Litla herbergið hennar Ölbu

Það má vinna með ýmsum hætti með lítil rými, svo …
Það má vinna með ýmsum hætti með lítil rými, svo sem með litum og skipulagi. Hér ráðleggur lífstílsbloggarinn María Gomez sem heldur úti lífstílsblogginu Paz.is hvernig hægt er nýta plássið vel í barnaherbergi. mbl.is/einkasafn

Fjölskyldan á mbl.is er í samstarfi við lífstílsbloggarann Maríu Gomez sem heldur úti lífstílsblogginu Paz.is. Við fengum leyfi til að birta ráðgjöf hennar um það hvernig nýta megi rýmið í litlu herbergi svo það virki stærra og bjartara en ella. 
______________________________________________________

Litla snúllan hún Viktoría Alba var svo heppin að fá að eignast sitt eigið herbergi ekki nema 9 mánaða gömul. Við settum hana strax þangað inn, þegar við fluttum í húsið, og hefur hún sofið þar ein alla tíð síðan.

Svona leit herbergið út áður. Það er vissulega lítið.
Svona leit herbergið út áður. Það er vissulega lítið. mbl.is/einkasafn

Persónulega finnst mér það vera mun betri kostur, fyrir foreldra og barn, að það eigi sérherbergi. Þá helst frá 6 mánaða aldri, ef þess gefst kostur. Ég hef þá reynslu að þá sofi barnið sem og foreldrarnir mun betur, en herbergið hennar Ölbu er beint á móti okkar herbergi.

Fyrir mér geta barnaherbergi verið jafnpirrandi og skemmtileg. Þá meina ég að ef barnaherbergið er fullt af óskipulögðu drasli og smádóti þá fallast manni hendur að taka til í því, og barnið vill helst ekkert leika sér þar inni heldur. Manni vex í augum að stíga þangað inn og hvað þá taka til og sortera allt smádraslið sem liggur úti um allt.

Fyrir mér á barnaherbergi að vera friðsæll griðarstaður fyrir barnið, þar sem því líður vel, getur fundið frið og dundað sér og leikið í ró og næði, án alls áreitis. Ég vil að þau geti gengið að dótinu sínu sem vísu og þekki það að hvert leikfang og hver tegund af dóti á sinn stað í herberginu.

mbl.is/einkasafn

Það gerir þeim og mér auðveldara fyrir að taka til í herberginu og ganga frá.  Í næsta leik vita þau svo nákvæmlega hvar dótið er að finna og hvert á að ganga frá því. Auðvelt og einfalt skipulag í barnaherbergi getur því skipt sköpum að mínu mati, bæði fyrir foreldra og barnið sjálft.

Einnig legg ég áherslu á í herbergjum barnanna minna að þau endurspegli smá karakter barnanna. Ég jafnvel leyfi þeim sjálfum að ráða, um leið og þau hafa aldur til, hvernig þau vilja hafa í herberginu sínu. Reynir Leo t.d. vildi hafa allt svart og hvítt og hafa fjöll á veggnum. Allt þetta var uppfyllt, en ég dró mörkin við rauðar doppur sem hann vildi hafa á veggjunum. Allir mjög sáttir samt. 

mbl.is/einkasafn

Í húsinu eru þrjú barnaherbergi, eitt stórt og tvö eins herbergi sem eru í smærri kantinum. Þar sofa tvö yngstu börnin. Ég hef nú þegar sýnt frá herbergjum Reynis Leos og Mikaels. Til að sjá þau ýtið þá á nöfnin þeirra og þá hlekkjast beint inn á herbergin þeirra.

Þegar barnaherbergi eru lítil er uppröðun á húsgögnum, hæð þeirra, litur og skipulag mjög mikilvægt. Hægt er að plata augað töluvert með uppröðun og réttu vali á húsgögnum. Mér finnst t.d. herbergin virka mun stærri núna en þau gerðu þegar við komum að skoða húsið. Hafið einnig í huga að oft geta tóm rými virst minni en þau raunverulega eru, andstætt við það sem margir halda. Mottur, myndir á veggi og hvernig allt þetta snýr getur líka haft sitt að segja til að láta rými njóta sín og virka stærra.

Ef herbergi er langt og mjótt er betra að reyna að stilla öllu þversum í herberginu til að víkka út sjóndeildarhringinn og láta þá augað halda að herbergið sé breiðara. Ef húsgögnum er raðað langsum í langt og mjótt herbergi getur það virst enn lengra og mjórra. Tvö minni barnaherbergin eru t.d. meira á lengdina en breiddina og því raða ég stóru húsgögnunum þversum eins og rúmunum þeirra. Strax við það virka herbergin breiðari sem dæmi.

mbl.is/einkasafn

Einnig reyni ég að hafa öll önnur húsgögn eins og rúm, skrifborð, stóla og skúffueiningar í lágri hæð. Svo fylli ég upp í með því að setja eitthvað fallegt á veggina eins og fjöll í drengjaherbergin en doppur á einn vegg inni hjá Ölbu. Doppurnar keypti ég á poster.is og fást þær í öllum stærðum og gerðum.

Ég valdi að hafa alla veggina hvíta en það bæði birtir upp og stækkar rýmið. Einnig reyni ég að hafa húsgögn í ljósum litum og veggmyndir sem mest ævintýralegar og eins lágstemmdar og hægt er. Disney-plaköt og of mikið í gangi finnst mér oft æsa rýmið upp og virka kaótískt. Ég tel að það geti síðan haft áhrif á skap og líðan barnsins.

Langar samt að koma rétt inn á það að dökkir litir geta líka skapað ró og hlýleika inni í barnaherbergjum. Passið bara að hafa þá ekki æpandi skæra eins og rautt, appelsínugult eða marga liti í einu rými. Það getur verið mjög örvandi og jafnvel valdið barninu æsingi og angist þar inni.

mbl.is/einkasafn

Mín ráð til ykkar eru því að gera herbergi barnsins ykkar sem persónulegast fyrir það, sem friðsælast og munið að gefa hverjum hlut sinn stað sem barnið gengur að vísum. Reynið að hafa herbergið snyrtilegt og lágstemmt svo að barnið finni þar ró og frið.

Færsla Maríu Gomez á Paz.is um barnaherbergi Ölbu 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert