„Það er fyrst og fremst fjallamennskan og útivistin sem togar“

Sölvi Bernódus Helgason, Armas Salsola, Daníel Magnússon og Halla Jónsdóttir …
Sölvi Bernódus Helgason, Armas Salsola, Daníel Magnússon og Halla Jónsdóttir stilla sér upp á Hengilssvæðinu. Ljósmynd/Franz

Sigurður Sóleyjarson er talsmaður Advanced Shelter á Íslandi sem framleiðir handgerð fjallaskíði og fjallabretti. Ísland er eitt stórt leiksvæði fyrir fólk sem finnst gaman að renna sér í fjöllunum. Þessi handgerðu bretti eru talsvert frábrugðin venjulegum svigskíðum og snjóbrettum.

Fjallaskíðaíþróttin hefur notið mikilla og vaxandi vinsælda hér á landi á undanförnum árum en sportið sameinar í raun tvö áhugamál; fjallgöngur og skíðamennsku, og er hægt að stunda það langt fram á sumar hér á landi, ef snjór og veður leyfir.

„Advanced Shelter byggist á teymi sem hefur víðtæka reynslu í fjallamennsku, hönnun, verkefnastýringu á alþjóðamarkaði og vörumerkjahönnun,“ segir Sigurður.

„Nafnið Advanced Shelter fæðist sem óður til nokkurra tilvitnana úr dagbókum rithöfundarins Bruce Chatwins, og bókinni Draugaleikur eftir fjallamanninn Joe Simpson sem snerta á svokölluðu „flow-state“ en útivistin veitir okkur skjól til að dvelja um einhverja stund í núinu, sérstaklega þegar aðstæður verða erfiðar og krefjast þess að við einbeitum okkur að stað og stund.

Brettin eru eins og listaverk.
Brettin eru eins og listaverk. Ljósmynd/Daníel

Við sem skíðum í teyminu byrjuðum að skíða samhliða því að læra að ganga, það er mjög algengt, svo komu fjallabrettin náttúrlega í kjölfarið sem hluti af útivist og fjallamennsku, en sumir byrjuðu strax á brettum og skíðuðu aldrei,“ segir Sigurður.

Hópurinn þróast í allar áttir

Þrátt fyrir að vörumerkið hafi byrjað að vekja athygli á samfélagsmiðlum fyrir ekki svo löngu teygði verkefnið sjálft sig langt aftur í tímann.

„Hópurinn sem kemur að Advanced Shelter er samvinnandi tengslanet sem hefur starfað við hönnun, vöruþróun og framleiðslu, markaðssetningu og vörumerkjaþróun og fleira sem tengist fjallamennsku um alla tíð. Þetta er skipulögð starfsemi markaðssetjandi fjallamanna og vöruprófara sem hefur þróast í alls konar áttir og oft ansi langt frá kjarnastarfi Advanced Shelter.

Á toppnum á fjallabrettum frá Advanced Shelter.
Á toppnum á fjallabrettum frá Advanced Shelter. Ljósmynd/Daníel

Við erum til dæmis með tveggja ára verkefni í gangi í Bandaríkjunum með ónefndu liði úr bandarísku NFL-deildinni í ruðningi og fólki sem tengist Versace-tískuvörumerkinu. Grunnbúðir til fjalla eru nægtahorn af hæfileikafólki með tengslanet. Óumflýjanlega slær slíkum pólum saman og ef það hentar þá fæðast stundum verkefni eins og Advanced Shelter-vörumerkið. Þetta er í raun bara náttúruleg þróun.“

Stór heimur fjallamannsins

Teymið í kringum Advanced Shelter kemur víða að úr heiminum og eiga þau það öll sameiginlegt að brenna fyrir útivist.

„Það yrði erfitt að setja puttann á hver stofnaði hvað. Hópurinn sem Advanced Shelter skapaðist af er vörumerkjaskapandi og markaðssetjandi fjölhæfileikahópur frekar en eiginlegur vörumerkjakjarni. Annars er heimur fjallamannsins ekki mjög stór og allir þekkja einhvern sem þekkir einhvern og allir fara í gegnum sömu svæði á svipuðum tímum hvort sem það er við klettaklifur eða háfjallamennsku.

Galdurinn hefur kannski aðallega falist í að skipuleggja kjarnastarfið og halda utan um verkefnastýringu en það eru alkemistar í Frakklandi og Bandaríkjunum sem hafa yfirsýn yfir það. Allt sem snýr að fagurljósmyndun fer fyrir augu Quentins Iglésis frá Chamonix í Frakklandi, en Quentin sér einnig um markaðsteymi á Alpasvæðinu og ýmislegt fleira.“

Á fjallaskíðum er skíðað og gengið á fjöll.
Á fjallaskíðum er skíðað og gengið á fjöll. Ljósmynd/Daníel

Fjöllunum er alveg sama

Þróun vörumerkisins hér á landi hefur verið í höndum fárra en góðra Íslendinga sem eru allir mikið útivistarfólk.

„Á Íslandi halda Hrannar Sigurðsson þyrlubjörgunarmaður hjá Landhelgisgæslunni og Daníel Magnússon snjóbrettamaður utan um hönnun á fjallafatnaði með Þóru Ragnarsdóttur hjá Cintamani, en snillingarnir Halla Jónsdóttir hjá Laufhjóli og Franz Friðriksson ásamt Jónasi Stefánssyni sjá um prófun og aðstoða við vöruþróun á Íslandi.

Magnús Sigurðsson skíðamaður stýrir skíðahönnun og prófun en sjálfur bý ég erlendis og vinn með teymum úti í heimi við alls konar hönnunar og markaðssetningarverkefni. Framleiðsla okkar á fjallaskíðum hefur svo verið í Svíþjóð og Póllandi í gegnum tengslanet okkar í Chamonix og Kanada.

Það eru því bara örfáir Íslendingar í hópnum þó að hjarta vörumerkisins slái í Chamonix og á Íslandi en annars skipta landamæri engu í fjallamennsku. Tímabil og veðurfar skipta hins vegar máli og fjöllunum er alveg sama hvaðan fólk sækir uppruna sinn.“

Fjallaskíðastaðirnir gerast ekki fallegri.
Fjallaskíðastaðirnir gerast ekki fallegri. Ljósmynd/Franz

Fallhlífarstökkvari í hópnum

Vörumerkið er hins vegar langt frá því að vera einskorðað við vetraríþróttir.

„Við erum einnig í innilegu samstarfi við franska svifvængjavörumerkið Level Wings og nýsjálenska hópinn SkiAndFly. Nýsjálendingurinn Asher-Tal Zalchendler og Norðmaðurinn Andreas Mosling eru akkeri hópsins í Noregi en Andreas er meðal annars landsliðsmaður Noregs í fallhlífarstökki. Advanced Shelter-teymið er líka með BASE-stökkvara innanborðs, sem eru einmitt á Tröllaskaga þessa dagana, en BASE-stökk tengist fjallamennsku á ýmsan hátt og við höfum gert verkefni með svifgallaframleiðandanum Squirrel.

Annars erum við líka með Bandaríkjamenn og Kanadamenn í hópnum og þetta er í raun alltof fjölmennur, og fljótandi, hópur til að útlista með nokkrum orðum. Við höfum sem dæmi gert nokkur samstarfsverkefni með bandarísku umhverfissamtökunum „Protect Our Winters“ með yfirsjón frá fyrrverandi ritstjóra Outside Magazine, Jeremy Spencer, en yfirsýn yfir það verkefni birtist í öllum helstu útivistarblöðum Bandaríkjanna.“

Handgert með miklum unaði

Fjallaskíðin og fjallabrettin frá Advanced Shelter hafa einnig vakið verðskuldaða athygli fyrir listrænt útlit en brettin og skíðin hafa verið framleidd í mjög takmörkuðu upplagi hingað til.

„Suðurafríski listamaðurinn Brigitte Cronje og Argentínumaðurinn Thomas Gandini hafa yfirsýn hvað varðar listræna vinnslu og samstarfsverkefni við listafólk sem snúa að skreytingu á skíðum og brettum, en samstarfsverkefni við íslensku listakonuna Sunnevu Weisshappel er undir nálinni núna og brettin hennar Sunnevu eru komin í hús.

Fjallaskíði og fjallabretti Advanced Shelter eru handgerð með miklum unaði. Þetta eru hágæðagræjur sem við gerum í takmörkuðu upplagi árlega og seljast að mestu fyrir fram. Þetta er fyrst og fremst framleiðsla af gersemum fyrir púrista og innanbúðarfólk sem einnig nýtist við önnur markaðssetningar- og hönnunarverkefni úti í heimi.

Við ætlum hins vegar að bjóða upp á takmarkað upplag á næstunni hjá Cintamani, aðallega sem hluta af okkar markaðsstarfi og vegna eftirspurnar, en helst vildum við geta valið í hvaða hendur þessar gersemar fara. Við munum ekki framleiða meira en 100 pör af skíðum og 100 pör af fjallabrettum árlega, það magn er alveg fullkomið fyrir okkar þarfir.“

Landamæralaust vörumerki

Eins og staðan er í dag er Advanced Shelter landamæralaust vörumerki, án yfirbyggingar, og stendur ekki til að breyta því á næstunni en fleiri vörumerki frá sama teymi gætu litið dagsins ljós í nalægr framtíð.

„Yfirbygging er slæmur kostur og módelið okkar er hannað út frá því að allir aðilar geti búið hvar sem er í heiminum á hverjum tíma og þannig elt öll helstu tímabil fjallamennsku og sinnt verkefnum víða um heim.

Advanced Shelter er bara einn hluti af okkar starfi, vörumerki sett saman af frekar stórum hópi og við erum að þróa fleiri vörumerki. Bráðlega kemur vörumerkið Art of Wool sem verður með Merino-ullarhúfur og -ullarfatnað í boði, en við erum byrjuð að blanda þessu nýja vörumerki inn í markaðsstarf sem snýr að Advanced Shelter. Við höfum einnig áhuga á að skoða einhverja kanta á brimbrettamennsku í köldum sjó og vöruþróun í kringum það og myndum þá að sjálfsögðu byrja að gera háklassabrimbretti í takmörkuðu upplagi, líklegast framleidd í Skotlandi og eins og áður starfa með öðrum vörumerkjum.“

Dægrastytting sóar tíma

En hvað gera liðsmenn Advanced Shelter sér til dægrastyttingar þegar þeir eru ekki á þeysingi um fjöll og firnindi víðsvegar í heiminum?

„Lífið er stútfullt af spennandi verkefnum og dægrastytting sóar tíma. Flest sem við gerum tengist okkar starfi á einhvern hátt hvort sem það er útivist, hlaup, fjallamennska eða bóklestur og annað nám eða skíði, skriftir, ljósmyndun, ferðalög eða grafísk hönnun og annað slíkt, vinnan er lífið.

Þegar allt kemur til alls eru fjallaskíði og fjallabretti bara tól til fjallamennsku. Það er fyrst og fremst fjallamennskan og útivistin sem togar, ekki vegna mikils áhuga heldur vegna nauðsynjar. Við erum það sem við gerum og útivistin hefur tálgað okkur inn í óbrjótanlegt mót og þannig gert okkur að fjallafólki. Við höfum ekkert val,“ bætti Sigurður við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert