Hvað er málið með kvennaferðir?

Inga hefur leitt ófáar konur erlendis í sérstakar kvennaferðir á …
Inga hefur leitt ófáar konur erlendis í sérstakar kvennaferðir á vegum Skotgöngu. Stemmingin í kvennaferðunum er allt öðruvísi en í blönduðum ferðum og önnur mál rædd í hópnum. Hér er Inga á göngu með hóp í grennd við Albir. Ljósmynd/Aðsend

Það myndast alveg sérstök stemming þegar konur ferðast saman. Jafnvel í kvennahópum þar sem engar þekkjast innbyrðis í upphafi ferðar. Þetta veit Inga Geirsdóttir hjá Skotgöngu manna best en fyrir 14 árum hóf hún að bjóða upp á kvennaferðir erlendis.

„Upphaflega þegar við stofnuðum Skotgöngu árið 2006 fannst okkur vanta ferðir fyrir konur þar sem mikið var í boði fyrir karlmenn á þeim tíma líkt og golfferðir, fótboltaferðir og veiðiferðir,“ segir Inga spurð að því hvers vegna Skotganga leggi svona mikla áherslu á sérferðir fyrir konur.

Upphaflega bauð Skotganga eingöngu upp á kvennaferðir en svo vildu …
Upphaflega bauð Skotganga eingöngu upp á kvennaferðir en svo vildu karlarnir líka fá að koma með. Frá 2014 fór fyrirtækið þó aftur að bjóða upp á sérferðir fyrir konur en er einnig með fjölbreyttar blandaðar ferðir. Hér er kvennahópur á vegum Skotgöngu í jóga- og gönguferð á Costa Blanca svæðinu á Spáni árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Karlarnir vildu líka með

Kvennaferðirnar, sem voru í upphafi aðallega gönguferðir í skosku hálöndunum, fengu að sögn Ingu frábærar viðtökur og ágæti þeirra spurðist út til hins kynsins.
„Við fórum að fá fyrirspurnir frá körlum. Þeir fréttu hvað það var gaman í ferðunum hjá okkur og fóru að athuga hvort við gætum ekki boðið upp á blandaðar ferðir en á þessum tíma var mikil vakning í hreyfiferðum,“ segir Inga. Í framhaldinu fór Skotganga að einbeita sér eingöngu að blönduðum ferðum eða allt til ársins 2014. „Þá fórum við að fá pósta frá konum sem höfðu verið með okkur í kvennaferðum og óskuðu eftir slíkum ferðum á ný. Þá lögðum við land undir fót, fórum til Costa Blanca og fundum þar frábæra gönguleið og ákváðum að bjóða upp á skvísuferð. Nú, við auglýstum ferðina og seldist hún upp á nokkrum dögum. Við sáum að þetta væri eitthvað sem vert væri að halda áfram að bjóða upp á og síðastliðin ár höfum við boðið upp á alls konar ferðir fyrir konur til bæði Costa Blanca og Tenerife. Til dæmis, göngu- og jógaferðir með Sigríði Herdísi Ásgeirsdóttur jógakennara, hannyrðaferðir með Helgu Unnarsdóttur íþróttakennara og leirkerasmið og uppbyggjandi sjálfsræktar- og gönguferðir með Kristínu Lindu Jónsdóttir, sálfræðingi og ritstjóra Húsfreyjunnar.“

„Sumir þurfa virkilega á því að halda að fá hlé …
„Sumir þurfa virkilega á því að halda að fá hlé frá daglegu amstri heima, hitta annað fólk en venjulega og byggja sig upp eftir erfiða tíma. Svo koma líka tímabil þar sem fólk er dálítið eitt á báti, til dæmis eftir sambúðarslit, makamissi eða að eftir að hafa misst tengsl við vini. Að fara í skipulagða ferð með reyndum fararstjóra og hitta nýtt fólk gefur lífinu lit,“ segir Inga. Myndin er tekin í gönguferð á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Hlátur, þvagleki og prjónauppskriftir

Inga segir að í kvennaferðum myndist einstök stemming og þótt einhver komi stök í ferðirnar hjá þeim er hún ekki ein því alltaf er eitthvað um að vera.
„Síðan er frjáls tími síðdegis sem konur koma að hittast og spjalla og eru oft með hannyrðir og þar kynnast þær hver annarri mjög vel. Vissulega líkt og með golf-og veiðiferðir hjá körlum þá er alltaf öðruvísi stemning í kvennaferðunum. Þar erum við að ræða öðruvísi hluti en þegar karlmenn eru með eins og prjónauppskriftir, þvagleka, breytingaskeið, ýmislegt sem snýr að lífsgæðum og gleði og gefa hver annarri góð ráð. Það er líka alltaf mikið hlegið í kvennaferðum hjá Skotgöngu. Aftur á móti í karlaferðum er verið að metast hver veiddi stærsta fiskinn, ræða um fótbolta og besta skorið í golfinu. Þessir dagar eru líka algjörlega þeirra, og eitthvað sem allir karlmenn þurfa á að halda líkt og konurnar.“

Skotganga hefur sérstaklega hvatt konur sem eru einar að koma …
Skotganga hefur sérstaklega hvatt konur sem eru einar að koma með í kvennaferðirnar því í ferðunum er vel er haldið utan um hópinn og engin er ein þótt hún komi stök. Mörg vinatengsl hafa orðið til í ferðunum og sum haldið að þeim loknum. Þessi mynd er tekin í prjónaferð á Tenerife árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

- Margar konur sem eru einar óar við því að fara í ferðalag nema þær séu með ferðafélaga, hvaða ráð hefurðu til þeirra?

„Við höfum sérstaklega hvatt konur sem eru einar að koma með í ferðir með okkur. Þær komast fljótt að því að þetta er besta ákvörðun sem þær hafa tekið. Enginn er einn í okkar ferðum nema hann vilji það. Þarna eignast konur fullt af skemmtilegum vinkonum og þetta eru konurnar sem koma aftur og aftur. Þær sem eru óöruggar með að fljúga einar þá bjóðum við upp á það, bæði í hannyrða og sjálfsræktarferðunum, að fararstjórinn fer með þeim upp á Keflarvíkurflugvöll og flýgur með þeim út og þeim heim aftur. Mín reynsla er að flestir hafa gaman að því að ferðast, upplifa eitthvað nýtt, koma á nýjar slóðir og kynnast nýju fólki. Ég hef meðal annars unnið með Kristínu Lindu sálfræðingi hjá Huglind og hún hefur bent á að það er uppbyggjandi og mikilvægt fyrir félagslega heilsu að kynnast nýju fólki á öllum aldri. Það gerist þegar fólk fer í vel skipulagðar hópferðir með dagskrá og fararstjóra eins og okkar ferðir eru en síður þegar fólk ferðast á eigin vegum. Lífið er köflótt og fólki mæta ýmsar áskoranir og verkefni. Sumir þurfa virkilega á því að halda að fá hlé frá daglegu amstri heima, hitta annað fólk en venjulega og byggja sig upp eftir erfiða tíma. Svo koma líka tímabil þar sem fólk er dálítið eitt á báti, til dæmis eftir sambúðarslit, makamissi eða að eftir að hafa misst tengsl við vini. Að fara í skipulagða ferð með reyndum fararstjóra og hitta nýtt fólk gefur lífinu lit.“

 Njóta sín og efla erlendis

Þar sem kvennaferðir Skotgöngu eru orðnar ótal margar á Inga erfitt með að velja eftirminnilegustu ferðina, enda allar ólíkar og skemmtilegar á sinn hátt. „Við mæðgur settum í fyrra upp mæðgnaferð til Costa Blanca sem var ógleymanleg. Þar voru ömmur, mæður, dætur, frænkur og vinkonur og tókst þessi ferð svo vel að við ákváðum að bjóða upp á nýja ferð á næsta ári með sama sniði í Pýrenafjöllin og Costa Brava. Það er bara alveg mögnuð stemming sem myndast þegar hópur kvenna er samankominn erlendis til að njóta sín og efla og við tekur vel skipulögð, skemmtileg og uppbyggjandi dagskrá, það er lífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert