Ætlaði til Sydney en endaði í Sidney

Sydney og Sidney er ekki það sama.
Sydney og Sidney er ekki það sama. Unsplash/Samsett mynd

Bandarískur ferðamaður á leið til Sydney í Ástralíu varð ansi vonsvikinn þegar hann lenti í borginni Sidney í Montanaríki í Bandaríkjunum. Maðurinn ruglaði saman skammstöfun flugvallanna og bókaði sér óvart frí til Sidney, þar sem flugvöllurinn er með skammstöfunina SDY, en ekki Sydney, með skammstöfunina SYD.

Karlmaðurinn, sem heitir Kingsley Burnett og er 62 ára, sagði frá í viðtali við KTV2.

Burnett grunaði að eitthvað væri að fara úrskeiðis í ferðaplönum hans þegar hann leit út um gluggann við lendingu og sá snæviþakta fjalltoppa. „Þá vissi ég að ég væri kominn í vandræði,“ sagði Burnett. Hann lenti í borginni Billings í Montana þaðan sem hann flaug í minni vél til Sidney.

„Þetta var allt í skammstöfuninn. SYD, en ekki SDY. Það verður einhver að laga þetta,“ sagði Burnett sem viðurkenndi að hann hafi verið hissa en ánægður með hversu lítið hann þurfti að greiða fyrir flugferðina, sem hann taldi auðvitað að myndi koma honum hinu megin á hnöttinn.

Burnett dvaldi á Boothill hótelinu á meðan hann beið eftir flugi sínu aftur heim. Hótelstjórinn sagði að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem gestur á hótelinu ruglaði saman borgunum tveimur.

„Þetta er í annað sinn sem það kemur gestur til okkar sem var á leiðinni til Sydney í Ástralíu,“ sagði Shelli Mann hótelstjóri Boothill í Sidney í Montana.

mbl.is