„Stelpunum fannst þetta mikið sport“

Berglind Hreiðarsdóttir, matar- og ævintýrabloggari á Gotterí og gersemar, fór í fjölskyldu ævintýrareisu í Landmannalaugar. Fjölskyldan fór ásamt vinahjónum og dætrum þeirra. Þau keyrðu inn í Landmannalaugar á laugardagsmorgni og eyddu öllum deginum þar.

Hópurinn tók göngu upp Brennisteinsöldu og niður Grænagil, veiddi í Frostastaðavatni og fór í sund í náttúrulauginni. Þau gistu svo í skála við Landmannahelli. Daginn eftir fóru þau að Rauðufossum. Berglind segir fjölskylduferðina hafa verið einstaka og að þau stefni á fleiri slíkar í framtíðinni.

Ljósmynd/BerglindHreiðarsdóttir

Gönguferð

„Þetta voru tveir viðburðarríkir dagar og næst erum við harðákveðin í því að vera lengur. Veðrið var reyndar alveg magnað svo það hafði klárlega áhrif á upplifunina því það er nú ekki venjan að geta rölt um hálendið á stuttbuxum einum saman allan daginn í um 17 stiga hita.

Heklan okkar fallega sést vel á leiðinni upp í Laugar, við fórum Landmannaleið á leiðinni uppeftir en síðan Dómadalsleið næsta dag þegar við fórum heim. Það eru engin vöð á Landmannaleið nema rétt við Laugar og þar er hægt að leggja bílnum ef hann er ekki nógu hár til að komast yfir vaðið sem þar rennur eins og við gerðum. Þaðan er stutt í þjónustu- og skálavæðið.

Við ákváðum að ganga upp á Brennisteinsöldu með stelpurnar og þær voru ekkert smá duglegar. Við nestuðum okkur upp í bakaríi á leiðinni og allir borðuðu vel við skálann áður en haldið var af stað. Allar gönguleiðir eru vel merktar/stikaðar svo þegar veðrið er gott þarf enginn að hafa áhyggjur af því að villast. Bakaleiðin lá í gegnum Grænagil en það er kræklóttur vegur í gegnum hraunið. Þar fer maður ekki hratt yfir en fegurðin er alveg þess virði. Gönguleiðin upp á Brennisteinsöldu og niður í gegnum Grænagil er um sjö kílómetrar og tók okkur hátt í þrjár klukkustundir með allar stelpurnar sem stóðu sig eins og hetjur,“ segir Berglind.

Útsýnið er ljúft á toppnum fyrir þreyttar litlar fætur
Útsýnið er ljúft á toppnum fyrir þreyttar litlar fætur Ljósmynd/BerglindHreiðarsdóttir

Veiddu bleika fiska

Þau enduðu gönguna inn í Laugum og skelltu sér í náttúrulaugina. „Stelpunum fannst þetta mikið sport og minnstu minni fannst þetta smá ógeðslegt og slímugt um leið og henni fannst það frábært. Síðdegis stoppuðum við síðan við Frostastaðavatn í þeirri von að landa nokkrum „bleikum fiskum“ eins og dæturnar orða það. Það var svakalega mikil fluga þarna og þeir sem ekki voru með net þurftu hreinlega að vera inn í bíl svo ekki gleyma netinu ef þið hyggið á veiðiferð.

Það sem var þó fyrir öllu að þær fengu fisk og þær ætluðu aldrei að vilja fara. Það var hins vegar orðið áliðið og við ekki enn farin að elda kvöldmat. Kvöldmaturinn var um klukkan 22:00 þetta kvöldið eftir að það var búið að koma sér fyrir í skálanum.

Landmannahellir sjálfur er ekki stór en svæðið er þó engu að síður kennt við hann og gaman að skoða hann. Í Landmannahelli er ekki símasamband svo Berglind fékk sér göngutúr upp á næsta fjall til þess að taka nokkur símtöl og láta vita af sér,“ segir Berglind.

Rauðufossar

„Daginn eftir var ekki eins gott veður, það var smá rigning en fremur hlýtt og milt í veðri. Litlar stelpur voru aðeins lúnar eftir göngu deginum áður svo það gekk aðeins hægar að koma þeim áfram þann daginn. Hluti af hópnum sneri við hjá stóra fossinum en eitt og eitt Pez nammi á stikunum dró okkar dömu áfram upp að Auganu. Hvor leið um sig er um 5 km og mesti brattinn er við stóra fossinn sjálfan,“ segir Berglind.

Landmannahellir
Landmannahellir Ljósmyns/BerglindHreiðarsdóttir
Efri hluti Rauðufossa
Efri hluti Rauðufossa Ljósmynd/BerglindHreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert