Teiknuðu stórt reiðhjól yfir Evrópu

Leiðin sem parið hjólaði myndar augljóslega reiðhjól á Evrópukortinu.
Leiðin sem parið hjólaði myndar augljóslega reiðhjól á Evrópukortinu. Skjáskot

Kærustuparið Daniel Rayneau-Kirkhope og Arianna Casiraghi lauk nýverið við 965 kílómetra langa reiðhjólaferð um Evrópu. Hjólaleið parsins var ekki sú algengasta en á leið sinni teiknuðu þau reiðhjól á Evrópukortið með GPS-mælum sínum.

Leiðina hjóluðu þau til að vekja athygli á umhverfismálum og hvetja fólk til að hjóla meira í stað þess að keyra bíla. 

Parið byrjaði á verkefninu sumarið 2019 en þurfti fljótlega að leggja pedalana á hillunni vegna hnémeiðsla hjá Casiraghi. Í nóvember sama ár ætluðu þau að halda áfram en hættu við vegna þess að það var of kalt til að tjalda.

Þau stefndu svo að því að klára reiðhjólið í mars 2020 en gátu það ekki vegna kórónuveirunnar og lokaðra landamæra. Reiðhjólið liggur í gegnum sjö Evrópulönd og voru þau Rayneau-Kirkhope og Casiraghi á hjólunum í tæplega fjóra mánuði samanlagt. 

Þrjú met

Með teikningunni slógu þau þrjú met. Reiðhjólið er stærsta teikning sem teiknuð hefur verið með GPS, stærsta slíka teikning sem gerð hefur verið á hjólum og svo stærsta teikning af reiðhjóli sem teiknuð hefur verið. 

„Það var aðallega mikill léttir að sjá teikninguna loksins á kortinu. Við mættum svo mörgum hindrunum. Þegar við byrjuðum aftur á þessu núna veltum við fyrir okkur, hvað gæti eiginlega farið úrskeiðis? Okkur leið eins og okkur hefði mistekist þegar við náðum ekki að klára þetta fyrst. Eins og við værum föst. Þannig við erum mjög ánægð,“ sagði Casiraghi í viðtali við Guardian

Þegar þau spjölluðu við Guardian voru þau í Sviss, á leið heim til sín á Ítalíu, en þau eru bæði eðlisfræðingar. 

Þau fóru í gegnum Frakkland, Þýskaland, Sviss, Austurríki, Belgíu, Lúxemborg og Holland á leið sinni en Rayneau-Kirkhope smíðaði hjólin þeirra sjálfur. Á hjólunum eru gott pláss fyrir farangur og en með þeim í för alla leiðina var hundurinn þeirra Zola. 

mbl.is