Metfjöldi ferðamanna til Kanaríeyja í sumar

Að minnsta kosti 1,3 milljónir ferðamanna munu ferðas til Kanaríeyja …
Að minnsta kosti 1,3 milljónir ferðamanna munu ferðas til Kanaríeyja í sumar með TUI. AFP

Ferðaskrifstofan TUI greindi ráðherra ferðamála í heimastjórn Kanaríeyja að það stefndi í að metfjöldi ferðamanna myndi heimsækja Kanaríeyjar í sumar. Alls munu 1,3 milljónir ferðamanna ferðast með ferðaskrifstofunni til eyjanna í sumar og munu þeir dvelja að meðaltali í 10,5 dag. 

Tölurnar eru sambærilega því sem var fyrir heimsfaraldurinn en nú dvelja ferðamenn að meðaltali einum degi lengur á eyjunum og eyða að meðaltali 20% meiri pening en fyrir faraldur, meðal annars vegna þess að ferðamenn velja nú dýrari hótelbergi. 

Sebastian Ebel, framkvæmdastjóri markaðsdeildar TUI, sagði að Kanaríeyjar hafi reynst áreiðanlegur áfangastaður undanfarin ár og nýtt síðustu tvö ár í faraldrinum til að ná enn betri árangri. Hann sagði einnig að þetta væri í fyrsta skipti sem fleiri ferðuðst til Kanaríeyja yfir sumarið en yfir veturinn með TUI. 

Stríðið hefur ekki jafn mikil áhrif

Ebel sagði enn fremur að stríðið í Úkraínu hafi ekki haft jafn mikil áhrif á ferðamannaiðnaðinn í heild sinni líkt og spáð var fyrir. „Þó stríðið sé matröð líkast, þá hefur það sem betur fer ekki haft áhrif á ferðamannaiðnaðinn í heild sinni, fyrir utan lönd eins og Pólland og Finnland, sem eru nær átökunum,“ sagði Ebel. 

TUI er ein stærsta ferðaskrifstofa í Evrópu. Árið 2019 ferðuðust 2,5 milljónir evrópskra ferðamanna til Kanaríeyja með TUI og voru það þá um 14,2% af öllum ferðamönnum sem lögðu leið sína til eyjanna. 

mbl.is