Vilt þú fá borgað fyrir að flytja til Sardiníu?

Stjórnvöld á Sardiníu bjóða nú 15 þúsund evrur til þeirra …
Stjórnvöld á Sardiníu bjóða nú 15 þúsund evrur til þeirra sem vilja setjast að á eyjunni. Ljósmynd/Unsplash

Stjórnvöld á ítölsku eyjunni Sardiníu bjóða nú 15 þúsund evrur, eða rúmar tvær milljónir króna, til fólks sem tilbúið er til þess að flytja til eyjunnar. Sardinía er ekki fyrsti staðurinn á Ítalíu sem sett hefur upp úrræði sem þessi, en fjöldi ítalskra bæja hafa meðal annars selt hús á eina evru til að sporna við fólksfækkun. 

Íbúum á Sardiníu hefur fækkað talsvert á undanförnum áratugum en ungt fólk flytur þaðan til að finna sér vinnu við hæfi. 

Tilboðið frá stjórnvöldum er ýmsum skilyrðum háð, en tilvonandi íbúar þurfa að nota peninginn í að gera upp húsnæði í bæjum þar sem færri en þrjú þúsund búa. Þar á meðal eru bæirnir Galtellí og Calasetta. Þá verða þeir líka að búa þar allt árið um kring, en ekki nota húsið sem sumardvalarstað. 

Sardinía er næst stærsta eyja Ítalíu, Sikiley er sú stærsta, og er þekkt fyrir sínar hvítu strandir. 

Í fréttatilkynningu sagði Christian Solinas, forseti Sardiníu, að úrræðið væri meðal annars hugsað til þess að skapa betri aðstæður fyrir ungt fólk á eyjunni. „Við getum ekki haldið áfram að vaxa án þess að hlúa að innviðum á svæðunum sem verst hafa orðið úti, og til þess að gera það þurfum við að fjárfesta í nýsköpun,“ sagði forsetinn en gert er ráð fyrir að verja 105 milljónum evra í verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert