Bláa Lónið og Seljalandsfoss á lista yfir fallegustu staði í Evrópu

Seljalandsfoss og Bláa Lónið eru á lista yfir 25 fallegustu …
Seljalandsfoss og Bláa Lónið eru á lista yfir 25 fallegustu staði í Evrópu. Samsett mynd

Tímaritið Travel & Leisure tók saman lista yfir þá 25 fallegustu staði sem finna má í Evrópu. Á listanum eru tvær íslenskar perlur, hinn magnaði Seljalandsfoss og ein fallegasta náttúrulaug landsins, Bláa Lónið. 

Blaðið fer mjög lofsamlegum orðum um íslenska fossinn og jarðlaugina sem eiga það sameiginlegt að vera vinsælt aðdráttarafl fyrir ferðamenn hvaðanæva úr heiminum.

Seljalandsfoss er eitt stórbrotnasta náttúruundur Íslands. Þessir 60 metrar af hreinni náttúrufegurð hafa heillað ferðamenn árum saman og finnst mörgum spennandi að ganga í hellinn og standa fyrir aftan úðatjaldið.

Bláa Lónið er þekkt fyrir að vera ein fallegasta náttúrulaug og heilsulind í heimi. Í Bláa Lóninu baða gestir sig í hlýjum jarðsjónum á meðan þeir horfa á eldfjallahraunið sem umkringir lónið. 

Hér fyrir neðan má lesa aðeins um topp fimm staðina á lista Travel & Leisure. 

Villa Rufolo, Ravello, Ítalía

Villa Rufolo á Ítalíu.
Villa Rufolo á Ítalíu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Af öllum þeim draumkenndu stöðum sem er hægt að heimsækja við Amalfi–ströndina er Ravello alltaf vinsæll meðal ferðamanna. Bærinn státar af fallegri list, tónlist og fegurð. Villa Rufolo er glæsilegur sjávarbústaður í bænum sem dáleiðir gesti sína með fallegum klettagörðum, einstakri samsetningu byggingarstíla og óviðjafnanlegu útsýni yfir Tyrrenahafið. 

Egremni–ströndin, Lefkada, Grikkland

Egremni-ströndin á Grikklandi.
Egremni-ströndin á Grikklandi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Egremni–ströndin er afskekkt paradís á grísku eyjunni, Lefkada og státar hún af bláasta vatni í heimi. Það er þessi andstæða grænbláa hafsins gegn hinum snjóhvíta sandi sem gerir þessa strönd svo einstaka. 

Pena–höllin, Sintra, Portúgal

Pena-höllin í Portúgal.
Pena-höllin í Portúgal. Ljósmynd/Wikipedia.org

Pena–höllin er staðsett ofan á grýttum tindi í Sintra–fjöllum og dregur að sér fjöldann allan af ferðamönnum allt árið um kring. Þessi 19. aldar kastali er ævintýralega skrautlegur í útliti og umkringdur stórfenglegu útsýni. 

Our Lady of the Rocks, Svartfjallaland

Our Lady of the Rocks í Svartfjallalandi.
Our Lady of the Rocks í Svartfjallalandi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Our Lady of the Rocks er sannkallað undur og mögnuð sjón fyrir hvern þann sem keyrir meðfram veginum er liggur um Kotór-flóa. Eyjan er manngerð og liggur undan strönd Perast. Á eyjunni er að finna sögusafn og litla gjafavöruverslun. 

Bruges, Belgía 

Bruges í Belgíu.
Bruges í Belgíu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Í einstaka tilfellum er áfangastaður svo fallegur og dáleiðandi að ef þú legðir frá þér myndavélina í eina sekúndu þá missirðu af einhverju augnabliki sem þú vildir eiga að eilífu. Borgin Bruges fellur í þann flokk enda líkist hún sögusviði með síkjum, steinlögðum stígum og miðaldabyggingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert