„Þegar þú deyrð, má ég þá fá fötin þín?"

Ungi litli varð fyrir grimmilegri árás kattar og ungar vinkonur …
Ungi litli varð fyrir grimmilegri árás kattar og ungar vinkonur urðu vitni að henni. Í kjölfarið fékk móðirin yfir sig flóð spurninga um dauðann en líka lífið eftir dauðann. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fyrr eða síðar verður dauðinn umræðuefni allra barna. Stundum vegna einvers sem þau verða vitni að í umhverfinu, svo sem náttúrunni, í leikriti eða bíómynd en stundum vegna þess að ættingi hverfur á vit feðra sinna. Hvernig sem hugmyndum um dauðann skjóta upp í kolli ungra barna, þá kallar þær á ótal spurningar. Hvernig kemst sálin upp í himininn? Er sami himinn fyrir menn og dýr? Hittir amma afa sem dó löngu áður? Bíður hún bara eftir honum á himnum? Eru þau á bakvið skýin og hvað gerist þegar það eru engin ský?

Stundum eiga foreldrar engin svör við þessu spurningaflóði um óendanleikann.

Katja Schnitzler er dálkahöfundur fyrir Süddeutsche Zeitung en hún skrifaði nýlega skemmtilega vangaveltu um börn og hugmyndir þeirra um dauðann, eins og þær birtust henni í kjölfar hrottalegrar árásar kattar á lítinn fuglsunga sem dóttir hennar varð vitni að.

­­­­­_________________________________________________

Dauðinn birtist dóttur minni og vinkonu hennar nýlega gegnum lítinn svartþrastarunga sem andaðist eftir grófa líkamsárás kattar en foreldrar litla ungans höfðu gert þau mistök að útbúa sér hreiður í miskunnarlausu kattarhverfi. Hinn ófleygi ungi átti strax frá upphafi lítinn séns í lífið í þessu grimmilega umhverfi. Það eina sem mögulega hefði getað bjargað lífi hans voru hinir ungur áhorfendur að  endalokum hans; dóttir mín og vinkona hennar.

„Þú verður að bjarga litla fuglinum!“ hrópaði dóttir mín skelfingu lostin eftir að hafa orðið vitni að árás kattarfjandans. Og ég gerði það. Klifraði yfir girðingu til að komast í garð nágrannans og náði í illa haldinn ungann, rétt áður en kötturinn gat læst klóm sínum í hann og  gengið frá honum endanlega. Ég var með lítinn kassa tilbúinn sem sjúkrarúm til að leggja hann í. Ungi litli ofandaði, illa særður og starði í örvæntingu lífs og dauða í augu vinkvenna ungu sem fylgdust með baráttunni. Tíu mínútum síðar var hann allur.

Börnin grétu bitrum tárum þeirra sem hafa upplifið kalda hönd dauðans í fyrsta sinn. Þær höfðu séð fyrir sér að þær myndu finna orma handa nýja litla vini sínum, þær myndu kenna honum að fljúga og að eftirleiðis myndi hann fylgja þeim í leikskólann, flögrandi kátur yfir þeim; þakklátur fyrir lífsbjörgina. Eftir andlátið varð ljóst að þessi framtíðarvinátta ungra stúlkna og lítils fugls gæti aldrei orðið.

Unginn var jarðsettur með viðhöfn í jaðri skógar nálægt heimili …
Unginn var jarðsettur með viðhöfn í jaðri skógar nálægt heimili mæðgnanna. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Móðirin reyndi í nokkurri örvilnan að útskýra tilvist fuglahimins þar sem hinn ungi svartþröstur myndi nú fljúga glaður milli fegurstu trjáa, hvar enga andstyggilega ketti væri að vinna. Ákafur grátur vinkvennanna ungu minnkaði og andardrátturinn róaðist.

Eftir smástund spurði dóttir mín hvort hún mætti snerta gogginn? Jú, það var í lagi. Og vinkonan spurði hvort hún mætti snerta vængina? Jú, það hlyti líka að vera í lagi. Og eftir skamma stund voru stöllurnar komnar yfir mestu sorgina og orðnar að litlum vísindakonum sem grandskoðuðu fuglinn. Að lokum var ungi litli grafinn með nokkurri viðhöfn við jaðar nærliggjandi skógar og sungið yfir honum.

Eftir þetta atvik var dauðinn ofarlega í huga dóttur minnar sem og hugsanlegt líf eftir dauðann. Og spurningar dundu á mér með reglulegu millibili, hvar og hvenær sem er.

Í bakarínu:
„Þegar amma deyr, gröfum við hana þá líka hjá unganum hjá skóginum?“  

„Ehh .. nei. Það gerum við auðvitað ekki. Já, ég  ætla að fá þriggja korna brauð, takk. Nei, fólk er grafið í kirkjugörðum.“

Í Strætó:
„Mamma, er til einn himinn fyrir öll dýr?“

„Hmm .. já, sennilega“

„En eru þá til sérstakir himnar fyrir ömmur og líka fyrir afa? Og hittast þau þá kannski bara ekkert þegar þau eru dáin?“

„Nei, fólk er með sama himininn held ég. Ef allir hefðu sér himinn þá væri sennilega ekki til nóg pláss.“

Í leikskólanum:
„Mamma, þegar þú deyrð, má ég þá fara í öll fötin þín?“

Móðirin andvarpar.

„Ha, mamma? Þú átt þau öll og ef þú deyrð, þá get ég átt þau í staðinn!“

Heimild: Süddeutsche Zeitung

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert