Tækin hafa „rænt“ okkur og börn okkar getuna til að hugga okkur sjálf

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Jón Pét­ur Zimsen aðstoðarskóla­stjóri í Rétt­ar­holts­skóla seg­ir að tækin sem við erum með í höndunum allar stundir dragi úr getu barna og foreldra þeirra til þess að takast á við lífið. 

Við komum inn í þennan heim sem erfðafræðileg blanda foreldra okkar. Þessi blanda hefur mikil áhrif á það hvernig manneskjur við verðum en umhverfi og félagsleg endurgjöf hefur einnig töluverð áhrif á okkur.

  • A) Hvernig mótum við viðhorf okkar? Erum við víðsýn, réttlát og sanngjörn, reynum að setja okkur í spor annarra?
  • B) Erum við jákvæð eða sjáum við glasið oftast hálftómt? Ef einhver tekur ekki undir kveðju okkar „hatar“ sá einstaklingur okkur eða heyrði hann kannski ekki bara í okkur, sá okkur ekki eða var annars hugar?
  • C) Hvernig tökumst við á við erfiðleika/höfnun/áskoranir? Drögum við okkur strax í hlé, gefumst upp og nærumst á hugafari fórnarlambsins? Reynum við að gera betur næst og horfumst í augu við það að í lífinu munum við mæta allskonar aðstæðum sem sumar verða erfiðar og óþægilegar. Hvernig tökumst við á við slíkar aðstæður þannig að sem allra mestar líkur eru á jákvæðri og uppbyggilegri niðurstöðu sem stuðlar að þroska?


Upp úr 2010 ruddist inn í líf okkar allra, barna og fullorðinna, tækni sem veitir aðgang að okkur og börnum okkar marga klukkutíma á dag. Eins og við vitum hefur umhverfið töluverð áhrif á það hver við verðum, hvaða viðhorf við temjum okkur, verðum við félagslega sterk með gott sjálfstraust og hvernig við tökumst á við erfiðleika/hafnanir/áskoranir.

Áðurnefnd tækni, og það sem fylgir henni, getur verið okkur til góðs ef við höfum þroska og aga til að nota hana en láta hana ekki nota okkur og skaða. Stórfyrirtækin sem „eiga“ samfélagsmiðlana og leikina sem finna á í snjalltækjum leita allra leiða til ánetja okkur með botnlausa vasa fjármagns.

Við finnum það flest á okkur sjálfum að um leið og „dauð“ stund myndast erum við komin í símann þannig að okkur leiðist ekki eina sekúndu. Það sama á við um kvíða eða depurð. Við förum í símann og „dreifum“ huganum og tökumst ekki á við erfiðleikana, við forðumst þá.

  1. Samanburður: Í rjómasamanburði þeim sem fer fram á samfélagsmiðlum þar sem allir eiga frábært, innihaldsríkt líf og eru sífellt í allskonar ævintýrum leynist vanlíðan oft undir brosandi grímunni.
  2. Sameiginleg upplifun: Þegar hver og einn er kominn með sína „dagskrá“ í snjalltækið tapast sameiginleg upplifun sem er einmitt útgangspunktur samskipta og þá um leið tengsla okkar sem félagsverur. Þau okkar sem eru í góðum tengslum eru mun líklegri til að eiga gott og farsælt líf.
  3. Huggun: Snjalltækin sjá til þess að við þurfum ekki lengur að hugga sjálf okkur. Við getum frestað því sem veldur vanlíðan með því að hverfa inn í heim samfélagsmiðla þar sem bergmálshellar okkar styrkja enn frekar þá tilfinningu að við getum ekki tekist á við einmanaleika, kvíða, depurð, leiða ofl.


Af þessum atriðum tel ég að huggunin sé mikilvægust og að tækin hafi „rænt“ okkur og börn okkar getuna til að hugga okkur sjálf. Það er búið að taka það frá okkur að leiðast aðeins og finna það svo eftir einhvern tíma að ekkert slæmt gerist þó að okkur leiðist og lífið heldur áfram. Sú tilfinning að „yfirvinna“ leiðann veitir okkur ánægju og eykur þrautseigju og seiglu.

Það sama á við um t.d. kvíða sem tröllríður öllu núna. Að við tökumst á við hann innra með okkur, breytum hegðun, og finnum að við lifum það af að finna til kvíða. Slíkar aðferðir eru mun líklegri til að uppræta kvíðann smátt og smátt í stað þess að forðast hann og styrkja þá hegðun að forðast hann og takast ekki á við hann.

Hverskonar erfiðleikar/höfnun/áskoranir, svo lengi sem þær eru ekki óyfirstíganlegar, eru óumflýjanlegir þættir sem börnin okkar munu öll þurfa að horfast í augu við. Þjálfum þau í að hugga sig sjálf án snjalltækja, slíkt mun auka þrautseigju og minnka líkur á vanlíðan en það er verulega eftirsóknarvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert