„Ekki ein af þeim sem elskaði að vera ófrísk“

Theja og Ásgeir Þór fóru heim af Vökudeild hinn 2. …
Theja og Ásgeir Þór fóru heim af Vökudeild hinn 2. nóvember síðastliðinn. Samsett mynd

Theja Lankathilaka og Ásgeir Þór Ásgeirsson fagna fjögurra ára sambandsafmæli sínu innan nokkurra vikna, eða í sjálfum jólamánuðinum. Þau kynntust eins og svo mörg pör á Tinder, en fyrsti alvöru hittingur Theju og Ásgeir Þórs var á Röntgen Bar í miðborg Reykjavíkur á köldu fimmtudagskvöldi í desember. 

Í dag tæpum fjórum árum eftir fyrsta stefnumótið eru þau nýbakaðar foreldrar, en þeim Theju og Ásgeiri Þór fæddust tvíburar í október og er litla fjölskyldan nýkomin heim af Vökudeild eftir nokkurra vikna dvöl þar. 

Tveir sekkir og hjartslættir

Sjálf er Theja ekki óvön gjörgæsluumhverfinu á Vökudeild né umönnun fyrirbura og nýbura, en hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfar á Vökudeild Landspítalans. 

Hvenær komstu að því að þú værir ófrísk að tvíburum?

„Mig var farið að gruna eitthvað þegar Hcg-mælingarnar í blóðinu mældust háar, en við Ásgeir Þór fengum það staðfest í snemmsónar á 6. viku meðgöngu að það væru tveir sekkir og hjartslættir. Það var erfitt að trúa þessu í fyrstu en við vorum búin að bíða lengi eftir þessu.“

Aðspurð segir Theja fréttirnar hafa bæði glatt og hrætt verðandi foreldrana. „Við eiginlega trúðum þessu ekki en á sama tíma vorum við í skýjunum yfir þessum fréttum. Hausinn á mér fór á flug og margar spurningar komu upp í hugann: „Hvað ef þetta gengur ekki upp? Hvað ef ég missi? O.fl.“

Systkinin!
Systkinin! Ljósmynd/Aðsend

„Ég var líkamlega buguð“

„Þetta byrjaði með látum,“ útskýrir Theja. „Ég fékk mjög slæma ógleði nánast strax í upphafi og varð því fastagestur á áhættu mæðravernd þar sem ég fékk vökva í æð, en ég þurfti einnig að taka fjölmörg lyf út alla meðgönguna,“ segir Theja, sem gekk líka erfiðlega að þyngjast eftir að hafa kastað upp í margar vikur. 

„Ég var líkamlega buguð, upplifði mikil óþægindi í bæði grind og mjóbaki og þurfti þar af leiðandi að hætta vinnu talsvert fyrr en ég hafði áætlað mér. Svefnleysi var einnig búið að hrjá mig í þónokkuð langað tíma og þá sérstaklega síðustu vikurnar,“ útskýrir Theja, sem segir fréttir af skertu blóðflæði til annars tvíburans hafa ollið streitu og óvissu undir lokin. 

„Eins og staðan var þarna þá tók ég bara einn dag í einu. Ég vissi ekki hvað ég myndi ná langt en markmiðið var að ganga með börnin í 32 vikur, en það að ganga með tvö börn í einu tók sinn toll, bæði andlega og líkamlega. Satt best að segja þá er ég ekki ein af þeim sem elskaði að vera ófrísk og að mínu mati mætti tala mun meira um hvað það er erfið upplifun,“ segir hún.

Theja var dugleg að skrásetja óléttuna.
Theja var dugleg að skrásetja óléttuna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk ekki að velja hvernig þau kæmu í heiminn“

Það hafði hvarflað að Theju snemma á meðgöngunni að hún færi í keisaraskurð enda með víðtæka reynslu og vitneskju um fæðingarferlið. „Ég fékk ekki að velja hvernig þau kæmu í heiminn, það var fyrir fram ákveðinn keisaraskurður út af vandamáli með blóðflæði.

Sjálf var ég ekki með einhverja draumafæðingu í huga, ég vildi einungis að börnin mín yrðu heilbrigð sama hvernig þau fæddust inn í þennan heim," segir Theja, sem viðurkennir þó að það hefði verið magnað að upplifa það að fæða tvö börn í gegnum fæðingarveginn.

Theja og Ásgeir Þór skömmu fyrir bráðakeisaraskurðinn.
Theja og Ásgeir Þór skömmu fyrir bráðakeisaraskurðinn. Ljósmynd/Aðsend

Keisaraskurðurinn var dagsettur hinn 11. október en Theja var drifin í bráðakeisaraskurð eftir sónarskoðun. „Ég fór í sónar á mánudagsmorgun og niðurstöður reyndust ekki nógu góðar. Annar tvíburinn var ekki að stækka eins og skyldi og blóðflæði ekki gott. Ég var send heim með skammt af sterum en átti svo að koma í fósturrit síðar sama kvöld og sónar aftur næsta morgun. Þá var ákveðið að gera bráðakeisara,“ segir Theja, sem fékk að ganga ásamt sambýlismanni sínum inn á skurðstofuna þar sem kunnugleg andlit mættu verðandi foreldrunum. 

„Það var svo gott að sjá nýburateymið frá Vökudeild og allt besta fólkið sem ég þekki. Þau voru þarna og tóku á móti börnunum okkar. Vinkona mín, Hrafnhildur, sem er svæfingahjúkrunarfræðingur, mætti sérstaklega á vakt fyrir okkur og fylgdi mér alveg í gegnum þetta. Ég veit ómögulega hvernig mér hefði gengið án hennar. Við voru einnig mjög heppin með ljósmóður sem sinnti öllu af þvílíkri fagmennsku og nærgætni.“

Hvernig var sambýlismaður þinn í fæðingunni?

„Það munaði litlu, mjög litlu, að hann hefði misst af þessu öllu saman þar sem þetta var bráðakeisari. Hann var í vinnunni þegar kallið kom en náði í tæka tíð og fékk hálfgert spennufall. Hann var með mér allan tímann og hjálpaði mér að komast í gegnum það sem var að gerast þrátt fyrir að vera sjálfur að upplifa þetta allt í fyrsta sinn.

Það var mjög fallegt að fylgjast með honum eftir fæðinguna, hann sá vart sólina fyrir börnunum og ég fékk að upplifa allt aðra hlið af honum sem reyndist mjög ánægjulegt. Hann varð strax ástfanginn af litlu.“

Theja og Ásgeir eyddum dágóðum tíma á Vökudeild Landspítalans.
Theja og Ásgeir eyddum dágóðum tíma á Vökudeild Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

„Erfitt að yfirgefa öryggisbúbbluna“

Eftir 22 daga á Vökudeild fengu Theja og Ásgeir Þór að fara heim með tvíburana sína. „Það reyndist erfitt að yfirgefa öryggisbúbbluna á Vökudeild, sama hvað maður kann og veit. Að fara heim með þín eigin börn er allt annað,“ segir Theja, sem viðurkennir einnig að það var skrýtin upplifun að vera hinum megin við borðið á vinnustaðnum.

„Það er gott að vera farin úr gjörgæsluumhverfinu yfir í rólegheitin heimavið en það var líka pínu erfitt að fylgjast með samstarfsfólki sínu allan sólarhringinn sinna þér og nýfæddu börnum þínum, en ég vissi að sjálfsögðu að þau væru í topphöndum,“ segir hún og hlær.

„Það var súrrealískt að vera hjúkrunarfræðingur á Vökudeild og sjálf með fyrirbura í meðhöndlun, en við erum óendanlega þakklát fyrir auðsýnda umhyggju. Það var hugsað svo vel um okkur og tvíburarnir voru nefndir „gullmolarnir“ af teyminu inn á deild.“

Theja segist þurfa að minna sig á borða og drekka.
Theja segist þurfa að minna sig á borða og drekka. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Ég upplifi heiminn á hvolfi alla daga. Það krefst skipulags og mikillar hugsunar að fara heim með fyrirbura. Þetta er heljarinnar dagskrá, ströng þriggja tíma dagskrá allan sólarhringinn. Þetta er mjög yfirþyrmandi og mér líður á tímum sem ég sé á vakt í vinnunni.

Systkinin njóta sín heimavið.
Systkinin njóta sín heimavið. Ljósmynd/Aðsend

Ég átti líka heldur erfitt með að tengjast börnunum á meðgöngunni og fyrst eftir fæðingu, en um leið og við komumst heim og í okkar umhverfi varð allt mun betra.

Það er samt erfitt að svara þessari spurningu, en það er auðvitað dásamlegt að horfa á þau stækka og við erum spennt að fylgjast með lífinu í gegnum þeirra auga. Lífið breyttist á þann veg að ekkert annað skiptir máli en að sinna þeim og gera sitt besta fyrir þau.“

Ert þú með einhver ráð fyrir verðandi mæður?

„Bara að undirbúa allt sem fyrst og njóta síðustu vikna meðgöngunnar. Og líka, það þarf ekki að eiga allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert