Ástfangin í borg ástarinnar

Brad Falchuk og Gwyneth Paltrow elska París.
Brad Falchuk og Gwyneth Paltrow elska París. AFP

Leikkonan Gwyneth Paltrow og handritshöfundurinn Brad Falchuk fóru í rómantíska ferð til Parísar á dögunum. Stjörnuhjónin elska París og á Paltrow sína uppáhaldsstaði í borginni. 

„Borg ástarinnar með þið vitið hverjum,“ skrifaði Hollywood-stjarnan á Instagram og birti myndir af sér og eiginmanni sínum í París. Hjónin nutu þess að vera í borginni og borðuðu góðan mat. Þau gengu með fram ánni Signu og borðuðu á hinu fræga kaffihúsi Café de Flore. Kaffihúsið þurfa allir að borða á enda frægt kennileiti í borginni, á kaffihúsinu voru helstu listamenn og hugsuðir 20. aldarinnar fastagestir. 

Paltrow og Falchuck hafa oft farið saman til Parísar og fóru meðal annars þangað í brúðkaupsferð fyrir nokkrum árum. Leikkonan sem er góð í að gefa lífstílsráð mælir sérstaklega með nokkrum stöðum í París og nágrenni á vef sínum Goop. Þar má meðal annars nefna hið fræga Louvre, Tuileries-garðinn, heimsókn í Versali, kíkja á D'Orsay-safnið og fara í óperuna. 

mbl.is