„Útivist kennir manni að yfirstíga hindranir“

Útivist og hreyfing er ástríða Ingu Dagmar í lífinu.
Útivist og hreyfing er ástríða Ingu Dagmar í lífinu.

Inga Dagmar Karlsdóttir er vanalega upp um fjöll og firnindi. Hún segir fjölbreytileika í útivist lykilatriði og að veturinn sé jafnvel besti tími ársins til útiveru. 

Inga Dagmar er með áhugaverðan bakgrunn. Hún er sjúkraþjálfari en einnig menntaður líffræðingur og mannfræðingur. Hún hefur unnið lengst af sem líffræðingur en í dag starfar hún aðallega sem sjúkraþjálfari og leiðsögumaður.

„Ég er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari síðan árið 2013. Ég vinn alla virka daga við heimasjúkraþjálfun. Þar ég sinni aðallega öldruðum einstaklingum og mjög veiku fólki. Um helgar leiðsegi ég fólki á fjöllum og hef verið að gera það samhliða annarri vinnu síðastliðin 14 ár.“

Fyrirtækið hennar heitir Herðubreið, útivist og heilsa.

„Síðan er ég með fjallaskíðanámskeið og fjallaskíðaferðir sem ég rek undir heitinu Fjallaskíðun og einnig með minn eigin gönguhóp sem heitir einfaldlega Herðubreið. Nafnið kemur til af því að Herðubreið er uppáhaldsfjallið mitt og það er líka langfallegasta fjallið á Íslandi að mínu mati.“

Með vinnu sinni sameinar hún áhugamálin í lífi sínu.

„Sjúkraþjálfunin snýst mikið um að hjálpa fólki og bæta heilsu þess og ganga með fólk á fjöll er líka frábær leið til að bæta heilsu sína.“

Inga Dagmar segist alltaf hafa haft áhuga á útivist.

„Útivist og hreyfing er mín ástríða í lífínu! Ég elska að vera úti í náttúrunni hvort heldur sem er vetur, sumar, vor eða haust. En ég held sérstaklega mikið upp á veturinn. Ég ferðaðist snemma mikið með foreldrum mínum um landið og við fórum í margar eftirminnilegar útilegur. Ég lærði snemma að meta það að gista í tjaldi og vera í náttúrunni. Þegar ég var 17 ára fór ég síðan í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og fannst það meiriháttar gaman. Þar fékk ég frábæra reynslu í ferðamennsku, fjallamennsku og lærði skyndihjálp til fjalla. Þessi tími í hjálparsveitinni hefur reynst mér mjög dýrmætur og lærdómsríkur sérstaklega eftir að ég fór að leiðsegja fólki á fjöllum.“

Í Fallegu vetrarveðri á Móskarðshnjúkum.
Í Fallegu vetrarveðri á Móskarðshnjúkum.

Fjallaloftið er okkur nauðsynlegt

Hvað gerir þú helst þegar þú stundar útivist í dag?

„Ég geng á margbreytileg fjöll, fer á fjallaskíði, gönguskíði og fjallahjól og út að hlaupa. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera og finnst mér fjölbreytni vera lykilatriði.

Ég hreyfi mig reglulega og passa rosalega vel upp á svefninn, borða fjölbreyttan mat og fer mikið út í náttúruna að njóta lífsins. Að vera úti er best og gefur mér mest af öllu. Mér finnst bara rosalega gaman að hreyfa mig úti í ferska loftinu, í raun er alveg sama hvað ég er að gera hverju sinni.“

Hún er á því að útivist á veturna hafi góð áhrif á alla.

„Fyrst og fremst er nauðsynlegt að fá sér ferskt fjallaloft og takast á við ólík veður. Það bætir efnaskiptin, minnkar stress og áhyggjur og þannig kynnist maður fjölmörgu nýju og skemmtilegu fólki. Veturinn er ævintýralegur! Þegar snjórinn er kominn eru dagarnir bjartir og fagrir!“

Hún segir að mikil fjölgun ferðamanna til landsins hafi aukið álagið á suma vinsæla áningarstaði.

„En það að fleiri Íslendingar sækja í að stunda útivist er alveg frábært. Margir gönguhópar eru uppbókaðir og fólk streymir í auknum mæli til fjalla. Það hefur svo margvísleg jákvæð áhrif á heilsu fólks; bæði líkamlega og andlega.“

Um umbætur í umhverfismálum segir Inga Dagmar að setja þurfi meira fé í innviði ferðaþjónustunnar.

„Mér finnst að bæta þurfi göngustíga, vegakerfi og aðbúnað á friðuðum svæðum og stuðla að þjóðgarði á miðhálendinu. Hvergi annars staðar á jörðinni finnst staður eins og hálendi Íslands, það er alveg einstakt í heiminum með sín virku eldfjöll, rekbelti á mótum jarðskorpufleka, jökla, hveri, sand og auðn. Þetta er einstök landslagsheild sem okkur ber skylda til að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Náttúruvernd er einstaklega mikilvæg í dag að mínu mati.“

Inga Dagmar heldur sérstaklega mikið upp á veturinn.
Inga Dagmar heldur sérstaklega mikið upp á veturinn.

Góðir hlutir gerast hægt

Hún segir að aðalatriðið í tengslum við hreyfingu sé að fólk finni sér eitthvað sem því finnst skemmtilegt að gera og hefur áhuga á. „Útivist kenni manni að yfirstíga hindranir. Ef þetta er gaman þá eru mun meiri líkur á að þú haldir áfram að stunda þessa hreyfingu og náir um leið að gera lífsstílsbreytingu. Útivist er frábær lífsstíll til dæmis. Annað ráð er að setja sér markmið. Það hefur alltaf hvetjandi áhrif og er mikill sigur fyrir marga að ná sínum markmiðum. Ekki reyna að gera of margar og miklar breytingar í einu. Gott að einblína á litla hluti fyrst og athuga hvernig það gengur. Góðir hlutir gerast oftast hægt og rólega.“

Inga Dagmar í Nepal.
Inga Dagmar í Nepal.

Hvert mælirðu með að fólk sem er að fara af stað í útivist fari?

„Þegar maður er að taka sín fyrstu skref í útivist er mjög snjallt að finna sér skemmtilegan gönguhóp til að ganga með. Það er svo öruggt að vera í hópi þar sem séð er um allt skipulag og boðið upp á góða fararstjórn. Þar er líka mjög líklegt að þú kynnist fleirum með sama áhugamálið og eignist góða vini. Síðan þegar maður er kominn með góðan grunn og reynslu þá eru margir sem byrja að fara sjálfir. Þá er frábært að ganga á fjöll í nágrenni Reykjavíkur, eða fara á grænu svæðin innan höfuðborgarsvæðisins eins og í Öskjuhlíðina, Elliðaárdalinn, í Heiðmörk, Búrfellsgjá og á fleiri staði. Það er líka mjög skemmtilegt að skipuleggja nokkurra daga sumargöngu í góðum félagsskap. Fara inn á Fjallabak, Hornstrandir, Fimmvörðuháls, í Fjörður, eða ganga á Víknaslóðir eða í kringum Skaftafell. Það eru endalausir möguleikar í okkar fallegu náttúru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »