Missti af flugi og réðst á starfsmann

Konan reyndi að innrita sig of seint í flugið.
Konan reyndi að innrita sig of seint í flugið. AFP

Kona réðst á starfsmann flugfélagsins Emirates á alþjóðaflugvellinum í Mexíkóborg eftir að henni var meinað að fara um borð í flugvél. Á myndbandi sést hvernig konan gengur í skrokk á starfsmanninum áður en hún klifrar yfir innritunarborðin og brýtur allt og bramlar.

Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla reiddist konan eftir að hún reyndi að innrita sig of seint í flug, þar að auki var henni tjáð að vegabréfið hennar væri útrunnið og hún gæti ekki farið neitt.

Talsmaður Emirates staðfesti við Independent að atvik hefði átt sér stað á alþjóðaflugvellinum í Mexíkóborg 1. nóvember síðastliðinn þar sem farþegi hefði reynt að innrita sig seint með útrunnu vegabréfi. 

„Viðskiptavininum var ekki hleypt um borð og brást ókvæða við og lagði hendur á starfsmann á vellinum. Nauðsynlegt var því að kalla til öryggisgæslu og lögreglu,“ sagði talsmaðurinn. Óljóst er hvort konan sætir enn gæsluvarðhaldi eftir atvikið.

mbl.is