Aska eiginmannsins týndist á leið í Disney World

Aska Gordons heitins Jacksons týndist á leiðinni í Disney World.
Aska Gordons heitins Jacksons týndist á leiðinni í Disney World. AFP

Joyce Jackson, frá Abergele í Wales, segir flugfélagið Virgin Atlantic hafa týnt ösku látins eiginmanns hennar þegar hún flaug með öskuna til Bandaríkjanna.

Jackson flaug til Orlando í Bandaríkjunum hinn 4. október síðastliðinn frá Manchester. Með í för var aska eiginmanns hennar, Gordons, og giftingarhringir þeirra, en hafði hún hug á að grafa öskuna á ströndinni í Pirates of the Caribbean-garðinum í Disney World. 

„Gordon elskaði þennan stað. Hann talaði við persónurnar. Þetta var ekki pílagrímsför okkar, en mig langaði að grafa hluta af ösku hans og hringana okkar þarna,“ sagði Jackson í viðtali við North Wales Live. Gordon lést fyrir tveimur árum, 78 ára að aldri, og ákvað Jackson að fara til Bandaríkjanna til að fagna áttræðisafmæli hans.

Askan fór aldrei vestur um haf

Taskan skilaði sér ekki til Bandaríkjanna og fór hún að leita að henni við komuna. Hún segir flugfélagið ekki hafa hjálpað henni mikið og svo hafi virst sem starfsfólkið hefði lítinn áhuga á því. 

Í töskunni voru líka fötin hennar og aðrar nauðsynjar. Þrátt fyrir það naut hún dvalarinnar í Orlando og fór í Disney World.

Taskan fannst við heimkomuna í Manchester, en þá kom í ljós að taskan með öskunni hafði aldrei lagt af stað til Bandaríkjanna. Fékk Jackson þær skýringar að merkimiðinn á töskunni hefði ekki verið festur almennilega. „Það var karl sem setti hann á. Þetta var ekki svona límmiði sem þú vefur utan um, heldur virtist hann vera úr pappír. Hann hlýtur að hafa dottið af,“ sagði Jackson. 

Aðeins hluti ösku Gordons heitins var meðferðis, en það sem eftir var, er í blómapotti að heimili hennar. Spurð hvort hún ætli að gera aðra tilraun til þess að koma ösku hans og hringjum fyrir í Disney World sagði hún nei. 

„Ég get ekki farið aftur, því ég hef ekki efni á því, og ég er 78 ára.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert