„Fátt sem jarðtengir mann meira“

Erlu finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um landið.
Erlu finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um landið. Ljósmynd/Aðsend

Erlu Björnsdóttur, sálfræðingi og sérfræðingi í betri svefni, finnst fátt betra en að njóta íslenskrar náttúru. Markmiðið er að ferðast sem mest um Ísland en Erla er gift Hálfdani Steinþórssyni og eiga þau fjóra syni.

„Í júlí ætlum við Hálfdan að ganga Hornstrandir með foreldrum mínum. Ég hlakka mikið til þess ferðalags enda Vestfirðir mikil náttúruperla. Við tökum ekki synina með í það ferðalag enda reiknum við með að það verði heldur mikil ganga en við ætlum hins vegar að ganga Laugaveginn með tveimur eldri sonum okkar sem verður mjög skemmtilegt.“

Erla og Hálfdan.
Erla og Hálfdan. Ljósmynd/Aðsend

Leitar uppi tilboð

Erla ætlar einnig að fara í margar styttri ferðir út á land með allri fjölskyldunni.

„Ætlunin er að fara í styttri ferðir á suðvestursvæðinu. Ég hef ég verið mjög dugleg að leita uppi tilboð hjá hótelum í nærumhverfi Reykjavíkur en víða má finna mjög flott tilboð. Nú er tækifærið til þess að njóta náttúruperla Íslands í meiri ró og næði en hefur verið hingað til og upplifa Ísland eins og það var kannski fyrir fimmtán árum,“ segir Erla.

Í góðra vina hópi.
Í góðra vina hópi. Ljósmynd/Aðsend

Tjalda í öllum veðrum

Aðspurð um minnisstæðustu ferðalögin segir Erla þau flest tengjast hálendi Íslands með einum eða öðrum hætti. „Eitt sumarið gengum við ásamt hópi fólks frá Bárðardal til Neskaupstaðar. Það var hörkuganga, oft um 40 km á dag. Við hittum varla hræðu og tjölduðum í öllum veðrum. Íslenska landslagið kemur alltaf á óvart. Það er svo ótrúlega hrátt og hrjóstrugt en svo sér maður allt í einu blóm standa upp úr grjótinu. Það er fátt sem jarðtengir mann meira og veitir manni meiri hvíld frá amstri dagsins en upplifun sem þessi.“

Spurningar til að kafa dýpra

Erla situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn en hún var að gefa út ásamt Þóru Hrund Guðbrandsdóttur spurningakort sem kallast Út fyrir kassann.

„Þetta eru kort sem eru til dæmis tilvalin til að hafa með í bílinn eða upp í sumarbústað. Allir skiptast á að svara spurningum sem skiptast í fjóra flokka; fjölskyldan, sambandið, partýið og trúnó. Spurningarnar gefa okkur tækifæri til þess að kafa dýpra og opna á ýmsa skemmtilega umræðufleti. Fjölskyldukortin gætu hentað vel í langferðum fjölskyldunnar úti á landi þar sem börn og fullorðnir skiptast á að svara spurningum á borð við hvað þau séu þakklát fyrir og svo framvegis. Þetta býður upp á tækifæri fyrir börn að opna sig og segja frá draumum sínum eða því sem þau eru stolt af. Þá geta pör í rómantískum ferðum tekið upp sambandskortin og kafað djúpt í sambandið,“ segir Erla að lokum en frekari upplýsingar um spilið má nálgast á munum.is.

Spurningaleikurinn Út fyrir kassann býður upp á skemmtilegar gæðastundir.
Spurningaleikurinn Út fyrir kassann býður upp á skemmtilegar gæðastundir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is