Þess vegna áttu að vera fyrstur um borð

Ferðavefurinn tók saman nokkur góð ráð.
Ferðavefurinn tók saman nokkur góð ráð. Ljósmynd/Pexels/Daniel Frese

Það er ódýrara og fljótlegra að ferðast bara með handfarangur þegar maður fer til útlanda. Ef maður ber sig ekki rétt að getur það hins vegar kostað mann fjárútlát. Ferðavefurinn tók saman nokkur ráð fyrir þau sem vilja helst ferðast bara með handfarangur. 

Vertu með fyrstu farþegum um borð

Ef þú ert með seinustu farþegunum um borð getur þú lent í því að það er ekki pláss fyrir handfarangurstöskuna þína fyrir ofan sætin. Þá gætir þú lent í því að þurfa að innrita hana með tilheyrandi veseni.

Vandaðu þig við að pakka

Lengi hefur verið tekist á um hvort henti betur að brjóta föt saman á venjulegan hátt eða rúlla þeim upp í töskuna. Sérfræðingar í ferðalögum mæla með því að rúlla fötunum saman og þá nærðu að troða meiru í töskuna.

Gott ráð er líka að kaupa pökkunareiningar sem hjálpa þér að flokka föt og hluti betur. 

Ekki eyða plássi í stóra hluti 

Föt úr þykku efni taka meira pláss í töskunni og því er sniðugt að vera frekar í þeim en að pakka þeim þar. Annars gætir þú endað á því að þurfa að greiða fyrir yfirvigt. 

Ekki kaupa hluti fyrir brottför

Ekki pakka niður hlutum sem þú getur keypt á áfangastað. Þetta á við sólarvörn, tannkrem og sjampó. Þessa hluti getur þú líka fengið frítt á hótelinu ef þú dvelur á einu slíku. Með því að bíða eftir að kaupa hluti á áfangastað sparar þú pláss og stundum pening.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert