„Sephora-börnin“ taka yfir markaðinn

Börn eru á kafi í snyrtivörum og hugsa lítið um …
Börn eru á kafi í snyrtivörum og hugsa lítið um húðina. Unsplash.com/alexander gray

Mikið hefur verið rætt um gríðarlegan snyrtivöruáhuga ungra stúlkna sem virðist eiga rætur að rekja til samfélagsmiðla á borð við TikTok. Nú hefur þessi hópur barna fengið viðurnefnið „Sephora-börnin“ en Sephora er vinsæl búð sem selur allt tengt snyrtivörum og almennri húðumhirðu.

„Hefur einhver tekið eftir því að í hvert sinn sem maður fer í Sephora þá eru þarna bara litlar stúlkur?“ segir í umfjöllun The Independent.

„Börnin eru orðin stór markhópur snyrtivörufyrirtækja og í raun að taka yfir markaðinn. Þau kaupa vinsæl merki en margir snyrtifræðingar hafa bent á hversu skaðlegt það getur verið fyrir unga húð að bera á sig krem sem innihalda virk efni fyrir þroskaðri húð.“

„Retínól er til dæmis efni sem getur meira að segja verið of sterkt fyrir fullorðna, þroskaða húð,“ segir Elena Duque snyrtifræðingur. „Sérstaklega þegar unglingar nota svona efni því húð þeirra er að fara í gegnum miklar hormónabreytingar.“

Litríkar umbúðir skipta máli

„Börnin laðast að umbúðunum sem eru skrautlegar með pumpur og tól. Merki eins og Drunk Elephant og Glow Recipe eru markvisst að höfða til yngri kynslóðarinnar. Fyrirtæki eru því farin að leggja áherslu á ákveðna leikgleði í umbúðunum og markaðssetningu. Nú eru börnin að gera „skincare smoothies“ þar sem öllu er blandað saman í einn graut og bera á húðina,“ segir Namhee Han, sérfræðingur í markaðsmálum snyrtivara.

„Það eru umbúðirnar sem skipta öllu máli. Börnunum er sama um innihaldið og hvað það gerir fyrir húðina. Þau vilja vöruna því hún er flott og allir eru að þessu.“

Þá vekur athygli að auglýsingum fyrirtækjanna er ekki sérstaklega beint að ungum börnum eða unglingum. „Fyrirtækin hafa ekki lengur fulla stjórn á þessu. Þetta er allt meira eða minna í höndum áhrifavalda á netinu sem börnin eru að fylgja.“

Foreldrar ekki meðvitaðir

„Foreldrar eru ekki nógu meðvitaðir um hvað börnin eru að gera á netinu. Og hvaðan eru þessar stúlkur að fá alla þessa peninga? Það virðist vera í eðli barna að óska sér þess að vera eldri, ef til vill þrá eftir auknu sjálfstæði. Börn hafa alltaf viljað vaxa hratt úr grasi og við gleymum því hvernig við vorum á þessum aldri.“

Sérfræðingar eru sammála um að það verði áhugavert að sjá þróunina á markaðnum. „Nú er búið að örva nýjan og yngri markað. Kannski lifa aðeins þau fyrirtæki af sem eru í nánu samstarfi við áhrifavalda. En ljóst er að ábyrgð fyrirtækjanna á að upplýsa neytendur sína um vörurnar er mikil sérstaklega þegar ung börn eiga í hlut,“ segir Han í viðtali við The Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert