Álfar og menn sameinast í Hellisgerði

Skrúðgarðurinn Hellisgerði í Hafnarfirði fyllist af álfum á álfahátíð sem …
Skrúðgarðurinn Hellisgerði í Hafnarfirði fyllist af álfum á álfahátíð sem haldin verður um helgina.

Um helgina munu álfar og menn sameinast í miklum hátíðarhöldum í skrúðgarðinum Hellisgerði í Harnarfirði. Garðurinn hefur lengi verið tengdur álfum, en um helgina munu koma þangað álfar umfram þá sem búa í garðinum allan ársins hring. 

Álfahátíðin hefur verið haldin undanfarin ár í Hafnarfirði og hafa vinsældir hennar aukist, enda mikil skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin hefst á sögustund bókaálfs klukkan 14, en að því loknu mæta álfarnir Móa og Blómi á svið og kynna dagskrá helgarinnar. Álfadrottning, álfakóngur og Húlladúllan verða að sjálfsögðu á svæðinu og kæta bæði menn og álfa. 

Ávaxtakarfan, Tónaflóð, Vala Eiríks og Stefán eru meðal þeirra sem hafa boðað komu sína á hátíðina, en auk þess verður boðið upp á gong hugleiðslu og andlitsmálningu fyrir börnin. Þá verður Litla Álfabúðin og gróðurhús á svæðinu þar sem hægt verður að gæða sér á töfrandi kræsingum. Það er því tilvalið að njóta helgarinnar í Hellisgerði, en garðurinn er staðsettur í hjarta Hafnarfjarðar og eru gestir hvattir til að mæta í álfabúningum. 

mbl.is