Fylgdu draumnum um betra veður

Berglind Ólafsdóttir og fjölskyldan hannar fluttu til Marbella á Spáni í febrúar á þessu ári. Þau renndu blint í sjóinn en ákváðu að láta vaða. Þau flugu út á vit ævintýrann með þann draum í farteskinu að finna gott veður, strönd, barnvænt svæði og góðan leikskóla. Eins ótrúlega og það hljómar þá tókst það.

„Við vorum orðin ansi sólarþyrst í janúar þannig það var bara keyptur miði til Tenerife á meðan við vorum að sækja um leikskóla og finna lokastað. Marbella togaði samt alltaf mest í okkur og eftir að Viktoría dóttir mín komst þar inn í frábærann leikskóla sem ég hafði haft augun á lengi þá var keyptur miði þangað og við féllum strax fyrir staðnum,“ segir Berglind.

Hvað heillaði ykkur við Marbella þegar þið ákveðið að flytja þangað?

„San Pedro, svæðið í Marbella þar sem við búum á, er einstaklega snyrtilegur og fjölskylduvænn bær. Hér er róló á hverju horni, fólkið mjög almennilegt og allir slakir og rólegir. Bærinn sjálfur er mjög alþjóðlegur og flestir tala ensku. Það er líka alltaf líf og fjör hérna hvert sem maður fer og nóg að gera,“ segir Berglind.

Ströndin er uppáhaldsstaðurinn hennar Berglindar.

„Mér finnst æðislegt að fara á strandklúbb og eyða deginum þar en svo förum ég og dóttir mín oft líka bara á ströndina eftir leikskóla með teppi og nesti. Þar er líka róló sem henni finnst gaman að fara á. Það er svo dýrmætt að geta sótt dóttur sína á leikskólann og geta gert þessa hluti með henni. Við erum líka algert brunch fólk og erum dugleg að prófa nýja staði. Hingað til hefur Pan & Marmelade verið okkar uppáhalds og Hustle n Flow er mjög góður líka,“ segir hún.

Hún segir að það sé hreint æðislegt að vera með barn í Marbella og þau upplifi sig mjög örugg í San Pedro.

„Hér er fullt af rólóvöllum, gosbrunnum sem hægt er að vaða í og mikið af fjölskyldum og börnum. Það eru svo mikil lífsgæði í því að hafa svona gott veður, erum úti nánast allan daginn en eftir leikskóla hjá Viktoríu förum við oftast a rólóvöll, í einhvern skemmtilegan garð, ströndina eða í sund. Einnig erum við með góða verönd hjá okkur þar sem við erum oft bara að dúlla okkur þar sama,“ segir Berglind um lífið í sólinni.

Berglind segir að þau séu alltaf að upplifa eitthvað nýtt á Marbella. 

„Það sem er samt nauðsynlegt að gera hérna er að rölta um Puerto Banus. Það er ákveðin upplifun, falleg bátahöfn, veitingastaðir, verslanir og mikið mannlíf,“ segir hún. 

Hvernig myndir þú lýsa þínum draumadegi á Marbella?

„Ég myndi vakna og skella mér í ræktarfötin, hella upp á kaffi og setja í ferðamál og rölta svo með Gunna kærastanum mínum á Crossfit æfingu. Svo myndum við labba meðfram ströndinni og ræða allt á milli himins og jarðar á leiðinni.

Eftir æfingu myndum við fara á góðan brunch stað, sennilega á Pan & Mermelada þar sem ég myndi að öllum líkindum fá mér Eggs Florentine. Svo myndum við finna okkur huggulegan og barnvænan strandklúbb og eyða deginum þar með drykki og ávexti. Eftir ströndina væri svo farið út að borða á einhvern góðan stað og mögulega vera aðeins fram eftir í drykkjum. Ég er samt eiginlega bara að lýsa því hvernig afmælisdagurinn minn var, en hann var nánast nákvæmlega svona, en þá fékk ég líka að ráða öllu,“ segir Berglind ágnægð með lífið í Marbella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert