„Alltaf best að hafa mömmu hjá sér“

Helga og Remmel ákváðu að flytja frá Lundúnum til Íslands …
Helga og Remmel ákváðu að flytja frá Lundúnum til Íslands eftir að þau komust að því að þau ættu von á barni. Ljósmynd/Aðsend

Líf kærustuparsins Helgu Bjargar Loftsdóttur og Remmel Osei-Brissett breyttist til muna þegar þau komust að því að þau ættu von á barni. Parið bjó þá í Lundúnum í Bretlandi og var ekki á áætlun hjá þeim að flytja til Íslands í bráð. Óléttan breytti því.

Helga flutti til Lundúna árið 2021 til að leggja stund á nám við Queen Mary háskólann. Þar sótti hún sér meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Eins og margir þekkja kemur lífið manni oft á óvart og áætlanir manns breytast. Það var heldur betur raunin fyrir Helgu því eftir rúmt ár í Lundúnum kynnist hún ástinni sinni og ákveður að flytja ekki heim til Íslands eftir útskrift.

„Þegar ég flyt út þá ætlaði ég mér ekki að vera lengi en ég ílengdist eftir að ég kynntist kærastanum mínum. Þegar ég varð ólétt þá ákvað ég að koma heim því að allt baklandið mitt er hérna heima. Það er auðvitað alltaf best að hafa mömmu hjá sér og geta leitað til hennar.“

Helga flutti út til að leggja stund á nám við …
Helga flutti út til að leggja stund á nám við Queen Mary háskólann. Fjölskyldan flaug út til hennar til að fagna útskriftinni með henni. Ljósmynd/Aðsend

Ísland mikil paradís

Dóttir Helgu og Remmels fæddist í ágúst. Þau búa núna saman í miðbæ Hafnarfjarðar, en Helga ólst upp í bænum. Hún segir ekki hafa komið til greina að flytja annað. „Það er best að búa í Hafnarfirði, fallegasta firðinum.“

Remmel hefur frá æsku búið í Lundúnum. Spurð hvernig honum finnist að búa á Íslandi segir Helga: „Honum finnst Ísland mikil paradís. Honum finnst mikið frelsi að búa á Íslandi, það er ekki eins mikill hamagangur hér.“

Það er best a búa í Hafnarfirði, að mati Helgu.
Það er best a búa í Hafnarfirði, að mati Helgu. Ljósmynd/Aðsend

Opnaði netverslun

Eftir að Helga komst að því að hún væri ólétt fór hún að skoða barnaföt á netinu. Þá kviknaði hjá henni sú hugmynd að opna eigin barnafataverslun. Nú rekur hún netverslunina Bella baby sem einblínir á umhverfisvæn barnaföt. 

Nafn verslunarinnar hefur tvíþætta merkingu fyrir Helgu. Annars vegar þýðir orðið bella falleg á spænsku og baby þýðir auðvitað barn á ensku, nafn verslunarinnar er því fallegt barn á íslensku. Hins vegar heitir dóttir Helgu Ísabella Ósk og er Bella því stytting á því.

Fyrstu jól Ísabellu voru í fyrra.
Fyrstu jól Ísabellu voru í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Eins og er flytur Helga inn tvö barnafatamerki. Annað er frá Nýja Sjálandi en hitt frá Lundúnum. Hún sér þó fyrir sér að flytja inn fleiri merki og stækka þannig verslunina. Spennandi tímar séu fram undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert