Bestu nektarstrendur í heimi

Margar fallegar nektarstrendur er að finna víða um heim.
Margar fallegar nektarstrendur er að finna víða um heim. Ljósmynd/Samsett mynd

Þótt nekt sé enn forboðin á mörgum stöðum hafa nektarstrendur notið aukinna vinsælda víða um heim og er það orðið venja að undanförnu að leggja fötin til hliðar á mörgum ströndum.

Í tilefni þess tók CNN Travel saman lista yfir bestu nektarstrendur í heiminum.

Nida-nektarströndin, Litháen

Eystrasaltið er eflaust ekki það fyrsta sem fólk hugsar um þegar kemur að því að fara á ströndina. Hin glæsilega strandlengja sem liggur að Eystrasaltinu er þó einn af fallegustu stöðum í Evrópu. Ströndin er í um klukkutíma akstursfjarlægð frá borginni Klaipėda.

Á 19. öldinni var hér listamannanýlenda sem laðaði að sér marga af fremstu málurum, skáldum og rithöfundum þess tíma. Ef þú gengur nógu langt suður eftir ströndinni kemurðu að girðingu sem markar landamæri Litháens og Rússlands.

Nida-ströndin, Litháen.
Nida-ströndin, Litháen. Ljósmynd/TripAdvisor

Nugal-ströndin, Króatíu

Þessi afskekkta strönd er á meginlandi Króatíu, á móti Brač-eyju. Ströndin liggur í skugga hárra kletta og furutrjáa og eina leiðin að henni er þröngur stígur, sem virðist frekar gerður fyrir geitur en fólk sem leitar eftir að afklæðast við Adríahafið.

Nugal-ströndin er í um hálftíma göngufjarlægð frá næsta bæ. Einnig er þó hægt að komast þangað með bát frá Makarska eða Tučepi. Ekki gleyma því að taka með þér þykkt handklæði eða strandstól, því eins og á mörgum öðrum króatískum ströndum er yfirborðið líkara steinvölum en sandi.

Nugal-ströndin, Króatíu.
Nugal-ströndin, Króatíu. Ljósmynd/TripAdvisor

 Lady Bay-ströndin í Sydney, Ástralíu

Þótt föt virðist stundum vera valkvæð á hvaða strönd sem er í Ástralíu, þá eru nokkrar opinberar nektarstrendur þar í landi. Þar á meðal er ströndin við Lady Bay.

Ströndin er rétt innan við South Head við höfnina í Sydney og er lítil og þröng, en ótrúlega afskekkt miðað við að liggja við stórborg. Klettóttar syllurnar í kringum South Head eru einnig notaðar til sólbaða af gestum.

Ströndin við Lady Bay í Sydney, Ástralíu.
Ströndin við Lady Bay í Sydney, Ástralíu. Ljósmynd/TripAdvisor

Kokkini Ammos-ströndin á Krít, Grikklandi

Þessi afskekkta strönd á suðurströnd Krítar er aðalnektarströndin í Grikklandi. Ströndin dregur nafn sitt af rauðleitum sandinum og klettunum og er í um 20 mínútna gönguferð frá þorpinu Matala. Einnig er hægt að komast þangað með örstuttri bátsferð frá strönd þorpsins.

Kokkini Ammos-ströndin á Krít, Grikklandi.
Kokkini Ammos-ströndin á Krít, Grikklandi. Ljósmynd/TripAdvisor

Cap d'Agde-nektarsvæðið í suðurhluta Frakklands

Cap d'Agde er stundum kölluð „nakta borgin“, en hún stærsta strandsvæði í heimi þar sem fatnaðar er ekki krafist. Þangað koma allt að 40 þúsund gestir á dag yfir sumarið.

Íbúum og gestum er frjálst að vera naktir hvar sem þeir eru, hvort sem það er á veitingastöðum, verslunum, pósthúsinu, bankanum eða á ströndinni.

Cap d'Agde nektarsvæðið, Frakklandi.
Cap d'Agde nektarsvæðið, Frakklandi. Ljósmynd/TripAdvisor

Aðrar strendur á listanum

 • Playa Naturista Chihuhua, Úrúgvæ
 • Little Palm-ströndin, Nýja-Sjálandi
 • Moshup-ströndin í Massachusetts, Bandaríkjunum
 • Black's Beach í Kaliforníu, Bandaríkjunum
 • Buhne 16, Þýskalandi
 • Wreck-ströndin í Vancouver, Kanada
 • Anse de Grande Salina, St. Barts
 • Platja des Cavallet á Ibiza, Spáni
 • Little Beach á Maui, Hawaii
 • Mpenjati-ströndin, Suður-Afríku
 • Playa Zipolite, Mexíkó
 • Metsoke Dragot, Ísrael
 • Praia Massarandupió, Brasilíu
 • Spiaggia du Guvano, Ítalíu
 • Haulover-strandgarðurinn í Miami, Bandaríkjunum
mbl.is