Fann fyrir pressu að gefa brjóst

Elva Hrund Árnadóttir á tvö börn en finnst hún vera …
Elva Hrund Árnadóttir á tvö börn en finnst hún vera gera allt í fyrsta skiptið með yngra barnið. Ljósmynd/Aðsend

Elva Hrund Árnadóttir snyrtifræðingur eignaðist dóttur með unnusta sínum Ákos Gelsi fyrir rúmlega ári. Fyrir átti Elva Hrund son úr fyrra sambandi. Hún segir reynsluna af því að eignast börnin hafa verið mjög ólíka.  

„Ég var 21 árs þegar ég varð ólétt af fyrra barninu mínu og að eignast barn var ekki alveg á planinu strax. En það er ótrúlegt hvað ekkert annað skiptir máli þegar maður fær barnið sitt í hendurnar í fyrsta skiptið. Ég þurfti að fullorðnast um nokkur ár og fannst ég vera að missa af öllu því skemmtilega sem vinkonur mínar voru að gera. En svo komst ég að því að lífið varð svo miklu skemmtilegra og á sama tíma töluvert meira krefjandi,“ segir Elva Hrund um hvernig lífið breyttist þegar hún varð móðir. 

Var tilfinningin öðruvísi þegar þú eignaðist þitt annað barn ?

„Ég myndi segja að tilfinningin var sú sama í bæði skiptin að fá barnið sitt fyrst í fangið, en börnin mín eru mjög ólík og því finnst mér ég pínu vera að gera þetta allt í fyrsta skiptið með yngra barnið. Strákurinn minn svaf allar nætur og vel á daginn á meðan stelpan mín hefur ekki ennþá sofið heila nótt. Þannig það eru aðrar áskoranir og verkefni sem ég þurfti að læra. Ég get ekki sagt að ég hafi verið meira tilbúin í seinna skiptið þar sem reynslan var mjög ólík.“

Parið Ákos Gelsi og Elva Hrund Árnadóttir eiga saman snyrti- …
Parið Ákos Gelsi og Elva Hrund Árnadóttir eiga saman snyrti- og nuddstofuna Ró. Í fjölskyldunni eru líka tvö börn. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengu meðgöngurnar?

„Meðgöngurnar voru mjög ólíkar, ég átti draumameðgöngu með fyrra barnið. Ég fékk enga ógleði, engin óléttu „cravings“ og engir líkamlegir kvillar. Seinni meðgangan var ekki eins góð, þar var ég með mikla ógleði fyrstu mánuðina og þurfti að hætta snemma að vinna vegna bak- og mjaðmaverkja og á loka metrunum var ég nánast rúmliggjandi sem tók mikið á andlegu heilsuna.“

Systkinin voru ólík strax á meðgöngunni.
Systkinin voru ólík strax á meðgöngunni. Ljósmynd/Aðsend

Þekkti líkamann í seinna skiptið

Hvernig eru þínar fæðingarsögur?

„Með strákinn minn byrjuðu hríðarnar degi fyrir settan dag s.s 9. febrúar, ég hringdi upp á fæðingardeild og var ráðlagt að vera róleg og reyna að sofa því með fyrsta barn færi þetta hægt af stað. Ég fór svo að finna fyrir mjög miklum verkjum í mjóbaki og mjög reglulega þannig þær ráðlögðu mér að koma í skoðun upp á deild sem ég gerði. Þá var ég bara komin með tvo í útvíkkun og lítið að gerast, ég hafði ekki sofið neitt um nóttina fyrir verkjum svo mér var sagt að reyna að leggja mig og ná hvíld. En verkirnir stigmögnuðust ört en útvíkkunin var að ganga mjög hægt og eftir að farið upp á fæðingardeild í þrígang, þá lögðu þær mig inn. Ég fékk svefntöflu og náði að dorma um stundarkorn, svo fór þetta loksins að gerast og ég fékk mænudeyfingu seint um kvöldið 10. febrúar. Eftir það sagði mamma að ég hafi aldrei talaði eins mikið, nánast eins og ég væri drukkin en það var dásamlegt að finna ekki svona mikið til lengur og geta aðeins hreyft sig. Ég byrjaði að rembast um miðnætti og prinsinn kom í heiminn 50 mínútum seinna. Ég man svo sem lítið eftir fæðingunni sjálfri og ég fékk 3 - 4 stigs rifu,“ segir Elva Hrund. 

Dóttir Elvu Hrundar flýtti sér í heiminn.
Dóttir Elvu Hrundar flýtti sér í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir seinni fæðinguna hafa átt svipaðan aðdraganda. „Ég fékk verki daginn eftir settan dag, 30. nóvember. En þá þekkti ég líkamann minn töluvert betur og var lítið að stressa mig, ég hringdi upp á fæðingardeild til að láta vita af mér og að þetta væri að byrja. Um morguninn 1. desember fóru verkirnir að stigmagnast hratt og stutt á milli hríða svo mér var ráðlagt að koma upp á deild í skoðun og mættum þangað klukkan 11, þar var ég var sett í monitor og þá komin með 7 sentímetra í útvíkkun og var úthlutað fæðingarherbergi. Þar fékk ég nálastungur og settur upp æðaleggur fyrir mænudeyfingu á meðan beðið var eftir fæðingarlækni. Svo gerðist allt mjög hratt að fæðingarlæknirinn náði ekki að koma í tæka tíð og daman mætt 15 mínútur eftir fyrsta rembing, þá klukkan rétt að ganga eitt. En ég kom jafn illa út úr þessari fæðingu og þeirri fyrri þar sem ég rifnaði mjög illa.“ 

Brjóstagjöf hentar ekki öllum

Elva Hrund leggur áherslu á að móðurhlutverkið er ekki glansmynd og að öll börn séu misjöfn. 

„Með strákinn minn gekk brjóstagjöfin vel, hann var á brjósti í sex mánuði og hætti þegar hann byrjaði að borða mat. Þegar hann var lítill lenti ég í því nokkrum sinnum að fólk spurði: „Er hann ekki pottþétt á brjósti“. Ég fann pressu að gefa brjóst eins lengi og ég gat. Svo þegar litla daman kom í heiminn hlakkaði ég mjög til að hafa henni á brjósti, en það byrjaði brösuglega. Við fórum í brjóstagjafaráðgjöf þar sem við fengum mjög góð ráð og æfingar til að prufa okkur áfram en ekkert gekk. Svo komumst við að því þegar hún var þriggja vikna að hún var með varahaft sem hamlaði henni að ná sogkrafti. Varahaftið var klippt þegar hún var fimm vikna og þá var hún búin að hafna brjóstinu, þrátt fyrir það reyndum við eins og við gátum að halda brjóstagjöfinni áfram. Ég byrjaði að finna fyrir miklum kvíða þegar kom að brjóstagjöf sem endaði svo alltaf á sárum gráti hjá okkur báðum. Hún grét því hún náði ekki stjórn á flæðinu og ná að sjúga almennilega, ég var í kvíðakasti og kenndi sjálfri mér um að bregðast barninu mínu. Þegar hún var sjö vikna þurfti ég að játa mig sigraða og gaf henni pela, eftir það fékk ég allt annað barn í hendurnar. En það var alltaf þessi pressa „ertu hætt að gefa henni brjóst?, „haltu áfram að reyna, þetta hlýtur að koma“. 

Brjóstagjöf er kannski besti kosturinn en það gengur ekki alltaf upp og hentar alls ekki öllum, við megum ekki láta pressu frá öðrum ráða okkar för. Því þegar uppi er staðið skiptir hugur og heilsa svo miklu máli,“ segir Elva Hrund. Hún segir móðurhlutverkið alls enga glansmynd og segir pressu fylgja því að vera foreldri. Eina sem hægt er að gera er að gera sitt besta. 

Dóttir Elvu Hrundar hefur aðeins verið að stríða móður sinni …
Dóttir Elvu Hrundar hefur aðeins verið að stríða móður sinni með svefnleysi. Ljósmynd/Aðsend

Hlustaðu á hjartað

Áttu ráð fyrir mæður eða verðandi mæður ?

„Alltaf hlusta á þitt eigið hjarta og innsæi, það er svo sterkt í okkur mömmunum. Ég hef lent í að þurfa hlusta á mitt mömmuinnsæi sem borgaði sig. Verum ófeimnar að standa fyrir okkar máli þegar kemur að börnunum okkar.“

Hvað hefur verið mest gefandi í móðurhlutverkinu?

„Að fá að fylgjast með börnunum mínum vaxa og dafna og verða að þeim einstaklingum sem þau eru í dag. Að vera mamma eru forréttindi og ég er svo stolt af börnunum mínum, þetta er besta og erfiðasta verkefnið sem ég hef upplifað en allt þess virði að fá þessa skilyrðislausu ást sem börnin gefa manni,“ segir Elva Hrund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert