Gleðitíðindin tvítilkynnt vegna mistaka

Mikil gleði ríkir í Lúxemborg.
Mikil gleði ríkir í Lúxemborg. Samsett mynd

Stórhertogafjölskyldan í Lúxemborg fagnar nú fæðingu nýs erfingja. Einn af prinsum landsins, Felix, og eiginkona hans, Claire, eignuðust sitt þriðja barn og annan son hinn 7. janúar síðastliðinn. Felix er yngri bróðir Guillaume, sem er krónprins landsins og erfingi krúnunnar. 

Hinn nýfæddi prins hefur þegar hlotið nafn og heitir drengur Balthazar Felix Karl. Smá mistök áttu sér stað þegar tilkynnt var um fæðingu drengsins á samfélagsmiðlum fjölskyldunnar en nafn drengsins var rangt ritað í tilkynningunni. Nafnið Balthazar var ritað með s og var drengurinn því sagður heita Balthasar Felix Karl, en það var fljótt leiðrétt og voru gleðitíðindin því tvítilkynnt. 

Felix og Claire fögnuðu tíu ára brúðkaupsafmæli sínu á síðasta ári en hjónin giftu sig með pompi og prakt árið 2013. Þau kynntust á háskólaárum sínum í Róm. Felix og Claire eru einnig foreldrar þeirra Amaliu, 9 ára, og Liam, 7 ára. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert