Fóru í sex vikna eftirminnilega ferð um Japan

Ásdís og Kristján með Fújí-eldfjallið í bakgrunni. Þau leigðu hjól …
Ásdís og Kristján með Fújí-eldfjallið í bakgrunni. Þau leigðu hjól í Tókýó sem var að vísu ekki BMW-hjól. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Hringfarinn Kristján Gíslason hefur nýtt frelsið eftir að hann hætti að vinna og ferðast víða á mótorhjóli. Hann fór nýlega í langt ferðalag um Japan með eiginkonu sinni Ásdísi Rósu Baldursdóttur.

Í desember 2022 lukum við erfiðustu mótorhjólaferð sem ég hef farið, um Patagóníu í Suður-Ameríku. Eftir þá ferð lofaði ég Ásdísi að næsta ferð yrði af allt öðrum toga; öruggir vegir, gott loftslag og þróaðir innviðir. Þannig sá ég Japan fyrir mér og þannig seldi ég Ásdísi hugmyndina,“ segir Kristján um hvernig hugmyndin að Japansferðinni kviknaði.

Tilbiðja látna forfeður og náttúruna

Þegar Kristján lítur til baka segir hann menningu Japans standa upp úr.

„Nú teljum við okkur skilja betur þjóðarsálina og menninguna eftir þetta sex vikna ferðalag okkar um tvær helstu eyjar Japans, Hokkaídó og Honsjú, þar sem 80% þjóðarinnar búa. Ég hef heimsótt yfir 100 lönd og flest þeirra á mótorhjólinu mínu. Af öllum löndunum þá er Japan eitt það eftirminnilegasta. Mér finnst athyglisvert að Japan er fjórum sinnum stærra en Ísland, en vegna skóga þá er byggilegt svæði aðeins um þriðjungur þess (svipað og Ísland). Á því landrými búa hins vegar 125 milljónir manna.

Vissulega gætu Japanir hoggið niður skóga til að verða sér úti um land, en trúin þeirra, sjintó, kemur í veg fyrir það því allt gengur út á að hlífa og virða náttúruna. Þeir ganga meira að segja svo langt að flytja inn timbur í einhverjum mæli. Við sem búum í trjálitlu landi eigum erfitt með að skilja þetta. Tré eru nánast heilög og þeir finna sterkt fyrir hlýjunni og verndinni sem þau veita. Við hittum Japana sem sagði okkur að berangurslegt landslag, eins og á Íslandi, virkaði ógnvekjandi á hann. Í tvígang var okkur sýnd mikil gestrisni á veitingastöðum, en okkur var boðið borð með stórum glugga þannig að við gátum virt náttúruna fyrir okkur. Þar sátum við hlið við hlið og horfðum á náttúruna – þéttan skóginn tvo metra frá glugganum. Mælikvarði á náttúrufegurð fer greinilega eftir því menningarsvæði sem þú elst upp á.

Ásdís við Itsukushima Jinja Otorii eða hið mikla Torii-hlið.
Ásdís við Itsukushima Jinja Otorii eða hið mikla Torii-hlið. Ljósmynd/Kristján Gíslason

En menningarmunurinn birtist með ýmsum hætti. T.d. er ávallt farið í inniskó og þá skiptir ekki máli hvort þú ert að koma á heimili, gistiheimili eða japanskan veitingastað. Meira að segja er skipt um inniskó þegar farið er inn á salernin. Þetta er ekki aðeins spurning um hreinlæti því með þessu á sér stað ákveðin hreinsun eða „purification“ þar sem verið er að hreinsa út óæskilega anda. Ég sá verkamann, með hvíta hanska, vera að hreinsa höggborvélina sína með hvítum klút í sama tilgangi. Eitthvað sem við myndum aldrei gera.

Tilbeiðsla Japana fer ekki fram hjá neinum sem ferðast um landið, en yfir 150 þúsund hof og helgir staðir eru í landinu. Ríkjandi trú er sk. sjintótrú þar sem menn tilbiðja einkum látna forfeður sína og náttúruna. Japan er fyrirmyndarland á svo mörgum sviðum og þess vegna er það nánast óskiljanlegt hvers vegna sjálfsvíg ungs fólks eru með mesta móti í Japan. Var okkur sagt að einstaklingurinn geri svo óheyrilegar kröfur til sjálfs sín að hann brotnar.

Eitt af því sem kom okkur á óvart var að sjá bílaflota landsmanna. Við höfðum aldrei séð megnið af þessum bílum þótt þeir væru framleiddir af Toyota, Honda o.fl. Bílarnir voru afar litlir og kubbslegir en mjög praktískir. Járnbrautarlestir í Japan eru hins vegar af stærri gerðinni. Við tókum hraðlestina (Shinkansen) frá Kýótó til Hírósíma þar sem ferðast er á 320 km hraða. Það var upplifun. Ferðamenn sem vilja ferðast sem víðast í Japan nýta sér yfirleitt þessar hraðlestir en ekki mótorhjól.“

Japanir eru duglegir að nota þjóðbúninga sína.
Japanir eru duglegir að nota þjóðbúninga sína. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Sérstaklega öguð þjóð

Þú hefur lent í alls konar áskorunum og krefjandi aðstæðum á mótorhjólinu, komu upp einhverjar erfiðar aðstæður í Japan?

„Japanir eru sennilega agaðasta þjóð sem ég hef kynnst. Það eru til reglur, skrifaðar og óskrifaðar, yfir flest og allir fylgja þeim. Af þeim sökum virkar allt eins og smurð vél – svo framarlega sem þú þekkir reglurnar. Á ferðalögum mínum og okkar Ásdísar, þegar hún er með mér, þá bókum við sjaldnast hótel fyrr en seinnipartinn. Við komumst fljótlega að því að það gekk ekki þarna, því þá gátum við ekki verið viss um að fá kvöldmat og morgunmat daginn eftir. Þú varðst að panta kvöldmatinn og morgunmatinn um leið og þú gerðir hótelbókunina, sem þú gerir með minnst sólarhringsfyrirvara. Þeir kaupa ekki mat nema fjöldinn sé þekktur. Matarsóun er því með minnsta móti og má segja að Japanir séu á undan sinni samtíð hvað það varðar.

Tungumálið er annar kafli. Fáir tala ensku, sérstaklega í sveitunum, og allt var á japönsku táknmáli. Þarna reyndi á tæknina því flest samskipti og upplýsingaöflun átti sér stað með aðstoð þýðingarforrita í símunum okkar. Fyrir vikið komumst við ekki í mikla snertingu við Japani eins og við hefðum gjarnan viljað og erum vön á ferðalögum okkar.“

Kvöldverður á ryokan sem eru gistihús. Kristján er hrifinn af …
Kvöldverður á ryokan sem eru gistihús. Kristján er hrifinn af japanskri matargerð. Ljósmynd/Kristján Gíslason
Dæmigerður japanskur morgunmatur.
Dæmigerður japanskur morgunmatur. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Allt var hreint

Hjónin fóru víða og upplifðu töluverðan mun á stórborgum og sveitum þar sem allt var einfaldara. Þau upplifðu þó ekki beint fátækrahverfi eins og víða annars staðar.

„Tókýó er byggð hátt í loft upp og í eitt skiptið var móttaka hótelsins á 45. hæð og hótelherbergin þar fyrir ofan. Nyrsta eyjan og sú næststærsta, Hokkaídó, er strjálbýlust. Þar er að finna bestu og frægustu skíðasvæði Japans en Vetrarólympíuleikarnir voru einmitt haldnir þar árið 1972 og eru kenndir við Sapporó, stærstu borgina á Hokkaídó. Þar ferðuðumst við í viku og heimsóttum m.a. fallega þjóðgarða og hverasvæði sem minnti okkur á Ísland. Sterk baðmenning er í Japan. Á flestum hótelum er boðið upp á „onsen“ sem eru eins og heitir pottar sem eru kynjaskiptir og fólk baðar sig án sundfatnaðar. Til þess að geta nefnt böðin „onsen“ þurfa þau að vera með hitaveituvatni. Þarna var sterk skírskotun í pottamenninguna okkar.

Lestin fór á gífurlegum hraða.
Lestin fór á gífurlegum hraða. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Svokölluð ryokan var víða að finna í Japan. Þetta eru lítil og heimilisleg gistihús sem byggð eru í japönskum stíl, þar sem gestir sofa á dýnum á gólfinu. Allir fá yukata, sem er japanskur fatnaður í líkingu við japanskan júdóbúning nema miklu þynnri. Þessu klæðast gestirnir og koma þannig í kvöld- og morgunverðinn. „Onsen“-böðin spila stóra rullu í þessum ryokan-gistihúsum. Maturinn á þessum stöðum getur ekki verið japanskari og það var einmitt þar sem ég komst upp á lagið að borða mísosúpu og steiktan makríl í morgunverð. Hreinn unaður. Þrátt fyrir möguleikana hafa Japanir ekki viljað nýta sér jarðvarmann eins og við gerum, einfaldlega vegna þess að þeir telja það myndu raska lífi trjánna.

Okkur fundust lífsskilyrðin góð í Japan og við sáum aldrei fátækrahverfi, óreglufólk eða heimilislausa, eins og sjá má víða – líka á Vesturlöndum. Japan er hreinlegasta land sem ég hef heimsótt. Þú sást ekki bréfsnifsi, tyggigúmmí eða sígarettustubb. Allt var hreint alls staðar. Það var líka eftirtektarvert að það voru hvergi ruslafötur. Þú berð sjálfur ábyrgðina á því að farga þínu rusli. Þannig er búið að innræta reglur inn í sálarvitundina frá blautu barnsbeini, líkt og það gengur enginn yfir á rauðu ljósi í Japan – enginn!“

Það var farið að hausta.
Það var farið að hausta. Ljósmynd/Kristján Gíslason
Eina húsið sem stóð af sér kjarnorkusprenginguna í Hírósíma.
Eina húsið sem stóð af sér kjarnorkusprenginguna í Hírósíma. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Þjóðfélagið er ofar einstaklingnum

Japan á það sameiginlegt með Íslandi að vera virkt eldfjallaland en Kristján segir fjallið Fújí vera það frægasta í landinu. „Það gaus fyrir langalöngu en Japanir vakta það stöðugt. Vegna umbrota í jarðvegsflekum, sem mætast við Japan, þá eru eldgos og jarðskjálftar tíðir. Jarðskjálftar sem eiga uppruna sinn á hafi úti hafa valdið miklum búsifjum í Japan í gegnum aldirnar,“ segir Kristján.

„Árið 2011 reið yfir stærsti jarðskjálfti sem sögur fara af í Japan síðan 1900, en hann olli mikilli flóðbylgju þar sem yfir 18.000 manns létu lífið. Ummerki þessara atburða eru sýnileg að því leyti að búið er að reisa risasjóvarnargarða við strendurnar. Þó að Japanir þekki ýmsa náttúruvá, eldgos, jarðskjálfta og flóðbylgjur, þá hafa þeir líka glímt við annars konar vá. Þeir þurftu að glíma við afleiðingar kjarnorkusprengju þar sem borgin Hírósíma hvarf af yfirborði jarðar á nokkrum klukkustundum ásamt 80.000 íbúum hennar. En 19 árum síðar, 1964, héldu Japanir Ólympíuleikana og sýndu umheiminum hvers megnugir þeir eru. Ögun Japana er ótrúleg og í Japan lærðum við að þjóðfélagið er ofar einstaklingnum – einstaklingurinn fórnar sér fyrir heildina. Þannig hefur þessari mögnuðu þjóð tekist að komast í gegnum skelfilega atburði.“

Háhitasvæði á Hokkaido.
Háhitasvæði á Hokkaido. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Eru alltaf viðbúin

Hjónin munu seint gleyma ferðinni til Japans og það er margt sem þau taka með sér.

„Fyrir mig sem áhugamann um japanska matargerð þá var þetta veisla, en því miður er Ásdís ekki á sömu línu og ég með það. Við nutum þess að ferðast um landið og njóta náttúrunnar sem er í senn falleg og ógnvænleg. Jarðskjálftar og flóðbylgjur eru svo raunveruleg ógn og núna þegar við upplifum eldgos á Reykjanesinu, þá magnast upp sú tilfinning sem við fundum fyrir í Japan. Heil blokk lagðist á hliðina í einum jarðskjálfta sem reið yfir Ishikawa-héraðið, sem við höfðum farið um, nokkrum vikum eftir heimkomu. Víða eru hjálmar, niðursuðuvörur og sjúkrakassar staðalbúnaður í byggingum og allir drykkjasjálfsalar opnast sjálfvirkt ef jarðskjálftar fara yfir ákveðin mörk.

En fyrst og fremst er það virðingin sem við berum fyrir japönsku þjóðinni. Aldrei höfðum við gert okkur grein fyrir því hversu samstilltir einstaklingarnir eru sem byggja þetta land. Japanir stæra sig aldrei, þeir þekkja sennilega ekki það orð. Þeir ganga fumlaust til verka og gera það óaðfinnanlega. Þegar kjarnorkuslysið í Fukushima átti sér stað árið 2011 þá buðu sig fram 50 verkfræðingar, sem komnir voru á eftirlaun, til að fara inn í bygginguna til þess að aftengja kjarnaofnana, þótt þeir vissu að þeir væru nánast að ganga að dauðanum vísum. Þannig sýna Japanir tryggð sína gagnvart samfélaginu og landinu sínu. Sjálfir setja þeir sig í annað sætið.

Virðingin sem okkur var sýnd var allt að því óþægileg fannst okkur stundum. Síðan áttuðum við okkur á því að Japanir sýna samlöndum sínum sömu virðingu. Það er enginn sem tranar sér fram heldur sýnir hann samlanda sínum tillitssemi af hæstu gráðu. Þetta sá maður alls staðar, í lyftum, á vegum og veitingahúsum. Þetta er eitthvað sem við á Vesturlöndum gætum sannarlega lært af Japönum.“

Ásdís fann fyrir frelsinu þegar úr skóginum var komið.
Ásdís fann fyrir frelsinu þegar úr skóginum var komið. Ljósmynd/Kristján Gíslason

Eruð þið byrjuð að skipuleggja næstu ferð?

„Ég er alltaf byrjaður að huga að næstu ferð þegar við erum á heimleið úr ferð sem þessari. Það er margt sem kemur til greina, Kúba og Nýja-Sjáland sem dæmi, en núna er ég að einbeita mér að lokafrágangi tveggja heimildarmyndaþátta sem verða sýndir í Ríkissjónvarpinu þann 11. og 18. febrúar nk. Þegar því er lokið þá fer ég að skipuleggja næstu ferð, sem er alltaf skemmtilegur tími.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert