Vissir þú þetta um íslenska stráka?

„Í stuttu máli þá höfum við smíðað kerfi sem drengir …
„Í stuttu máli þá höfum við smíðað kerfi sem drengir þrífast ekki í, þeir þurfa hegðunarlyf í miklu magni til þess eins að geta umborið kerfið og tekið þátt í því .. "

Tryggvi Hjaltason skrifaði grein á vef Eyjafrétta í vor um stöðu íslenskra stráka í samfélaginu, grein sem hefur vakið mikla athygli. Fjölskyldan fékk leyfi hjá Eyjafréttum til að endurbirta hana enda er hér um afar mikilvægar ábendingar að ræða sem flestir foreldrar drengja hafa eflaust velt fyrir sér. Af hverju passa strákarnir okkar svona illa inn í "kerfið"?

____________________________________________________________

Ég átti samtal við nokkra kennara um mitt síðasta ár sem gaf mér svo mikla ónotatilfinningu enda átti ég erfitt með að trúa því sem ég var að heyra. Ég ákvað í kjölfarið að leggjast í rannsóknir og hef á síðustu mánuðum komist að þeirri niðurstöðu að eitt stærsta velferðarmál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð í dag er mál sem fær mjög litla athygli, málið sem þessir kennarar voru að vekja athygli mína á. En það varðar þá skuggalegu þróun sem er að eiga sér stað gagnvart drengjunum okkar í skólakerfinu.

Tryggvi Hjaltason ásamt fjölskyldu sinni.
Tryggvi Hjaltason ásamt fjölskyldu sinni. mbl.is/einkasafn


Mig langar að deila smá af niðurstöðum mínum úr þessari rannsókn sem ég búinn að vera að stunda sem er vægast sagt dapurleg:

Vissir þú að einn af hverjum þrem drengjum sem útskrifast úr grunnskóla getur ekki lesið sér til gagns. Þetta þýðir að eftir 10 ár í íslensku menntakerfi lendir þriðjungur drengja okkar í vandræðum á næsta skólastigi og eiga erfitt með að tileinka sér námsefni og taka virkan þátt í samfélaginu vegna þess að þeir eru ekki almennilega læsir. Þetta er nær þrefallt hærra hlutfall en hjá stúlkunum okkar.

Vissir þú að í síðasta innskráningarárgangi í Háskóla Íslands voru aðeins 37.2% af nemendunum strákar, eða rétt rúmlega þriðjungur.

Vissir þú að notkun hegðunarlyfja barna hefur margfalldast á Íslandi á undanförnum árum og er Ísland með eitt hæsta hlutfall í veröldinni þegar kemur að því að lyfja börn og þar eru strákar með miklu hærra hlutfall en stelpur.

Vissir þú að fjöldi drengja á aldrinum 5-9 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum samkvæmt Landlæknisembætti er 123 á hverja 1000 sem þýðir 12,3% drengjanna okkar sem eru bara 5-9 ára fá hegðunarlyf. Ástandið hjá stelpum er sannarlega heldur ekki gott á þessu sviði en þar fá 61 af hverjum 1000 hegðunarlyf sem er vissulega slæmt en samt tvöfallt betra ástand en hjá strákunum. Það eru tuttugufallt fleiri grunnskólabörn sem fá ávísað þunglyndislyfjum á Íslandi heldur en á Norðurlöndunum.

Vissir þú að sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi?

Vissir þú að enginn hópur á Norðurlöndunum og fáir í veröldinni taka eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára? en 13 prósent þeirra taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en tíðkast á öðrum Norðurlöndum en Svíþjóð kemst næst Íslandi með um 5 prósent hlutfall.

Vissir þú að á milli 2008 og 2016 18 földuðust ávísanir á svenflyfjum til drengja á aldrinum 10-14 ára.

Vissir þú að íslenskir drengir eru miklir neytendur á klámi. Meðal Íslenskur strákur byrjar að horfa á klám 11 ára gamall. Í unglingadeild grunnskóla horfa tveir af hverjum þrem drengjum á klám a.m.k. vikulega og þegar komið er í Framhaldsskóla er 40% af drengjunum okkar orðnir stórneytendur og horfa á klám 2-5 sinnum í viku og aðeins 10% drengja í Framhaldsskóla segist ekki hafa horft á klám undanfarin mánuð. Þriðjungur drengja á aldrinum 12-20 ára horfir á klám á hverjum degi.

Ekkert í líkingu við þetta gengur yfir stelpurnar okkar en mjög takmarkaður skilningur hefur verið á klámáhorfi og eru einungis núna fyrst að batna verkfærin til að skilja áhrif af klámneyslu á heilan en þau eru mjög mótandi þar sem flestir drengir viðurkenna að horfa á klám til að fróa sér, en slíkt myndar taugabrautir með áhrifaríkum hætti og er því hegðunarmótandi og því mjög líklegt til að hafa mikil áhrif á viðhorf og kynhegðun, jafnvel skaðlegrar hegðunar gagnvart öðrum, sérstaklega ef neyslan er mikil og aldurinn ungur sem er einmitt staðreyndin fyrir íslenska drengi.

Vissir þú að rannsóknir frá Menntamálaráðuneytinu hafa sýnt að kennarar hrósa frekar stúlkum en strákum og að strákum finnst námið ekki nærri því jafn skemmtilegt og stelpum?

Í stuttu máli þá höfum við smíðað kerfi sem drengir þrífast ekki í, þeir þurfa hegðunarlyf í miklu magni til þess eins að geta umborið kerfið og tekið þátt í því en kerfið þjónar þeim samt ekki betur en svo að eftir 10 ár hefur það ekki kennt þriðjungi þeirra að lesa almennilega, algjör grundvallarhæfni í samfélaginu okkar.

Drengirnir okkar geta í vaxandi mæli ekki sofið og eru rólega að útrýmast úr háskólanámi en hlutfall nýskráninga meðal drengja í Háskóla á íslandi hefur stanslaust lækkað gagnvart stúlkum. „

Skilningur gagnvart þessu er betri víða í heiminum en á mörgum stöðum sem ég rannsakaði er skólakerfið smíðað betur með þarfir drengja í huga rétt eins og stúlkna. Drengir læra frekar í gegnum verklegt nám og eru miklu viðkvæmari fyrir áhugadrifnu námsefni en stúlkur. Drengir vilja skapa og eyða og hafa áhuga á öðruvísi bókmenntum en stelpur, meiri hasar og staðreyndir og minna um ljóð og skáldsögur. Það eru fyrst og fremst einkaskólar í Bretlandi og Bandaríkjunum sem hafa stigið öflug skref í þessu samhengi en með góðum árangri.

En ég ætla ekki að skilja við þessa yfirferð í algjöru vonleysi. Vegna þess að ég tel að það sé lausn og meira að segja mjög aðlaðandi lausn á borðinu.

Við þurfum að auka áhersluna á að virkja nám í gegnum leik og áhugasvið. Staðreyndin er að menntakerfið í dag keppir við tölvuleiki og klám, afþreyingu sem er sérhönnuð til að ná notandanum hratt og kröftuglega og notar testasterón og dópamín til þess.

Ímyndum okkur að drengjunum okkar (og stúlkum) stæði til boða strax í fimmta bekk að byrja að skapa það sem þau hafa áhuga á sem part af námi sínu í grunnskóla, þetta gæti verið allt frá haldbærri vöru eins og fatnað eða verkfærum yfir í kennsluefni eins og æfingaplan eða fyrirlestra yfir í list eins og að stofna hljómsveit eða gera bíómynd.

Kerfið myndi veita stuðning, frelsi og ráðleggingar í hvernig hægt er að ná sem bestum árangri við að skapa einhverskonar “vöru”. Áhersla er lögð á áhugadrifið sjálfstætt nám í gegnum leik og sköpun. Þegar fyrsta frumgerð liggur fyrir er farið yfir hvað lærðist, hvað hefði betur mátt fara og hvernig er hægt að bæta næstu útgáfu eða nota þekkinguna til að fara jafnvel í nýtt framleiðsluferli.

Þegar varan er síðan komin á góðan stað er hægt að skoða næstu skref, að greina nytjagildi hennar, hvort mögulegt sé að markaðssetja hana, gefa einhverjum sem þarf hana til að byggja upp samfélagið eða stofna fyrirtæki utan um vöruna. Þá tekur við enn meiri frelsi, kennsla, sköpun og áhugadrifið verkefni. Stuðningurinn getur verið tengdur inn í nýsköpunarstuðningsumhverfi stjórnvalda fyrir þá sem lengst ná til að sýna börnunum okkar að þau verða tekin alvarlega og veitt tækifæri á jafnréttisgrundvelli um leið og þau hafa byggt getuna í gegnum kerfið.

Framangreint fyrirkomulag myndi snerta á flestum greinum sem í dag eru kenndar á grunnskólastigi að einhverju leyti en það myndi gera það í gegnum áhugasvið, sköpun, sjálfstæði og verklega kennslu. Rannsóknir styðja með sannfærandi hætti að þetta er leið sem myndi henta strákum alveg sérstaklega til að losna við leiða og virkja orkuna sína á uppbyggilegan hátt.

Í staðin fyrir að læra stærðfræði, myndlist, smíði, viðskiptafræði eða lífsleikni í tómarúmi sem krefst oft þátt eins og kyrrsetu án samhengis (eitur í beinum drengja), væru börnin okkar að læra þessi fög sem verkfæri til að ná áhugadrifnum markmiðum sínum.

Ofangreint er enginn töfralausn eða eina lausnin en hún er dæmi um innlegg inn í umræðu um uppbyggilega nálgun á því hvernig hægt er að hjálpa drengjunum okkar sem virðast vera komnir í algjört öngstræti á fyrstu skrefum lífsins í samfélaginu okkar Íslandi.

Ég er tilbúinn að setja nokkra orku í að vekja athygli á þessum málum á næstu misserum og bið þig að deila þessum skrifum ef þú hefur áhyggjur af drengjunum okkar í skólakerfinu eða beina til mín upplýsingum sem kunna að vera viðeigandi um þetta málefni.

Takk fyrir að lesa

Grein þessi á vef Eyjafrétta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert