Faðir refsar dóttur með því að klippa hár hennar

Kelsay fékk leyfi móður til að fá strípur í hárið …
Kelsay fékk leyfi móður til að fá strípur í hárið í tilefni af afmæli sínu en faðir hennar var í meira lagi ósáttur og klippti hár hennar stutt gegn vilja hennar. Ljósmynd/skjáskot

Faðir í Ohio í Bandaríkjunum fær ekki foreldraverðlaun ársins en hann klippti hár dóttur sinnar stutt fyrr á þessu ári, án hennar samþykkis, eftir að mamma hennar hafði leyft henni að fá strípur í hárið í tilefni af 13 ára afmælisdegi sínum.

Móðirin, Christin Johnson, brást við með því að setja opna færslu á Facebook um málið. Óhætt er segja að þessi aðgerð föðurins hafi sett netið á hliðina því 40 þúsund manns hafa líkað við færsluna, tæplega 3.000 manns hafa tjáð sig og henni hefur verið deilt 25 þúsund sinnum.

Forsaga málsins er sú að dóttirin, Kelsay, fékk samþykki móður sinnar til að fara á hárgreiðslustofu og fá strípur í hárið í tilefni af afmæli sínu. Á meðfylgjandi mynd, sem er skjáskot af færslu móðurinnar, má sjá dótturina eftir að hún fékk strípurnar og svo tvær myndir eftir að faðir hennar hafði klippt af henni hárið en hún var svo miður sín, skv. móður hennar, að hún vildi ekki sýna andlit sitt.

Dóttirin miður sín

Á myndunum lítur Kelsey út fyrir að vera miður sín eftir hármissinn en svo virðist sem faðir hennar og stjúpmóðir, Schaffen Frederick og Sarah Murray, hafi ákveðið strípurnar væru ekki ásættanlegar fyrir ungu stúlkuna og að refsingin fyrir skyldi vera sú að hárið yrði klippt stutt í andstöðu við vilja dótturinnar. Þau starfa bæði sem slökkviliðsmenn en var tímabundið vikið frá störfum og málið rannsakað af lögreglu og barnaverndaryfirvöldum í Haskins í Ohio í Bandaríkjunum.

Klippingin vekur hörð viðbrögð 

Óhætt er að segja að aðgerð föðurins hafi vakið sterk viðbrögð almennings sem hvetur stúlkuna til dáða. Er henni bent á að hárið sé ekki það sem gerir hana að fallegri stúlku og að það vaxi aftur. Enn aðrir benda á tímabundnar lausnir á vandanum, hárlengingar, kollur og fleira. Enn fleiri benda henni á að það sem faðir hennar gerði var rangt og að hún eigi alltaf að geta sagt nei, líka við foreldra sína.

Johnson bætti síðar við annarri mynd á Facebook eftir að hún heimsótti hárgreiðslustofuna Lady Jane's sem aðstoðaði við að „kalla fram brosið á dóttur minni“ skv. orðum hennar en þar fékk hún hárkollu sem virtist hafa gefið dóttur hennar það sjálfstraust sem hún tapaði við hárklippinguna sem hún var neydd til að fara í.

 Heimild: Allure.com og fleiri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert