Er hægt að neyða barn til þess að mæta í skólann?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá foreldri sem spyr hvort hægt sé að neyða barn til að mæta í skólann. 

Sæl Tinna. 

Er hægt að neyða barn til þess að mæta í skólann?

Kveðja, 

BN

Foreldri spyr hvort hægt sé að neyða barn til að …
Foreldri spyr hvort hægt sé að neyða barn til að mæta í skólann. Taylor Flowe/Unsplash

Sæl BN.

Á Íslandi er skólaskylda á grunnskólastigi þ.e.a.s. öllum börnum á aldrinum 6-16 ára er skylt að sækja grunnskóla og vísa ég hér í Lög um grunnskóla:

  1. gr.Skólaskylda. Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri, sbr. 32. gr. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla.
  2.  Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga.

Ef barn harðneitar að ganga í skóla þá þarf að skoða hvað veldur. Er það vegna námserfiðleika? Er það vegna félagslegrar stöðu? Þ.e.a.s á það fáa sem enga vini, er verið að leggja barnið í einelti. Er það eitthvað í skólaumhverfi barnsins sem truflar það, getur verið tengt skynjun og/eða líðan, líður illa í margmenni eða fer of mikill hávaði og áreiti illa í barnið. Það þarf að kortleggja barnið og vandann frá A-Ö og til þess þarf aðkomu foreldra, starfsfólk skóla og annarra sérfræðinga eins og t.d. skólasálfræðinga og kennsluráðgjafa eða annarra sérfræðinga. Einnig þarf að skoða hvort það sé eitthvað heima sem gerir það að verkum að barnið vill ekki fara í skólann.

Er það að sækjast í eitthvað eftirsóknarvert heima? Fær það ótakmarkaðan aðgang að skjátækjum/tölvum? Er barnið að fá nægan svefn og er grunnþörfum þess vel mætt (svefn, næring og öryggi) og einnig mæli ég með því að útiloka alla líkamleg kvilla. Stundum getur það verið lausn að láta barnið skipta um skóla ef allt hefur verið reynt án árangurs í fyrri skóla.

Þá eru ýmis önnur úrræði sem hægt er að skoða ef eins og ég segi allt hefur verið reynt án árangurs eins og t.d. að skoða skólavist fyrir barnið í Ásgarðsskóla. Ásgarðsskóli er grunnskóli fyrir nemendur á grunnskólastigi en ólíkt öðrum grunnskólum þá fer allt skólastarf í skólanum fram alfarið á netinu. Þá er einnig hægt að skoða möguleikann um heimakennslu fyrir barnið.

En stutta svarið við spurningunni þinni er ,,Já“ börnum er skylt að stunda nám á grunnskólaaldri og ef það er með engu móti hægt með hefðbundnum hætti þá þarf að finna aðrar leiðir til að mæta þörfum barnsins eins og ég hef komið að hér að ofan.

Gangi þér sem best.

Bestu kveðjur, 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert