Rottur á stærð við ketti hræða ferðamenn

Rotta á rölti og hús í Wales.
Rotta á rölti og hús í Wales. Samsett mynd

Rottur á stærð við ketti hafa verið að finna sér leið inn í sjávarbyggð í Wales. Nagdýrið, sem heimamenn eru að kalla „ofurrottur“, eru búnar að koma sér vel fyrir í Tenby sem er vinsæll strandbær. Þessi bær laðar til sín þúsundir sumarferðamanna árlega samkvæmt The BBC.

Þessi tiltekna tegund af meindýrum er sögð ónæm fyrir eiturefnum og hefur svo öflugar og sterkbyggðar tennur að þær geta auðveldlega nagað í gegnum steypu. 

Íbúar í bænum óttast skepnurnar sem eru sagðar 30-50 cm á lengd frá höfði til hala.

„Þú getur bara ómögulega drepið þær hraðar en þær geta fjölgað sér,“ sagði einn heimamaður og yppti öxlum. „Þegar þær eru komnar eru þær komnar til að vera.“

Það má áætla að kvenrotta sé með sex got á ári með um 12 rottuungum. Þeir ná kynþroska eftir fjórar til fimm vikur sem þýðir að stofn getur stækkað úr tveimur rottum í um 1.250 á einu ári. 

Tenby er frægur fyrir að hýsa þríþrautarviðburðinn Wales Ironman í september á hverju ári og hefst hann á 2,4 mílna sjósundi. En fregnirnar af „ofurrottunum“ sem margar halda til á ströndinni er líklegt til að fæla keppendur frá. Hinn árlegi viðburður gefur bænum um fimm milljónir punda og því til mikils að tapa ef slútta þarf keppninni vegna rottufaralds.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert