Fermist ein hjá frænda sínum

Kristjana er að æfa fótbolta og fær ferð á landsleik …
Kristjana er að æfa fótbolta og fær ferð á landsleik í fermingargjöf. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristjana Kjartansdóttir fermist í einkafermingu þann 17. mars í Garðakirkju. Það kom ekki annað til greina en að fá séra Guðna Má Harðarson til þess að staðfesta skírnina. Guðni Már er frændi Kristjönu auk þess sem hann skírði hana á sínum tíma.

Kristjana er í fermingarfræðslu í Vídalínskirkju í Garðabæ. „Það er búið að vera mjög gaman í fermingarfræðslunni. Við erum búin að læra Faðir vorið og Boðorðin tíu,“ segir Kristjana þegar hún nefnir nokkur atriði sem hún og félagar hennar hafa lært í vetur.

Þrátt fyrir venjulega fermingarfræðslu verður fermingin sjálf óhefðbundin. „Mig langaði alltaf til þess að fá Guðna til að ferma mig. Svo vorum við að tala um ferminguna mína einhvern tímann og þá sagði mamma að ég gæti fermst í einkafermingu. Þá ákvað ég bara að hafa einkafermingu,“ segir Kristjana um ákvörðunina.

Það spilaði inn í ákvörðunina að Guðni er prestur í Lindakirkju en Kristjana býr í Garðabæ. Með einkafermingu komst Kristjana hjá því að fermast með ókunnugum krökkum en samt sem áður fermast hjá uppáhaldsprestinum sínum.

Er ekkert mál að fermast í einkafermingu?

„Ekki ef þú ert alin upp í Vídalínskirkju og þekkir alla,“ segir Erla Björg Káradóttir, móðir Kristjönu, og hlær. Svo vill til að Erla Björg stýrði um tíma æskulýðsstarfi í Vídalínskirkju og í Hafnarfjarðarkirkju.

Langafi verður með í anda

Hvernig valdir þú fermingardaginn?

„Þetta er fæðingardagur langafa míns,“ segir Kristjana.

Erla Björg segir dóttur sína alltaf hafa haft sterka tengingu við langafa sinn. „Hún hitti hann aldrei en þau eru svo ótrúlega lík og svo búum við í húsinu sem hann byggði og veislan verður hérna heima,“ segir Erla Björg.

Mæðgurnar gera ráð fyrir að fleiri mæti í athöfnina sjálfa en tíðkast þegar fjöldi fermingarbarna fermist. Athöfnin verður jafnframt persónulegri, þar sem Kristjana er búin að skipuleggja allt sjálf eins og tíðkast frekar í brúðkaupum en fermingum.

„Ég átti að velja lögin sjálf og hver ætti að syngja. Ég valdi uppáhaldslögin mín sem tengjast kirkjunni. Þetta eru Í bljúgri bæn og Drottinn er minn hirðir. Svo valdi ég uppáhaldslagið mitt með ABBA, My Love, My Life af því ég elska ABBA. Mamma og systir mömmu eru báðar söngkonur þannig að þær ætla að syngja,“ segir Kristjana.

Kristjana fékk að velja matinn í veisluna. „Ég ætla að hafa mat frá Minigarðinum og uppáhaldsmatinn minn frá Tokyo Sushi og heita rétti af því að þetta er um kvöldið. Ég ætla líka að hafa kransaköku og marsípanköku,“ segir Kristjana.

Kristjana er að æfa knattspyrnu með Stjörnunni og tengist stærsta gjöfin áhugamálinu. „Fermingarferðin mín er að fara á fótboltaleik í Englandi. Ég, pabbi minn og afi minn erum að fara á Ísland-England á Wembley í London,“ segir Kristjana, sem langar líka í skartgripi í fermingargjöf.

Mægðurnar Erla Björg Káradóttir og Kristjana Kjartansdóttir hafa notið þess …
Mægðurnar Erla Björg Káradóttir og Kristjana Kjartansdóttir hafa notið þess að skipuleggja fermingu Kristjönu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Pantaði kjólinn á netinu

Kristjana er tilbúin með allt fyrir fermingardaginn, enda hrifin af hönnun og veit hvað hún vill. Hún fann rétta kjólinn á netinu. Hún segir misjafnt hvort stelpur panti fermingarkjólana á netinu eða fari í verslanir hér heima og máti. Það fari eftir því hvað þær vilji.

„Kjóllinn minn er ljósblár, ermalaus og hnésíður,“ segir Kristjana þegar hún lýsir kjólnum. Við kjólinn ætlar hún að vera í hvítum skóm með litlum hæl frá Steinari Waage. Á fermingardaginn ætlar Kristjana í hárgreiðslu. Hún ætlar að vera með fléttur, láta taka hluta hársins upp og vera með lifandi blóm í hárinu, brúðarslör varð fyrir valinu. Þemalitirnir í veislunni verða ljósblár og hvítur í stíl við fermingarfötin.

Stuðveisla í vændum

Erla Björg er ánægð með framtakssemi dóttur sinnar. „Þetta er svo þægilegt fyrir mig, hún er svo sjálfstæð. Hún er búin að ákveða þetta allt sjálf. Það er líka gaman að gera þetta saman,“ segir Erla Björg, sem segist ekki hafa upplifað stress í kringum undirbúninginn.

„Við viljum hafa þetta stresslaust og dagurinn á að vera þannig líka. Við höfum góðan tíma fyrir okkur, fermingin er ekki fyrr en þrjú. Við viljum að undirbúningurinn sé fyrst og fremst ánægjulegur og eitthvað sem við erum að gera saman og upplifa saman. Við ætlum að hafa veisluna heima og við höfum rætt saman hvernig við ætlum að raða og hvað við eigum að gera. Við ætlum að njóta og þetta á bara að vera notalegt. Þetta er hennar dagur. Við erum alveg sultuslakar,“ segir Erla Björg.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjölskyldan heldur fermingarveislu í húsinu. „Systir hennar Anna Birna er tvítug. Hún fermdist í Vídalínskirkju og veislan var hér heima. Ég er að gera þetta í annað skiptið. Ég hefði aldrei trúað því hvað þetta er ánægjulegt. Það er alveg dásamlegt að fylgjast með barninu fermast og halda veislu. Ég hlakka svo til að gera þetta aftur.“

Tónlistin á án efa eftir að spila stóran þátt í veislunni eins og oft áður. „Ég man í fermingunni hjá Önnu Birnu systur hennar spilaði hún sjálf á ukulele og það var sungið hér langt fram á kvöld, ég vona að það verði þannig. Okkur finnst voða gaman að halda veislur. Svo er pabbi hennar mikill listakokkur,“ segir Erla Björg, en á heimilinu er píanó auk þess sem systir Erlu Bjargar spilar á gítar.

Fjölskyldan á góða að, svo að það fylgir því ekki kvíði að taka til og þrífa eftir heimaveislu. „Ég á svo góða mömmu og tengdamömmu og okkur hefur alltaf fundist gaman að halda veislur. Við erum öll bara samstiga í því. Ég mikla þetta ekkert fyrir mér. Ég veit að allir munu hjálpast að.“

Kristjana er tilbúin með allt fyrir ferminguna. Hún pantaði kjólinn …
Kristjana er tilbúin með allt fyrir ferminguna. Hún pantaði kjólinn á netinu en skóna keypti hún á landinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Falleg hefð sem fólk heldur í

Erla Björg segir að líklega hafi fermingarveislurnar breyst síðan hún fermdist. Í dag sé algengara að halda fjölmennar fermingarveislur í sal. Henni finnst hins vegar ómissandi að halda fermingarveislur dætra sinna heima, þar sem þau hafa plássið auk þess sem hún á góðar minningar frá slíkum veislum.

„Í minni fermingarveislu var þröngt og margt fólk. En það hefur örugglega breyst heilmikið. Það er pottþétt meira pælt í þema og skrauti og meira komið í sali af því að það er örugglega þægilegra fyrir marga.

Það er gaman hvað þetta er mikil hefð. Það eru ennþá margir að fermast og þetta er mikilvægur hátíðardagur. Ég hef líka unnið í fermingarfræðslu og það er ótrúlega ánægjulegt að fylgjast með því ferli. Flestir eru til í þetta og eru að gera þetta af alvöru. Þegar maður spyr af hverju ertu að fermast í fermingarfræðslunni svara þau því til að þetta sé fjölskylduhefð. Þetta er falleg hefð sem hefur sem betur fer haldist í öllum þessum hröðu breytingum.“

Erla Björg segir ánægjulegt að fylgjast með unglingnum sínum ganga í gegnum þetta merkilega æviskeið sem unglingsárin eru. Hún tekur fram að Kristjana sé ótrúlega þægilegt og gott barn.

„Hún er yndisleg og vönduð stúlka. En ég er líka kennari og það hefur mikið breyst síðan ég var unglingur. Það er aðallega allt þetta áreiti eins og samfélagsmiðlar. Hún er búin að finna allt í sína fermingu á netinu. En það er bara yndislegt að eiga ungling. Það er svo gaman að fylgjast með þeim á þessum árum, það er svo margt að gerast og breytast,“ segir Erla Björg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert