Best að komast ekki í sturtu

Árni Þór Finnsson á Falljökli.
Árni Þór Finnsson á Falljökli. Ljósmynd/Aðsend

Árni Þór Finnsson er lögfræðingur á daginn og gönguleiðsögumaður þess á milli. Árni sækir orku í náttúruna en hann er meðal annars öflugur utanvegahlaupari. Hann er nýkominn heim frá Noregi þar sem hann tók þátt í maraþonhlaupi á frosnu stöðuvatni. Hann ætlar að njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða í sumar og meðal annars æfa sig í að hlaupa með allt á bakinu. 

Hvernig ferðalögum ert þú hrifinn af?

„Öllum ferðalögum þar sem maður kemst ekki í sturtu og er svo til í sömu fötunum allan tímann. Þau ferðalög eru oftar en ekki þannig að maður leyfir sér bara að njóta hversdagslegu hlutanna, það er allt í einu orðið að athöfn að laga kaffið í stað þess að ýta bara á takka á vélinni heima, dúllast við að elda matinn yfir prímusnum, tjalda og leyfa sér bara að vera, taka einn hlut fyrir í einu – maður hlúir að grunnþörfunum og nýtur þeirra í botn,“ segir Árni. 

Árni segist hafa verið verið í mikilli snertingu og nálægð við náttúrunu frá því að hann man eftir sér. „Mínar helstu minningar úr æsku sem varða útivist eru veiðiferðirnar með pabba. Hann var alltaf ægilega þolinmóður og leyfði mér að koma með honum og vinum hans á veiðar, bæði í stangveiði og á skotveiðar. Í þessum ferðum var lögð mikil áhersla á umgengni við náttúruna, skilja við hana eins og maður kom að henni auk þess sem hefðubundnu pabbamómentin: „Veistu hvað þetta fjall heitir?“ voru reglulega á dagskrá. Þá voru foreldrar mínir þokkalega dugleg að ferðast með okkur krakkana um landið.

Mig grunar að þetta uppeldi hafi sáð fræinu fyrir það sem kom á eftir. Maður byrjaði hægt og rólega að færa sig upp á skaftið, frá stöku fjallgöngum, upp í dagsferðir og svo í nokkurra daga ferðir með allt á bakinu. Það er þó ekki fyrr en á síðastliðnum árum sem ég er farinn að brenna æ meira fyrir útivistina enda dásamlegt að finna hvernig það líður úr manni þreytan við það eitt að halda af stað í spennandi ævintýri.“

Feðginin Árni Þór og Aldís Von. Árni Þór stundar útivist …
Feðginin Árni Þór og Aldís Von. Árni Þór stundar útivist með dóttur sinni rétt eins og faðir hans gerði með honum. Ljósmynd/Aðsend

Með allt á bakinu

Hvernig er að vinna sem leiðsögumaður? 

„Hreint út sagt er það algjör draumur og vegur upp á móti átta til 12 mínútur yfir þrjú skrifstofustarfinu. Það er bara eitthvað svo heillandi við öll þessi mannlegu samskipti sem einkenna leiðsögnina og gleðina sem það færir manni sjálfum að eiga þátt í að skapa góðar minningar fyrir og með fólki sem flækist með manni um fjöll og firnindi. Núna er ég til dæmis í mjög spennandi og skemmtilegu verkefni hjá Ferðafélagi Íslands, ásamt Valgerði Húnbogadóttur. Á því námskeiði eru þátttakendur að undirbúa sig að ferðast með allt á bakinu. Við erum að byggja upp göngu- og bakpokaþol þeirra fyrir sumarið, förum í tvær útilegur þar sem þeim gefst færi á að æfa sig í að tjalda og búa sig fyrir næturnar og prófa sig áfram í meistaratöktum á prímusnum. Svo er alls ekki að skemma fyrir hvað fólkið sem er á námskeiðinu er skemmtilegt, lífsglatt og peppað fyrir þessari áskorun að ferðast vítt og breitt með allt sitt hafurtask á bakinu.“

Hvað er eftirminnilegasta ferð sem þú hefur farið í? 

„Það er án nokkurs vafa fimm daga ganga með allt á bakinu um Vatnaleiðina með snillingunum sem voru með mér í gönguleiðsagnarnáminu að öðrum ferðum ólöstuðum. Algjörlega frábær hópur þar á ferð sem skiptist á að leiðsegja, fræða og skemmta hvoru öðru með sögum, kveðskap og bröndurum. Við lögðum upp frá Hlíðarvatni og enduðum við Hreðavatn. Skoðuðum fallegar bergmyndanir í Foxufelli við Hítarvatn, gerðum heiðarlega tilraun til að veiða skötuorma í Háleiksvatni (lesist: vatnið var frosið og skötuormarnir sluppu því í þetta skiptið) og nutum útsýnisins ofan af Vikrafelli. Ég var að fara þessa leið í fyrsta skiptið og naut hverrar mínútu með samferðarfólki mínu, kynntist þeim enn betur og eignaðist þar með vini til lífstíðar.“

Árni Þór á toppi Vikrafells. Vatnaleiðin er fimm daga gönguferð …
Árni Þór á toppi Vikrafells. Vatnaleiðin er fimm daga gönguferð sem er í miklu uppáhaldi hjá Árna Þór. Ljósmynd/Aðsend

Beið lengi eftir ferðinni til Noregs

Stundar þú útivist erlendis líka? 

„Fyrir utan þessar hefðbundnu utanlandsferðir þá hef ég aðallega verið að sækja í hlaupaferðir erlendis. Það er ein slík ferð sem ég fór í nýlega sem stendur sérstaklega upp úr. Þá fór ég, ásamt Guðmundi Garðari Gíslasyni, til Noregs að hlaupa á frosnu stöðuvatni í um það bil 850 metra hæð í Tislefjorden í Gol kommúnunni.“

Hvernig var hlaupa á frosnu stöðuvatni? 

„Hlaupið var klárlega ólíkt öllu öðru sem maður hefur prófað á í þessu sporti. Rennislétt braut, hátt upp í landi í brakandi blíðu og sól. Þessi ferð var ákveðin í september 2019 eftir að Ragnar Harðarson vinur okkar Guðmundar fann þetta hlaup, Frozen lake marathon. Við ætluðum að fara í mars 2020, búnir að kaupa flug og hótel en hlaupið var blásið af það árið og aftur árið 2021. Við aftur á móti létum ekki deigan síga og vildum klára þetta verkefni sem og við gerðum núna í mars 2022. Ég hugsa að biðin hafi bara magnað upp spennu og eftirvæntingu hjá okkur og það kom í ljós að þetta hlaup var biðarinnar virði, algjörlega mögnuð upplifun. Hlaupið sjálft var vel skipulagt og umgjörðin hjá Norðmanninum flott í alla staði. Það voru um 400 þátttakendur sem tóku þátt í aðalhlaupinu á laugardeginum en kvöldið áður var stutt skemmtihlaup á vatninu þar sem búið var að koma fyrir kyndlum, kertum og litlum varðeldum til að lýsa hluta leiðarinnar upp.“

Árni Þór tók þátt í hlaupi á frosnu stöðuvatni í …
Árni Þór tók þátt í hlaupi á frosnu stöðuvatni í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

Er líka letidýr

Ertu með endalausa orku? 

„Það eru í raun og veru hlaupin, göngurnar og útiveran sem gefa mér orku fyrir hið daglega amstur hversdagsleikans. Tala nú ekki um ef maður er í góðum félagsskap að spjalla um allt milli himins og jarðar eða erum bara saman í þögninni. Ég væri hins vegar að ljúga ef ég segðist hafa endalausa orku og því er, að mínu mati, mikilvægt að hlusta á líkamann og leyfa sér bara að slaka á inn á milli átaka, hlaða batteríin og mæta galvaskur í næsta ævintýri. Ég er óttalegur nautnaseggur og letidýr inn á milli og það er ekkert erfitt að plata mig í að slaka aðeins á.“

Áttu þér uppáhaldsstað?

„Þegar ég er spurður þessarar spurningar er alltaf einn staður sem lýstur niður í hugann. Það er Uppgönguhryggur í Friðlandi að Fjallabaki. Fallegur, langur, litríkur hryggur sem er brattur beggja vegna með einstökum líparítskriðum sem eru svo áberandi innan Torfajökulsöskjunnar. Þetta er eins og að vera staddur í málverki. Ég hef það samt varla í mér að svara þessari spurningu án þess að minnast á Þórsmörk, hún á alltaf sérstakan stað í hjartanu – bæði út frá fallegri náttúru, góðum minningum af ferðum með kærustu og vinum auk þess sem endamark Laugavegshlaupsins er staðsett í Húsadal. Ég hef tekið þátt í því hlaupi fimm ár í röð og er skráður í sjötta sinn í ár.“

Séð yfir Álftavatn.
Séð yfir Álftavatn. Ljósmynd/Aðsend

Hvað þurfa allir að upplifa á Íslandi? 

„Svona fyrir utan þetta helsta sem hefur verið í tísku undanfarin ár að brasa innanlands (Grænihryggur, Þakgil og Stuðlagil svo fátt eitt sé nefnt) þá myndi ég klárlega mæla með langri helgi á Norðurfirði á Ströndum. Reima á sig gönguskóna, ganga til dæmis á Urðartind og Reykjaneshyrnu, skoða gömlu Síldarvinnsluna í Ingólfsfirði, skella sér í sund í Krossneslaug og fá sér almennilega fiskisúpu á Kaffi Norðurfirði. Þetta er uppskrift að algjöri snilld sem getur ekki klikkað.“

Freyja Magnúsdóttir kærasta Árna sést hér með Reykjaneshyrnu í baksýn.
Freyja Magnúsdóttir kærasta Árna sést hér með Reykjaneshyrnu í baksýn. Ljósmynd/Aðsend
Norðurfjörður.
Norðurfjörður. Ljósmynd/Aðsend

Á eftir að gera mjög margt

Er eitthvað sem þú átt eftir að prófa og langar til að gera?

„Það er heill hellingur sem ég á eftir að prófa og langar að gera, vonandi verður það þannig alla tíð. Í augnablikinu langar mig þó mest að ganga frá Núpsstaðarskógum yfir í Skaftafell. Hugsa að maður verði að slást í för með Ævari og Örvari Aðalsteinssonum, þeim eðal mönnum, um þær slóðir við fyrsta tækifæri.“

Ætlar þú að fara í einhverjar spennandi ferðir í vor og sumar?

„Vorið og sumarið hefur ekki verið skipulagt í þaula en það er engu að síður nóg framundan fyrir utan leiðsögnina. Ég er nú þegar skráður í Puffin Run í Vestmannaeyjum, Mýrdalshlaupið, Dyrfjallahlaupið, Laugaveginn og North Ultra þar sem hlaupið er meðal annars um Botnaleið sem er gömul þjóðleið á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þá mun ég klárlega fara í Volcano Trail hlaupið í Þórsmörk í september.

Annars er farið að kitla að þróa og blanda saman bakpokaferðum við hlaupin. Mig langar að hlaupa með allt á bakinu og vera sjálfum mér nægur með vistir og búnað í einhverja daga í því verkefni, mun án efa reka mig á og gera mistök í þeirri þróunarvinnu en læri af þeim. Til að byrja með hef ég hug á að hlaupa Kjalveg hinn forna í sumar á tveimur dögum með tjaldið, dýnuna, svefnpokann og vistir á bakinu. Ég hlakka mikið til þess. Við fjölskyldan ætlum að njóta okkar saman í sumar og munum eflaust fara í einhverjar göngur og aldrei að vita nema Laugavegurinn verði fyrir valinu því stelpan okkar, hún Aldís Von sem er níu ára, hefur sýnt honum mikinn áhuga.“

Grænihryggur.
Grænihryggur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert