afinn í fjölskyldunni var alveg uppveðraður og eldaði fyrir okkur heitar kjötfarsbollur og heitt hvítkál áður en hann skundaði á rauða dregilinn, eins og hann hafði gert áratugunum saman.“

Kom töskulaus til Cannes

Í eitt skiptið sem Ása fór til Cannes var hún með níu mánaða gamlan son sinn heima á Íslandi. Hún fór með brjóstapumpu meðferðis í handfarangri en segir að ferðin hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig. „Ég mæti 2018 eftir millilendingu í London með enga ferðatösku, sem flugfélagið týndi en sem betur fer með brjóstapumpuna í handfarangri. Ég var ekki með neinar nærbuxur, engan tannbursta og enga kjóla til að fara á rauða dregilinn,“ segir Ása.

„Þetta er örugglega dýrasti staðurinn til að útvega sér ný föt. Þarna eru glæsibátar og rándýrar hönnunarbúðir og eiginlega engin súpermarkaður. Á degi fimm segja þeir mér að taskan sé á leiðinni nema þá voru það mistök. Ég var töskulaus og missti af ýmsu en ég sá fleiri stórkostlegar kvikmyndir fyrir vikið og við héldum Eurovision partý fyrir nær alla íslendingana á svæðinu með brjóstapumpu á kantinum.“

Það er allt morandi út í rándýrum hönnunarbúðum í Cannes.
Það er allt morandi út í rándýrum hönnunarbúðum í Cannes. Ljósmynd/Aðsend

Frönsk veisla í Bíó Paradís

„Af því að við förum alltaf til Cannes í Frakklandi þá erum við að horfa á mjög mikið af nýjum frönskum kvikmyndum á ári hverju. Við reynum að tryggja okkur brot af því besta til þess að sýna á Franskri kvikmyndahátíð sem er haldin núna í tuttugasta og annað sinn.“

Opnunarmynd hátíðarinnar er París, 13. hverfi í leikstjórn Jacques Audiard og Ása nefnir að myndin sé stórkostleg. „Þetta er djörf, erótísk, svarthvít mynd um ungt fólk í nýju hverfi í París sem er að reyna átta sig á mörkunum á milli vináttu og kynlífs. Þessi mynd keppti um Gullpálmann í Cannes sem eru aðalverðlaunin í Cannes.“

Myndin Aline er líkleg til vinsælda að sögn Ásu en hún er frjálslega byggð á ævi tónlistarkonunnar Céline Dion. Ása segir að Dion hafi ekki tjáð sig opinberlega um myndina en Ása er mjög hrifin. „Mér fannst hún æðisleg og aðalleikkonan leikur Celine Dion á öllum æviskeiðum, líka þegar hún er barn. Það hljómar kannski skringilega en það er vel gert og drepfyndið.“

Myndin Aline um Celine Dion er sýnd á Franskri kvikmyndahátíð …
Myndin Aline um Celine Dion er sýnd á Franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís.

Þær tvær er líka kvikmynd sem Ása mælir mikið með. Kvikmyndin er nístandi ástarsaga tveggja eldri kvenna sem kaupa íbúð í sama stigagangi. Þegar önnur veikist spyr fjölskyldan af hverju nágrannakonan sé að skipta sér að og í kjölfarið hrynur spilaborgin.

Frönsk kvikmyndagerð er margbrotin og á sér langa listræna sögu. Þær kvikmyndir sem heilla Ásu einna helst eru kvikmyndir sem segja sammannlegar sögur sem snerta hjartastrengi fólks. „Kvikmyndir sem eru gerðar af alvöru en ekki á yfirborðinu eins og í Ameríku,“ segir Ása spennt fyrir öllum þeim frábæru myndum sem sýndar verða á Franskri kvikmyndahátíð í Bíó Paradís 18. til 27. febrúar.

mbl.is