Öruggustu ferðastaðir fyrir konur

Aðalástæðan fyrir því að konur hika við að ferðast einar …
Aðalástæðan fyrir því að konur hika við að ferðast einar er vegna þess að þær óttast um öryggi sitt. Samsett mynd

Vaxandi áhugi er hjá konum fyrir því að ferðast einar um heiminn. Það getur þó oft á tíðum verið vandasamt þar sem raunveruleikinn er sá að konur standa enn frammi fyrir mismunun og öryggisvandamálum í öllum heimshlutum. Mörg lönd hafa nú sett af stað samstillt átak er snýr að því að bæta öryggi kvenna.

Þetta eru þau fimm lönd sem hafa náð hvað mestum framförum þegar kemur að almannaöryggi kvenna er kjósa að ferðast einar samkvæmt Women's Peace And Security Index sem Georgetown háskólinn tók saman, Global Gender Gap-skýrslunni frá World Economic Forum og Peace Global Peace Index frá Institute for Economics. Einnig eru sniðug og hjálpleg ferðaráð frá konum sem hafa ferðast til eftirfarandi landa.

Slóvenía

Í efsta sæti Women's Peace and Security Index, fyrir lönd staðsett í Mið– og Austur–Evrópu er að finna Slóveníu. Landið sem er frægt fyrir stórkostlegt landslag og einhver fallegustu vötn í heimi hefur ávallt verið talinn fullkominn fyrir ævintýrafólk og náttúruunnendur og samkvæmt nýjustu tölum upplifa yfir 85% kvenna sig öruggar þar í landi.

Claire Ramsdell, göngugarpur og ráðgjafi fyrir Wildland Trekking, ferðaðist einsömul til Ljubljana og fannst hún mjög örugg allan tímann, bæði dag sem nótt. „Ég átti ekki í stökustu vandræðum með leiðsögn, tungumálahindranir eða annað sem getur stundum reynst manni ógnvekjandi þegar maður ferðast einn.“

Hún mælir eindregið með því að ferðamenn staldri við og skoði hina einstöku grænbláu Soča–á sem var einn tökustaða fyrir kvikmyndina Chronicles of Narnia.

Rafmagnaður himinn í Slóveníu.
Rafmagnaður himinn í Slóveníu. Skjáskot/Instagram

Rúanda

Konur hafa átt ótrúlegan þátt í enduruppbyggingu landsins eftir að þjóðarmorðin áttu sér stað árið 1994. Konur eru nú 55% þingmanna þar í landi og situr Rúanda í fyrsta sæti í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna á þingi samkvæmt WPS. Landið er einnig í efsta sæti þegar kemur að samfélagslegu öryggi í Afríku og situr í sjötta sæti samkvæmt Global Gender Gap en það mælir lönd út frá efnahagsmálum, menntun, heilbrigðisþjónustu og stjórnmálaþátttöku.

Rebecca Hansen fluttist til Rúanda frá Danmörku árið 2019 og finnst Rúanda upplagður staður fyrir konur til þess að ferðast um einar. „Hér eru hermenn, lögregluþjónar og almenn öryggisgæsla á hverju horni og allan sólarhringinn,“ sagði hún. „Þetta kann að hljóma ógnvekjandi í fyrstu en þú munt fljótt komast að því að allir þessi einkennisklæddu aðilar eru vinalegt fólk og ávallt tilbúið að hjálpa.“

Hún talaði jafnframt um það að heimamenn væru ekki að truflaað óþörfu en að skólabörnum þætti ánægjulegt að nýta enskukunnáttu sína og kæmu því reglulega og heilsuðu: “Hvernig hefur þú það? eða Góðan daginn!” Enska og franska eru opinber tungumál í Rúanda ásamt kinyarwanda og kiswahíli.

Hansen mælir með að heimsækja fjallagórillurnar og segir það ólýsanlega upplifun. Hún hvetur ferðalanga einnig til þess að skoða Nyungwe-þjóðgarðinn í suðvesturhluta Rúanda en þar leynast yfir 12 prímatategundir og magnað fuglalíf.

Ímyndaðu þér bara að eyða deginum með górillum og öðrum …
Ímyndaðu þér bara að eyða deginum með górillum og öðrum prímatategundum í fjallshlíðum Rúanda. Skjáskot/Instagram

Sameinuðu arabísku furstadæmin

Furstadæmin eru með hæstu einkunn WPS yfir lönd innan Miðausturlanda og Norður-Afríku hvað varðar skólagöngu kvenna og fjárhagslegt sjálfstæði. Furstadæmin eru leiðandi í jafnréttismálum og hæst allra landa á svæðinu þegar kemur að samfélagsleguöryggi en 98,5% kvenna, 15 ára og eldri, segjast finna sig öruggar með að ganga um einar á kvöldin í borginni eða því svæði sem þær búa á.

Áhrifavaldurinn Sandy Aouad, sem deilir tíma sínum á milli Parísar og Dubai, segist alltaf hafa upplifað sig örugga í borginni, jafnvel í útjaðrinum. “Einu sinni var ég með sprungið dekk og skildi bílinn minn eftir í miðri eyðimörkinni, ólæstan með lyklana í. Ég vissi vel að ég gæti treyst því að láta leigubíl sækja mig og að bíllinn yrði áfram öruggur á sínum stað,” sagði Aouad.

Fyrir fólk sem er að ferðast eitt mælir hún eindregið með því að bóka safaríferð þar sem það er auðveldasta leiðin til að kynnast fjölbreyttu og áhugaverðu fólki. Ef þú ert að leita að einhverju sem ýtir hjartslættinum upp þá mælir Aouad með fallhlífarstökki yfir Palm Dropzone.

Safaríferð um eyðimörk Dúbaí er ógleymanleg upplifun.
Safaríferð um eyðimörk Dúbaí er ógleymanleg upplifun. Skjáskot/Instagram

Japan

Japan hefur ítrekað ratað inn á lista yfir öruggustu lönd í heimi. Landið er þekkt fyrir lága glæpatíðni og framúrstefnulegar hugmyndir. Í Japan er til að mynda að finna gistirými og neðanjarðarlestarvagna eingöngu fyrir konur. 

Lulu Assagaf, sem fluttist til Japan frá Indónesíu fyrir 20 árum, fann strax fyrir miklu öryggi. „Heimamenn láta manni líða eins og heima hjá sér og eru ófeimnir og ánægðir með að hjálpa ókunnugum,“ sagði Assagaf, sem starfar sem fararstjóri hjá Intrepid Travel. Hún mælir þó með að ferðast ásamt leiðsögumanni ef þú ætlar þér að heimsækja dreifbýlissvæðin þar sem það er ólíklegra að enska sé töluð þar.

„Solo dining“ er mjög vinsælt og algengt á veitingastöðum í Japan og eru þeir margir hverjir sérstaklega útbúnir fyrir slíkt. Assagaf mælir því með að skoða matarsenuna, sérstaklega í Kyoto, Osaka og Tókýó. Uppáhaldsstaðurinn hennar í Tókýó er Shinjuku.

Fyrir ferðamenn sem vilja heimsækja þessa svokölluðu dæmigerðu ferðamannastaði mælir hún með strandborginni Kanazawa, sem er þekkt fyrir að vera heimili samúræjanna og Takayama í japönsku ölpunum. “Takayama er með fallegan hefðbundinn arkitektúr og sake-brugghús. Assagaf mælir einnig með Takayama Showa-kan safninu sem sýnir poppmenningargripi frá valdatíma Hirohito keisara frá 1926 til 1989.

Litirnir í Japan eru bjartir og fallegir og fullkomnir fyrir …
Litirnir í Japan eru bjartir og fallegir og fullkomnir fyrir Instagram-myndir. Samsett mynd

Noregur

Landið hefur trekk í trekk verið valið inn á topp 10 lista enda ein hamingjusamasta þjóð í heimi og staður þar sem allir finna sig velkomna.

Oslóar-búinn og stofnandi Up Norway, Torunn Tronsvang, bendir á að menningin sé félagslega umburðarlynd og traust sem gerir hana að kjörnum stað fyrir konur sem kjósa að ferðast einar. “Þú getur auðveldlega beðið einhvern á nærliggjandi borði um að passa upp á hlutina þína á meðan þú notar klósettið,” sagði hún. Tronsvang er auk þess mjög stolt af því hversu mörg fyrirtæki í Noregi eru rekin af konum.

Til að fá sem mest út úr heimsókn þinni til Noregs hvetur Tronsvang ferðamenn að tileinka sér norska hugtakið “friluftsliv” en það er hugmyndafræðin um að lifa frjáls og lifa í náttúrunni.

Það er auðvelt að kúpla sig frá hinu daglega amstri …
Það er auðvelt að kúpla sig frá hinu daglega amstri í Noregi. Samsett mynd

 BBC.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert