Vegas: Leikvöllur fyrir lífskúnstnera

Cirque du Soleil er með margar sýningar í gangi á …
Cirque du Soleil er með margar sýningar í gangi á nokkrum stöðum í Las Vegas. Húsfyllir hefur verið á sýningunni "O" viðstöðulaust í næstum aldarfjórðung. Ljósmynd/Cirque du Soleil

Í vesturhluta Bandaríkjanna má finna merkilega borg sem virðist ekki hafa ratað nógu vel á kortið hjá íslenskum ferðalöngum. Er löngu tímabært að bæta þar úr, því Las Vegas hefur upp á svo ótalmargt að bjóða.

Það er dæmigert fyrir Bandaríkin að nánast úti í miðri eyðimörkinni, syðst í Nevada, skuli hafa orðið til glitrandi borg neonljósa þar sem hægt er að upplifa allar lífsins lystisemdir. Einstakt andrúmsloft einkennir borgina og ekki að furða að Las Vegas hafi verið nýtt sem sögusvið margra ódauðlegra Hollywood-kvikmynda.

Sumir hafa lýst Las Vegas sem Disneylandi fyrir fullorðna enda líta margir á borgina sem stað til að sleppa fram af sér beislinu, en Las Vegas snýst um meira en risavaxin spilavíti og villt næturlíf, og er t.d. leitun að heppilegri áfangastað fyrir þá sem vilja öðru fremur njóta lífsins lystisemda og hafa gaman af því að vera til.

Sýningar Cirque du Soleil hafa hver sitt yfirbragð.
Sýningar Cirque du Soleil hafa hver sitt yfirbragð. "O" blandar saman eldi og vatni, og fagurfræði sem hefur staðið tímans tönn. Ljósmynd/Cirque du Soleil

Hrífandi ævintýri og sirkusatriði sem fá hárin til að rísa

Samhliða opnun Bellagio-hótelsins árið 1998 var vígður nýr sýningarsalur sem síðan þá hefur hýst Cirque du Soleil-sýninguna „O“. Er þetta langlífasta sýning kanadíska fimleikahópsins heimsfræga, ef undan er skilin sýningin Mystére sem er hýst af Treasure Islandhótelinu ögn norðar í Vegas. Það er ekki að ástæðulausu að húsfyllir er á öllum sýningum, dag eftir dag, enda sjónarspilið engu líkt og listræn upplífun sem bæði skemmtir og fær hárin til að rísa. Þeir sem vilja upplifa enn meira af kanadísku göldrunum hafa úr fleiri sýningum að velja því Circque du Soleil er með samtals sjö ólíkar sýningar í gangi í Vegas.

Matt Franco er einkar geðþekkur töframaður og ættu allir aldurshópar …
Matt Franco er einkar geðþekkur töframaður og ættu allir aldurshópar að hafa gaman af sýningunni hans. Ljósmynd/Matt Franco-Linq

Spilagaldrar með Matt Franco

Það gengur ekki að heimsækja Las Vegas án þess að fara á sýningu töframanns. Matt Franco er tiltölulega nýkominn til borgarinnar en þessum geðþekka unga manni skaut fyrst upp á störnuhimininn í hæfileikakeppninni America’s Got Talent fyrir hálfum áratug og hafa galdrarnir bara batnað síðan þá. Franco heldur spilagaldrasýningu á LINQ-hótelinu á besta stað í Las Vegas og gerir ótrúlegustu hluti með spilunum. Þykir töfrasýningin hans í dag sú besta sem borgin hefur upp á að bjóða. Gestir eiga eftir að skemmta sér vel en líka klóra sér í kollinum lengi á eftir til að reyna að átta sig á hvernig Franco fór að því að gera sumtöfrabrögðin.

Gömlu ljósaskiltin segja merkilega sögu gleðiborgar sem er einstök í …
Gömlu ljósaskiltin segja merkilega sögu gleðiborgar sem er einstök í öllum heiminum. Ljósmynd/Neon Museum

Safn sem nýtur sín best þegar sólin er sest

Ljósaskiltin í Las Vegas eru í senn merkilegur hluti af sögu borgarinnar og endurspeglun á bandarískri hönnunarmenningu, tísku og tíðaranda í gegn um árin. Norður af spilavítaklasanum er að finna einstakt safn, The Neon Museum, þar sem gömlu skiltin eru varðveitt. Best er að heimsækja safnið um eða eftir sólsetur en leiðsögumenn fylgja gestum um þetta litríka útisafn og segja þeim söguna á bak við valin skilti.

Fyrir aðdáendur Presley er ekkert rómantískara en hjónavígsla eða endurnýjun …
Fyrir aðdáendur Presley er ekkert rómantískara en hjónavígsla eða endurnýjun hjúskaparheita í Vegas-stíl. Ljósmynd/Bliss Wedding Chapel

Elvis beint í hjartastað

Virðist varla hægt að finna þá kvikmynd sem gerist í Las Vegas þar sem ekki bregður fyrir hjónavígsluathöfn með Elvis Presley-eftirhermu. Það er tiltölulega auðvelt fyrir pör að láta gefa sig saman í Nevada og með smá undirbúningi geta íslenskir ferðalangar látið pússa sig saman undir neonljósunum með löglegum hætti. En það er líka hægt að fá Elvis (eða hefðbundinn vígslumann, vilji fólk það frekar) til að einfaldlega endurnýja hjúskaparheitin og kallar það ekki á nein sérstök leyfi eða eyðublöð – bara rómantík.

Nýjasta kapellan í Las Vegas er Bliss Wedding Chapel og er ósköp falleg og hlýleg, rétt norður af þéttasta hótelsvæðinu. Alls kyns pakkar eru í boði og upplagt að biðja um að bílstjóri sæki parið upp á hótel á hvítri limósínu. Allt er gert til að hafa athöfnina i samræmi við óskir parsins, en ef Elvis er fenginn sem vígslumaður syngur hann nokkur vel valin lög og skapar rómantíska stund sem gleymist seint.

Sérfræðngar Lip Smacking Foodie Tours leiða gesti á milli sumra …
Sérfræðngar Lip Smacking Foodie Tours leiða gesti á milli sumra bestu veitingastaða Vegas til að smakka þeirra merkustu rétti. Ljósmynd/Lip Smacking Foodie Tours

Rússíbani fyrir bragðlaukana

Veitingastaðamenningin í Las Vegas er engu lík og gæti sumum gestum fallist hendur þegar velja þarf góðan stað til að snæða. Fyrirtækið Lip Smacking Foodie Tours býður upp á heppilega leið til að upplifa þverskurð af hápunktum matarmenningar gleðiog lífsnautnaborgarinnar. Leiðsögumaður sem þekkir veitingahúsageirann út og inn fylgir gestum á milli sjóðheitra veitingastaða og leyfir þeim að smakka sérvalda rétti sem endurspegla styrkleika og áherslur hvers matseðils.

Ef heppnin er með er stoppað á Catch sem er …
Ef heppnin er með er stoppað á Catch sem er einn heitasti staðurinn í Vegas og gerir asískum réttum góð skil. Ljósmynd/Lip Smacking Foodie Tours

Er eins gott að mæta með tóman maga því komið er við á þremur eða fjórum veitingastöðum í hvert sinn og alla jafna tveir réttir smakkaðir á hverjum stað.

Pakkinn kostar frá 125 dölum á mann og þarf að borga aukalega á hverjum stað vilji fólk vín með matnum. Er sérstaklega mælt með pakkanum „Savory Bites & Neon Lights“ sem lýkur með þyrluflugi yfir Las Vegas að nóttu til. Kostar sá pakki 299 dali á mann og er hverrar krónu virði.

Garðurinn í Bellagio hótelinu breytist með árstíðunum. Gosbrunnurinn fyrir utan …
Garðurinn í Bellagio hótelinu breytist með árstíðunum. Gosbrunnurinn fyrir utan hótelið er heimsfrægt kennileiti. Ljósmynd/Bellagio

Gosbrunnurinn fer ekki fram hjá neinum

Úr mörgum góðum kostum er að velja í Las Vegas en eitt hótel stendur upp úr sem heimsfrægt kennileiti og lúxusupplifun. Bellagio hótelið er mjög vel staðsett, mitt í spilavíta- og hótelhverfinu, og í göngufæri við helstu veitingastaði, verslanir og sýningar. Risavaxinn gosbrunnurinn sem vísar út að aðalgötu Las Vegas er heimsfrægt kennileiti og skemmtir vegfarendum með fallegri sýningu allt að 34 sinnum á dag.

Herbergin hjá Bellagio eru smekkleg og rúmgóð og oft mjög …
Herbergin hjá Bellagio eru smekkleg og rúmgóð og oft mjög gott útsýni út um risastóra gluggana. Ljósmynd/Bellagio

Mikill straumur fólks liggur í gegn um hótelið en Bellagio tekst samt að viðhalda ákveðnum glæsibrag sem ekki allir gististaðir í Vegas geta státað af, og má t.d. í hótelinu miðju finna einstakt gróðurhús sem er skreytt með styttum og lifandi blómum sem skapa ævintýraheim og skipt er um í takt við árstíðirnar. Herbergin eru rúmgóð og falleg og bæði umgjörð og þjónusta eins og best verður á kosið.

Verður að mæla sérstaklega með morgunverðinum á veitingastaðnum Lago á jarðhæð hótelsins. Þar er hægt að njóta máltíðarinnar með útsýni yfir gosbrunninn, en það er stjörnukokkurinn Julian Serrano sem ræður ríkjum í eldhúsinu. Matseldin er undir ítölskum áhrifum og hver einasti réttur hittir í mark. Má reikna með að borga um 75 til 150 dali á mann fyrir eftirminnilega máltíð. 

Veitingastaðurinn Lago býður upp á útsýni yfir gosbrunn Bellagio. Ítalskar …
Veitingastaðurinn Lago býður upp á útsýni yfir gosbrunn Bellagio. Ítalskar áherslur eru í matargerðinn og réttirnir hver öðrum ljúffengari. Ljósmynd/Lago



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert