„Ég get í rauninni ekki ímyndað mér lífið án Brútusar“

Leiðir Hjördísar Lilju Hjálmarsdóttur og Brútusar lágu óvænt saman fyrir …
Leiðir Hjördísar Lilju Hjálmarsdóttur og Brútusar lágu óvænt saman fyrir sex árum síðan. Samsett mynd

Hjördís Lilja Hjálmarsdóttir er 28 ára meistaranemi í sjúkraþjálfun sem hefur alla tíð verið mikill dýravinur. Fyrir sex árum síðan kom hundurinn Brútus óvænt inn í líf hennar, en hann er af tegundinni Shar-Pei og var ekki lengi að heilla Hjördísi Lilju upp úr skónum. 

„Ég hef alltaf verið mikil dýramanneskja en hafði ekki hugsað mér að fá mér hund, að minnsta kosti ekki á þeim tíma. Brútus kom hins vegar óvænt inn í líf mitt fyrir sex árum síðan, þá aðeins átta vikna gamall.

Fyrrverandi kærastanum mínum langaði í þessa tegund og kom með Brútus heim einn daginn. Það tók ekki nema nokkrar mínútur fyrir mig að falla algjörlega fyrir honum og fyrir Brútus að ákveða að ég væri mamma hans og eigandi. Við höfum svo verið óaðskiljanleg síðan,“ segir Hjördís Lilja.

„Brútus er úr síðasta Shar-Pei gotinu á Íslandi, að mér vitandi, þar sem að tegundin var orðin of skyld og því mátti ekki lengur rækta þá,“ bætir hún við.

Það tók Brútus ekki langan tíma að heilla Hjördísi Lilju …
Það tók Brútus ekki langan tíma að heilla Hjördísi Lilju upp úr skónum.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Ég vissi ekkert um tegundina þegar ég fékk Brútus og vissi í rauninni ekkert um hunda yfir höfuð. Það sem einkennir tegundina er það að þeir eru rólegir, varðhundar, sjálfstæðir og mjög tryggir eigendum sínum.

Ef ég ætti að lýsa Brútusi í einu orði þá er hann rosalega mikill mömmukall og er glaðastur þegar að ég fer með hann heim til mömmu minnar þar sem öll fjölskyldan er saman. Hann vill alltaf hafa alla saman í kringum sig.“

Hjördís lýsir Brútusi sem miklum mömmukalli sem elskar að vera …
Hjördís lýsir Brútusi sem miklum mömmukalli sem elskar að vera í kringum fjölskylduna.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Já, ég hef átt gæludýr síðan ég var sex ára en þá fengum við fyrsta köttinn, hann Lúlla sem er ennþá í fullu fjöri nýorðinn 21 árs. Við höfum átt fjóra ketti en einn þeirra dó mjög ungur. Nú eru mamma og stjúppabbi minn með þrjá ketti.

Ég bjó á tímabili með Brútus hjá þeim og þá voru öll dýrin saman á sama heimili. Nú í dag bý ég annars staðar en við Brútus förum samt sem áður daglega yfir til þeirra. Brútus og Lúlli ná best saman en Lúlli er húsbóndinn á heimilinu og leyfir Brútusi ekkert að komast upp með nein hundalæti og hefur alið hann upp með því að slá til hans ef að hann fer yfir strikið.“

Hjördís Lilja og Brútus fara daglega í heimsókn til móður …
Hjördís Lilja og Brútus fara daglega í heimsókn til móður hennar þar sem eru þrír kettir.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Ég get í rauninni ekki ímyndað mér lífið án Brútusar. Hann gerir alla daga betri. Það er sama hvort ég fari út í lengri tíma eða bara út með ruslið þá tekur hann alltaf á móti mér með dillandi rófu. Hann tjáir sig mjög mikið með hljóðum og frekjast þannig og fær oftast það sem hann vill enda dekurrófa.

Það er líka mjög heilsusamlegt að eiga hund því þeir þurfa hreyfinguna. Það er sama hvort að ég sé illa upplögð andlega eða að það sé rauð viðvörun úti þá þarf hann alltaf að komast út í göngutúr sem er bæði góð hreyfing og gott fyrir andlegu heilsuna. Brútus finnur líka á sér þegar fólkinu hans líður illa og er þá sérstaklega til í knús og kúr. Hann elskar að vera með fjölskyldunni sinni og köttunum og þar af leiðandi eyðum við miklum tíma hjá mömmu öll saman sem fjölskylda, það má því segja að hann þjappi fjölskyldunni saman.“

Það er mikil heilsuefling sem fylgir því að eiga hund …
Það er mikil heilsuefling sem fylgir því að eiga hund sem þarf á mikilli hreyfingu að halda.

En ókostirnir?

„Brútus hefur verið að glíma við mikið ofnæmi, augnvandamál og Shar-Pei Fever sem eru allt fylgikvillar og sjúkdómar sem eru þekktir hjá þessari tegund. Það er það sem mér þykir erfiðast að sjá að honum líði ekki nógu vel og sé jafnvel kvalinn. Það er ekki hægt að koma því í orð hversu erfitt það er í hjartað að sjá dýrin sín veik og að hafa ekki stjórn á því.“

Brútus hefur verið að glíma við ýmsa heilsukvilla sem eru …
Brútus hefur verið að glíma við ýmsa heilsukvilla sem eru vel þekktir hjá tegundinni.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Á virkum dögum þá förum við í langan göngutúr eldsnemma á morgnanna. Ég fer svo með hann yfir til mömmu þar sem hann eyðir deginum með köttunum á meðan ég er í skólanum. Hann eyðir svo deginum flakkandi á milli hæða úti í gluggum til að fylgjast með póstmanninum og öðrum hundum sem eiga leið hjá. Honum þykir þó líka mjög gott að sofa.

Við fjölskyldan reynum svo að skiptast á að fara með hann í göngu í hádeginu og aftur seinnipartinn. Á kvöldin er hann oft í miklu stuði og finnst skemmtilegt að leika sér með bangsana sína, sokka eða inniskó. Við förum svo í annan göngutúr fyrir svefninn. Brútus er mikill kúrari en vill þó ekki mikið klapp og knús, nema frá mömmu sinni – allt kúr þarf að vera á hans forsendum. Um helgar fær hann að sofa út og við reynum að fara í fjallgöngur eða lengri göngutúra.“

Um helgar fær Brútus að sofa út og fara í …
Um helgar fær Brútus að sofa út og fara í lengri göngur eða fjallgöngur.

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Brútus er algjör svefnpurka og elskar að sofa út. Það þarf að vekja hann og draga hann út að ganga á morgnanna. Hann er mikill varðhundur og er ekki mikið fyrir annað fólk en þá sem hann þekkir. Hann ólst aðallega upp í kringum konur og líkar því ekkert alltof vel við karlmenn, sérstaklega ef þeir eru háværir og með dimma rödd. Þegar við kærastinn minn vorum að kynnast hafði hann ekki umgengist hunda mikið og Brútusi var ekkert alltof vel við að deila athyglinni. Það tók því smá tíma fyrir þá báða að læra á hvorn annan en núna getur Brútus ekki án hans verið.“

Brútus er alltaf til í knús frá Hjördísi Lilju.
Brútus er alltaf til í knús frá Hjördísi Lilju.

„Brútus er mjög frekur og heyrir bara það sem hann vill heyra. Ég hef verið með hann í atferlisþjálfun síðastliðna mánuði til þess að reyna vinna á varðeðlinu í honum sem hefur tekið talsvert á þolinmæðina þar sem hann vill helst hafa hlutina eftir sínu höfðu.“

Að sögn Hjördísar Lilju er Brútus mikil svefnpurka sem elskar …
Að sögn Hjördísar Lilju er Brútus mikil svefnpurka sem elskar að sofa út.

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Mamma mín og stjúppabbi passa Brútus aðallega þegar ég hef verið að fara erlendis en það getur verið afar strembið að fara út öll fjölskyldan saman. Við fórum til Tenerife yfir jól og áramót 2022-2023 og leystum það með því að skipta okkur upp, ég fór út viku seinna og þá flaug stjúppabbi minn heim. Það er líka ekki bara Brútus sem þarf að passa heldur líka kettina þrjá, þannig það er ekkert hlaupið að því að fá fólk til að passa heilan dýragarð.

Annars hefur pabbi minn líka hjálpað til og farið með hann í göngur, en þau eru líka með hund á heimilinu. Það er erfitt að ætlast til þess að fólk hafi tíma og áhuga á að passa hann þar sem hann þarf mikla hreyfingu og er með sínar sérþarfir. Við reynum því að skipta þessu á milli okkar og hjálpast að fjölskyldan.“

Fjölskyldan reynir að skiptast á að vera með dýrin þegar …
Fjölskyldan reynir að skiptast á að vera með dýrin þegar þau fara í ferðalög erlendis.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Í rauninni bara að elska dýrin sín og gefa þeim þann tíma, hreyfingu og ást sem þau þurfa. Þau eru hérna í takmarkaðan tíma og yfir stutt tímabil af okkar lífum, það er því mikilvægt að nýta allar gæðastundir með þeim og njóta þeirra.“

Hjördís Lilja leggur áherslu á að njóta gæðastundanna sem hún …
Hjördís Lilja leggur áherslu á að njóta gæðastundanna sem hún á með Brútusi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert