„Fékk algjöra fjallabakteríu á meðan ég bjó í Danmörku“

Ljósmynd eftir Söndru Pétursdóttur hafnaði í öðru sæti í ljósmyndakeppni …
Ljósmynd eftir Söndru Pétursdóttur hafnaði í öðru sæti í ljósmyndakeppni ferðavefs mbl.is á dögunum. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Sandra Pétursdóttir er tveggja, bráðum þriggja, barna móðir sem hefur mikið dálæti á ferðalögum og ljósmyndun, en mynd eftir hana hafnaði í öðru sæti ljósmyndakeppni ferðavefs mbl.is nú á dögunum. 

Sandra er búsett ásamt börnum sínum og eiginmanni í Vesturbænum, en þau fluttu þangað fyrir þremur árum eftir að hafa verið búsett í Kaupmannahöfn í níu ár þar sem þau stunduðu nám og vinnu. Sandra er með gráðu í Jewellery, technology and business frá Copenhagen School of Design and Technology.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ljósmyndun?

„Áhuginn á ljósmyndun kviknaði þegar ég var í náminu og maðurinn minn gaf mér Sony a5100 myndavél í afmælisgjöf. Ég notaði hana mikið í skólanum þegar við vorum að útbúa vörubæklinga eða plaköt og í starfsnáminu mínu hjá dönskum gullsmið þar sem við tókum myndir af öllum skartgripunum fyrir heimasíðuna til dæmis.

Í rauninni hef ég svo verið að leika mér með myndavélina síðan og taka myndir af allskonar. Það hefur verið sérstaklega gaman að prófa sig áfram með portrait-linsuna sem ég eignaðist síðar.“

Áhugi Söndru á ljósmyndun kviknaði þegar hún var búsett í …
Áhugi Söndru á ljósmyndun kviknaði þegar hún var búsett í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Hver er sagan á bak við myndina þína?

„Áður en við fórum í sumarfrí nýttum við helgarnar til að fara í styttri útilegur og vorum við einmitt á leiðinni í eina slíka með vinum okkar aðra helgina í júlí þegar veðurspáin lofaði ótrúlegum hitatölum. Vinir okkar voru mættir á tjaldsvæðið í Úthlíð svo við brunuðum þangað í bullandi sólskini á laugardagsmorgni. Dæturnar voru ekki mjög samvinnuþýðar í bílnum á leiðinni og geðheilsan hjá okkur foreldrunum var eftir því.

Þegar við komum í Úthlíð finnum við vini okkar hvergi og eftir langan rúnt um svæðið og tvö símtöl kemur í ljós að vinir okkar voru bara alls ekkert staddir í Úthlíð heldur voru þau á tjaldstæðinu við Úlfljótsvatn og rugluðust bara örlítið í upplýsingagjöfinni. Ég gat ekki hugsað mér að keyra mikið lengur í þessum hita með pirruð börn í aftursætinu svo við brunuðum að Faxa, settum upp tjaldið, bárum á okkur sólarvörn og nutum veðurblíðunnar. Á sunnudeginum var svo heitt að það eina sem okkur langaði að gera var að fara og kæla okkur einhvers staðar. Við pökkuðum því tjaldinu og hittum vinafólk okkar við Stöng og gengum saman að Gjárfossi þar sem myndin er tekin. Dæturnar voru hæstánægðar með að fá að busla og príla í klettunum og við áttum æðislegan dag saman.

Áttavillti vinur okkar hefur svo auðvitað fengið nýtt nafn í hópspjallinu okkar á messenger og heitir nú Hr. Úthlíð enda er þetta eitthvað sem hann fær aldrei að gleyma.“

Myndin eftir Söndru sem hafnaði í öðru sæti ljósmyndakeppninnar.
Myndin eftir Söndru sem hafnaði í öðru sæti ljósmyndakeppninnar. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Hvernig ljósmyndir þykir þér skemmtilegast að taka?

„Mér finnst mjög gaman að taka myndir af fólki, hvort sem þær eru uppstilltar eða ekki. Það var svo auðvitað algjör veisla hjá mér í fæðingarorlofinu eftir að ég eignaðist eldri dóttur mína og myndirnar af henni eru endalausar. Ég fór alla leið og bjó til myndabók með myndum af henni og auðvitað voru mánaða myndirnar teknar af heilagri skyldurækni, manninum mínum til mikillar ánægju en honum var þvælt í allskonar pósur og vesen með barninu. Við skulum ekkert fara nánar út í hversu dugleg ég var að taka myndir af barni númer tvö ...

Það var svo hluti af áramótaheitinu mínu í ár að vera enn duglegri að taka myndir á myndavélina og hafa hana meira við höndina til að fanga hversdagsleg augnablik í bland við stærri viðburði. Það hefur gengið frekar vel hingað til og nú á maður krúttlegar myndir af fjölskyldunni sinni að byggja úr fyrsta legoinu saman og myndir af börnunum útötuðum í hveiti eftir misvellukkaðar baksturstilraunir.“

Söndru þykir sérstaklega gaman að taka myndir af börnunum sínum.
Söndru þykir sérstaklega gaman að taka myndir af börnunum sínum. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum og útivist?

„Ég hef alltaf verið mikil ferða- og útivistarmanneskja en mamma og pabbi voru dugleg að fara í hjóla- og gönguferðir með okkur systkinin bæði innanlands og til annarra landa í Evrópu eins og til dæmis Þýskalands og Noregs.

Mamma mín er algjör fjallageit og á ég margar góðar minningar úr gönguferðum með henni þar sem við lentum í allskonar ævintýrum. Við lentum til dæmis í svörtustu þoku lífs míns þegar við vorum að ganga frá Landmannalaugum í Hrafntinnusker og á göngu um Reykjanesið ári síðar lentum við í smá hremmingum þegar tjaldið sjálft varð eftir heima en himininn kom þó með. Hann rifnaði hins vegar í roki um miðja nótt og við urðum vatns og símasambandslausar einhversstaðar í grennd við Bláa lónið. Allt svona vesen gerir ferðirnar samt svo þúsund sinnum skemmtilegri og eftirminnilegri.

Ég fékk algjöra fjallabakteríu á meðan ég bjó í flatneskjunni í Danmörku og öll ferðalög sem við maðurinn minn fórum í voru plönuð út frá fjöllum og fallegri náttúru enda skorar Danmörk ekki hátt á fjallafegurðarlistanum. Við fórum meðal annars í bakpokaferðalag til Suður Ameríku og gengum í fjöllunum í Patagóníu í ótrúlegu landslagi. Við fórum líka í mánaðar langt ferðalag til Sri Lanka á meðan ég var ófrísk af okkar fyrsta barni og þar gengum við upp á Sri Pada eða Adam’s Peak um miðja nótt til að geta horft á sólarupprásina. Það var mögnuð upplifun.

Eftir að við eignuðumst dætur okkar höfum við ferðast mikið innanlands og gistum ávallt í tjaldi og förum eins mikið í gönguferðir og stemningin með lítil börn leyfir.“

Sandra hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum og …
Sandra hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum og útivist. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Í rauninni á ég mér ekki uppáhaldsstað á Íslandi. Mér finnst upplifunin á hverjum stað fara meira eftir stemningunni hverju sinni, með hverjum maður er og hvernig veðrið er. Mér finnst Þórsmörk og Landmannalaugar alveg æðislegir staðir og náttúran ótrúleg. En svo eiga fossar og gil einhvern sérstakan stað í hjarta mér.

Við gengum inn Múlagljúfur með stelpurnar á bakinu síðasta sumar og það var svo ótrúlega fallegt og hrikalegt á sama tíma. Við gengum líka inn Nauthúsagil í sumar og það var mjög skemmtileg upplifun fyrir stóra sem smáa.“

Það eru margir staðir á Íslandi sem heilla Söndru, en …
Það eru margir staðir á Íslandi sem heilla Söndru, en hún segir stemninguna þó skipta mestu máli. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi að þínu mati?

„Fimmvörðuháls er fallegur frá upphafi til enda.“

Er einhver staður sem þú hefur ekki heimsótt á Íslandi en langar að heimsækja?

„Það er alltaf á planinu að ferðast um Vestfirðina en þangað hef ég ekki mikið farið. Við fjölskyldan stefnum á Vestfjarðarferðalag eitthvert sumarið enda erum við að “safna sundlaugum” og merkjum samviskusamlega við hverja nýja sundlaug sem við heimsækjum inn á sundlaugar.com.“

Vestfirðirnir eru á ferðaplaninu hjá Söndru.
Vestfirðirnir eru á ferðaplaninu hjá Söndru. Ljósmynd/Sandra Pétursdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert