Að tala við börn um stríð

Stríð og hryðjuverk geta valdið barni miklum og raunverulegum áhyggjum. …
Stríð og hryðjuverk geta valdið barni miklum og raunverulegum áhyggjum. Mikilvægt er að tala við og hughreysta barnið og leyfa því að stjórna umræðunni. mbl.is/thinkstockphotos

Margir foreldrar eru tregir til að tala um stríð, átök og hryðjuverk við börnin sín enda erfitt og oft óskiljanlegt umræðuefni fyrir fullorðna. Hvernig ætlum við að útskýra stríðið í Sýrlandi þegar við skiljum það varla sjálf? Það er hinsvegar ekki æskilegt að láta börn sitja upp með upplýsingar um stríð, hryðjuverk og aðra ógn sem er erfitt fyrir þau að vinna úr hafi þau fengið upplýsingar gegnum fjölmiðla. Stríð og mannvonska þar sem fólk deyr eða örkumlast getur verið afar yfirþyrmandi fyrir ungar áhyggjufullar sálir. Sama hver ástæðan er fyrir vanlíðan, áhyggjum eða kvíða barna þá er alltaf best að ræða við þau á þeirra forsendum. 

Á að vernda börn frá erfiðum fréttum?

Hvert foreldri þarf að meta út frá sínu barni hvort tilefni sé til að skýla því frá umfjöllun fjölmiðla.  Almenna reglan er að foreldrar ættu að vera mjög vel á varðbergi hvað varðar að halda myndefni frá ungum börnum sem getur valdið þeim vanlíðan eða kvíða. Engin ástæða er til að ung börn viti eða skilji smáatriði varðandi atburði frétta. Þau hafa takmarkaða færni til að skilja ofbeldisfulla hegðun og geta fundið fyrir mikilli hræðslu við að sjá slíkt myndefni eða heyra lýsingar í fréttum.  Með það fyrir augum er til að mynda mælt með að foreldrar bíði með að horfa á kvöldfréttirnar þar til börnin eru farin að sofa, þegar mikið er fjallað um stríð og átök í samfélaginu.

Ef börnin fá að ræða áhyggjur sínar á eigin forsendum …
Ef börnin fá að ræða áhyggjur sínar á eigin forsendum tryggirðu að þau fái tækifæri til að ræða áhyggjuefni sín og samræðurnar ganga ekki út frá ályktunum þínum mbl.is/thinkstockphotos


Erfiðara getur verið að vernda eldri börn frá umfjöllun fjölmiðla og því fullt tilefni fyrir foreldra að grípa þau tækifæri sem gefast til að ræða við börnin sín. Þar gildir að ræða við þau opinskátt og reyna að útskýra eftir fremsta megni þá atburði sem þau sjá í fjölmiðlum og geta valdið þeim vanlíðan og kvíða. Þó við gerum okkar besta til að halda umfjöllun um Sýrlandsstríðið frá börnunum okkar, eru allar líkur á að þau sjái eitthvað um það á netinu, heima hjá vini eða í skólanum.  Það er því mikilvægt að undirbúa þau og ræða þessa hluti við þau.

Þessir þættir eru mikilvægastir

Þegar börnin okkar taka eftir fréttum um stríð og átök og sýna þeim áhuga er mikilvægt að gefa þeim góðan tíma og leggja sig fram við að svara þeim spurningum sem þau kunna að hafa. Enginn ætlast til þess að foreldrar geti útskýrt átökin í Sýrlandi í minnstu smáatriðum, allra síst börnin okkar.  Þau þurfa heldur ekki á því að halda að fá svo ítarlega útskýringu. Stríð eru í sjálfu sér óskiljanleg, sérstaklega fyrir börn.  Það er í lagi að viðurkenna fyrir þeim eigin takmarkanir og segja þeim að þú sem fullorðinn einstaklingur eigir einnig erfitt með að skilja ástæður stríðs og ofbeldis.

Börn fá mikið af upplýsingum úr fjölmiðlum, frá sjónvarpi, blöðum …
Börn fá mikið af upplýsingum úr fjölmiðlum, frá sjónvarpi, blöðum og af netinu og yfirleitt er erfitt fyrir foreldra að halda slæmum fréttum frá barninu, sérstaklega þegar þau eldast. mbl.is/thinkstockphotos

Það er gott að hafa í huga að leyfa barninu að stýra samræðunum. Hvað það er sem veldur þeim áhyggjum gæti komið þér á óvart.  Ef börnin fá að ræða áhyggjur sínar á eigin forsendum tryggirðu að þau fái tækifæri til að ræða áhyggjuefni sín og samræðurnar ganga ekki út frá ályktunum þínum. Það sem veldur þeim áhyggjum er mögulega eitthvað sem kemur á óvart sé tekið mið af upplýstum forsendum hins fullorðna.  

Það skiptir miklu máli að halda umræðunum opnum. Börn þurfa að finna að þau geti leitað til þín aftur og aftur og spurt spurninga um sama málefnið. Þau afla sér líka sjálf upplýsinga sem þau melta og verða í framhaldinu að finnast þau geta borið erindið upp aftur ef nýjar vangaveltur vakna. Ef áhyggjur barnsins taka hins vegar á sig þráhyggjukenndan blæ og það virðist stöðugt vilja ræða málið, er betra að reyna að afmarka þann tíma sem fer í umræðuna og hjálpa barninu að beina huganum að öðru. Sjáðu til þess að börnin þín skilji að það sé engin ástæða til að óttast að stríð eða átök brjótist út á Íslandi.

Gerðu þó ekki lítið úr áhyggjum þeirra af fólkinu sem þau sjá í fjölmiðlum, þau eru að læra að sýna samkennd og samúð og það eru góðir eiginleikar. Það er mikilvægt fyrir börn að sjá að okkur er annt um annað fólk, um réttlæti í heiminum og að koma fólki sem á um sárt að binda til aðstoðar.

Mest af textanum hér er fengið frá vefsíðu UNICEF á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert