„Þetta sumar litast aðallega af sveitastörfum“

Bóndinn, búfræðingurinn og fjölmiðlamaðurinn, Bjarni Rúnarsson, ætlar að mestu leyti að verja sumrinu heima í sveitinni. Hann er meðlimur í Stuðlabandinu sem kemur til með að spila um land allt í sumar. Það verður í nógu að snúast hjá Bjarna í sveitinni í sumar en hann er nýkominn í búskap á æskubýlinu, Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Foreldrar Bjarna ætla að fara hætta búskap á næstunni. 

„Ég get ekki sleppt takinu á þessum stað án þess að máta mig við þetta. Búskapur hefur alltaf blundað í mér,“ segir Bjarni um ákvörðunina að flytja í sveitina. 

Bjarni Rúnarson er fréttamaður og hefur starfað á Rúv síðastliðinn …
Bjarni Rúnarson er fréttamaður og hefur starfað á Rúv síðastliðinn ár.

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Þetta sumar litast aðallega af sveitastörfum. Ferðalögin verða sennilega í styttri kantinum þar af leiðandi. Ég verð talsvert á flakki um landið með Stuðlabandinu að spila hér og þar á milli mjalta. Ég sé fram á að fara á Eistnaflug í Neskaupstað, á Akureyri, Hofsós, Hvammstanga, Blönduós, Akranes og til Vestmannaeyja. Og svo bara hér um Suðurlandið eftir því sem tíminn leyfir,“ segir Bjarni.

Það er alltaf sól og blíða í sveitinni
Það er alltaf sól og blíða í sveitinni

Bjarni á sér nokkra uppáhaldsstaði á landinu.

„Borgarfjörður eystri er undraveröld á sumrin, Vestfirðir og Flatey á Breiðafirði eru stórkostlegir, Mývatnssveitin, Þjórsárdalurinn og Uppsveitirnar og ég gæti haldið endalaust áfram. Besta sem ég veit er samt að vera heima á sumrin í brakandi þurrki í heyskap. Það er ekkert betra,“ segir hann.

Hann segist vera nokkuð gamaldags þegar það kemur að ferðalögum. Honum þykir alltaf gaman að hella upp á kaffi með gamla laginu; prímusinn, kaffitrektin og brúsinn koma með honum í öll ferðalög.

„Ég sé enga rómantík í að draga allt heimilið með mér í ferðalög. Þegar ég fer í útilegur þá verður tjaldvagninn fyrir valinu,“ segir Bjarni.

Bjarni að hella sér uppá kaffi í útilegu
Bjarni að hella sér uppá kaffi í útilegu

Hverjar eru þínar skemmtilegustu minningarnar af útihátíðum?

„Það er margt sem kemur upp í hugann. Yfirleitt er ég að koma fram á hátíðunum og ævintýrin í kringum það eru fjölmörg. Það er sérlega eftirminnilegt risa Skátamót sem haldið var á Úlfljótsvatni fyrir nokkrum árum. Það var frábært veður og gleðin allsráðandi, alveg þar til að það braust út veirufaraldur meðal gestanna. Við sluppum samt. Svo stendur Þjóðhátíð alltaf fyrir sínu,“ segir Bjarni.

Tónlistarmaðurinn Bjarni
Tónlistarmaðurinn Bjarni

Hann á sér nokkrar uppáhaldssundlaugar sem hann reynir að heimsækja sem oftast.

„Það er einhver sjarmi við Akureyrarlaugina. Þar mætast gamli og nýji tíminn. Egilstaðalaug er líka mjög góð. Annars er Skeiðalaug auðvitað afburða best,“ segir Bjarni staðfastur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert