Góður orðaforði hjálpar unglingum að greina rangt frá réttu

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla segir að foreldrar þurfi …
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla segir að foreldrar þurfi að tala meira við börnin sín til þess að auka orðaforða þeirra. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla segir að það sé mikilvægt að skólar og heimili vinni saman til þess að jafna möguleika og tækifæri nemenda í skyldunámi. Í pistli sem hann sendi á foreldra kemur hann með tillögur að því hvernig foreldrar geti hjálpað börnum sínum að auka orðaforða sinn. 

Skólar og heimili eiga að vinna saman að jafna möguleika og tækifæri nemenda í skyldunámi. Einn af stóru lyklunum af samfélaginu er orðaforði, það að kunna að beita honum í ræðu og riti. Unglingar eru eins og svampar og tileinka sér ný orð, hugtök og orðasambönd daglega og virðist sem engin takmörk séu á því hve mikið þau geta lært ef þau komast í tæri við fjölbreyttan orðaforða, hvort sem það eru almennur orðaforði eða námsorðaforði. Námsorðaforði er sértækur orðaforði sem tilheyrir einhverju sértæku s.s. landbúnaði (gimbur), fjármálum (fjármagnstekjuskattur) eða bílum (felga).

Æskilegt er að auka allan orða- og hugtakaforða alla ævi, sérstaklega frá máltöku og út skyldunámið. Þau sem eru með góðan orðaforða eiga auðveldara að greina rangt frá réttu, falsfréttir og áróður hverskonar og getur betur sett sig í spor annarra, tekið upplýsta afstöðu til einfaldra og flókinna málefna og gert greinarmun á skoðunum og staðreyndum.

Við í skólanum þjálfum krakkana í þessu en öll viðbótahjálp til að auka líkur á lífsgæðum unglinganna ykkar ykkar er af hinu góða. Allt umhverfi þeirra er mjög ensku-umlykjandi í gegnum hina ýmsu miðla og því aldrei mikilvægara að taka höndum saman og styðja við þá uppbyggingu sem á sér stað í skólanum.

Til að ná innihaldi texta þarf að skilja 97%-98% allra orða í textanum, annars fer skilningurinn fyrir ofan garð og neðan, þetta sýna fjöldamargar rannsóknir.

Hér eru nokkrar tillögur sem þið getið gert heima til að auka orða- og hugtakaskilning unglinganna ykkar:

  1. Lesið fyrir þau skemmtilegar sögur sem innihalda orðaforða við hæfi. Útskýrið ný og/eða flókin orð. Það finnst langflestum gott að láta lesa fyrir sig.
  2. Nýtið bíltúra til að ræða það sem ber fyrir augu á leiðinni, hvort sem það eru trjátegundir, gerð húsa (fjölbýli, raðhús, einbýli osfrv.), fjölbreytileika mannlífs ofl, ofl.
  3. Ræðið málefni líðandi stundar við matarborðið, hvað er efst á baugi í samfélaginu og ekki hika við að nota „flókin“ orð og útskýra. Þegar orðaforðinn dýpkar eykst áhugi barnanna á því sem er til umræðu hverju sinni.
  4. Spilið saman þegar komin er ró á heimilið. Samvera og sameiginleg upplifun eru ómetanleg til að styrkja tengsl, búa til minningar og veita tækifæri til að auka orða- og hugtakaforða.
  5. Spilið rafræna leiki en íslenskið ensku hugtökin t.d. að (ens. looting) - (ísl. ræna).
  6. Farið í heimsókn til foreldra ykkar eð annarra ættmenna sem eru eldri en þið. Margt eldra fólk er hafsjór af fjölda góðra og gildra orða. Ræðið saman það finnst öllum gaman að ræða t.d. muninn skóla nútímans og á því þegar afi og amma voru í skóla.


Þetta eru einungis uppástungur en gott að koma einhverjum þeirra í rútínu á heimilinu og nýta hvert tæki færi til að styrkja tengsl ykkar í fjölskyldunni og auka orðaforða um leið. Góð sameiginleg upplifun er hornsteinn jákvæðra samskipta og auka líkur á eftirsóknarverðum niðurstöðum þegar erfiðari mál skjóta upp kollinum í lífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert