„Ég gæti ekki hugsað mér lífið án þess að eiga nokkra hunda“

Kristín Ellý Sigmarsdóttir er mikil hundamanneskja, en hún á tvo …
Kristín Ellý Sigmarsdóttir er mikil hundamanneskja, en hún á tvo hunda og gæti ekki ímyndað sér lífið án þeirra. Samsett mynd

Kristín Ellý Sigmarsdóttir hefur alla tíð verið í kringum dýr, en hún er uppalin í sveit og hefur stundað hestamennsku frá unga aldri. Það hefur alltaf verið mikið hundalíf á fjölskylduheimili Kristínar, en hún segir móður sína hafa smitað sig af hundadellunni snemma. 

„Ég vil þakka móður minni alfarið fyrir það að hafa smitað mig af hundadellunni þar sem hún er ein mesta hundakona sem ég veit um. Við höfum átt allskonar hundategundir í gegnum tíðina og eitt sinn voru sex hundar á heimilinu – við vorum með Bichon Frise, blöndu af Chi-chon og Bichon Frise, Toy Poodle, Langhund, blending af Kónga-Poodle og Labrador, og Santi Bernard hund sem vegur um 60 til 82 kíló,“ segir Kristín. 

Kristín ásamt Santi Bernard hundi sem fjölskyldan átti.
Kristín ásamt Santi Bernard hundi sem fjölskyldan átti.

„Fyrsti hundurinn minn sem ég átti alveg sjálf hét Perla og var af tegundinni Toy Poodle, en ég fékk hana þegar ég var að vera fimm ára. Ég man ennþá hvað ég var glöð þegar mamma kom með hana óvænt heim og sagði að ég ætti hana alveg ein. Fimm ára ég ætlaði ekki að trúa því að hún væri mín,“ bætir hún við. 

Kristín ásamt fyrsta hundinum sínum, henni Perlu.
Kristín ásamt fyrsta hundinum sínum, henni Perlu.

„Urðum bæði gjörsamlega ástfangin“

Í dag er Kristín 23 ára gömul og búsett á Akureyri þar sem hún stundar nám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Hún á tvo hunda, Rökkva sem er af tegundinni Havanese og verður þriggja ára í júní, og Jöklasól sem er af tegundinni White Swiss Sheperd og er sex mánaða. 

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Ég eignaðist Rökkva minn sumarið 2022. Ég hafði lengi ætlað að fá mér hund þegar ég myndi flytja að heiman, og þarna var ég nýflutt að heiman og fannst vanta einn sætan lítinn hund á heimilið. Ég var ekki lengi að senda skilaboð á ræktandann þegar ég frétti að þau ættu von á Havanese hvolpum, enda lengi haft augastað á þeirri tegund.“

Kristín var nýflutt að heiman þegar Rökkvi kom inn í …
Kristín var nýflutt að heiman þegar Rökkvi kom inn í líf hennar.

„Ég eignaðist Jöklusól á Þorláksmessu í fyrra. Ég og Agnar kærstinn minn vorum búin að vera að tala um að fá okkur stærri hund sem við gætum nýtt í allskonar þjálfun, sýningar, útivist og fleira. White Swiss Shepherd er tegund sem okkur hafði báðum lengi langað að eignast en við erum svo lánsöm að frænka Agnars, hún Hjördís, er að rækta tegundina. 

Ég var búin að tuða lengi í Agnari mínum hvort við gætum ekki farið að heyra í Hjördísi og athuga hvort það væri nú ekki að fara að koma got hjá þeim. Við hringdum eitt kvöldið og hún sagði okkur að hún væri með eina skvísu sem vantaði heimili. Við vorum ekki lengi að bruna til hennar og urðum bæði gjörsamlega ástfangin.“

Kristín og Agnar urðu bæði ástfangin þegar þau hittu Jöklasól …
Kristín og Agnar urðu bæði ástfangin þegar þau hittu Jöklasól í fyrsta sinn.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundirnar?

„Það sem heillaði mig mest við Havanese tegundina er feldurinn – þeir eru með silkimjúkan og síðan feld. Það er mjög gaman að gera allskonar greiðslur í toppinn en feldurinn þarfnast mikillar vinnu og viðhalds og þurfa hundarnir að fara reglulega í bað og blástur. Það sem kom mér á óvart við tegundina var það hvað þeir eru öflugir miðað við stærð. Rökkvi fer með mér allt, út að hlaupa, í fjallgöngur og upp í hesthús. En heilt yfir eru þetta yndislegir hundar sem víkja ekki eitt skref frá manni og eru algjörir kúrubangsar.“

Kristínu þykir gaman að gera allskyns greiðslur í toppinn á …
Kristínu þykir gaman að gera allskyns greiðslur í toppinn á Rökkva.

„Það sem heillaði mig mest við White Swiss Shepherd tegundina er hvað þeir eru tignarlegir og ofboðslega fríðir hundar. Þeir eru öflugir, fjölhæfir, skemmtilegir og mjög fljótir að læra, en þar að auki elska þeir eigendur sína. Eins og ég sagði þá langaði mig í stærri og öflugri hund sem hægt væri að fara með í lengri hlaup og fjallgöngur, þjálfun og sýningar.

Mig langar ofboðslega mikið með hana á nosework-námskeið og sporaþjálfun en í því felst að hundurinn leitar uppi manneskju, lykt eða hluti. Það hefur gengið ofboðslega vel á sýningum hjá okkur Jöklusól, en við höfum farið á tvær sýningar og unnið til verðlauna á báðum. Nú á síðustu sýningu lenti hún í þriðja sæti sem besta ungviði sýningar.“

Jöklasól hefur farið á tvær sýningar.
Jöklasól hefur farið á tvær sýningar.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hunda?

„Kostirnir við að eiga hunda eru svo margir! Það er ekkert betra en að koma heim eftir langan dag og þeir taka alltaf á móti þér glaðir og koma þér í gott skap. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án þess að eiga nokkra hunda, enda eru þetta bara börnin mín. Það er gefandi og ofboðslega gaman að vera hundamamma.“

Kristínu þykir bæði gefandi og gaman að vera hundamamma.
Kristínu þykir bæði gefandi og gaman að vera hundamamma.

En ókostirnir?

„Ókostirnir eru nú ekki margir, það varla tekur sig að nefna þá. En auðvitað getur þetta verið bindandi eins og ef maður ætlar sér til útlanda, en þá er gott að eiga góða að sem geta tekið „börnin“ í pössun. Einnig fylgir því mikill kostnaður að eiga hunda og er mikilvægt að átta sig á því áður en maður ákveður að fá sér hund.“

Kristín segir mikilvægt að fólk átti sig á kostnaðinum sem …
Kristín segir mikilvægt að fólk átti sig á kostnaðinum sem fylgir því að eiga hund.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Daglega rútínan okkar er rosalega misjöfn og fer bara eftir því hvort ég sé að vinna og eða í
skólanum. Ég fer alla daga með þau nokkrum sinnum út að labba og við förum einnig reglulega á hundasvæðið eða í lausagöngu.

Þeim finnst ekkert skemmtilegra en að fara í lausagöngu eða á hundasvæðið. Þau fá svo yfirleitt bæði að koma með mér upp í hesthús og finnst það mjög gaman. Ég reyni að taka Rökkva með mér út að hlaupa einu sinni í viku, stundum oftar. Ég get ekki beðið eftir að Jöklasól verður orðin stærri og geti farið með út að hlaupa.“

Hundarnir fá að koma með Kristínu upp í hesthús.
Hundarnir fá að koma með Kristínu upp í hesthús.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Rökkvi hefur alltaf fengið að fara með okkur hvert sem við förum. Seinasta sumar fórum við hringinn í kringum Ísland og hann fékk auðvitað að koma með. Við gistum í topptjaldi og stoppuðum á mörgum stöðum, það má segja að hann hafi séð flesta staði á Íslandi. Eitt stoppið var í Þórsmörk þar sem við gistum í tvær nætur. Við fórum með hann með okkur flestar gönguleiðirnar þarna og upp allskonar háa tinda og er það án efa skemmtilegasta minningin okkar saman.“

Kristín og Rökkvi hafa verið dugleg að ferðast um landið …
Kristín og Rökkvi hafa verið dugleg að ferðast um landið og stunda útivist.

„Ég held að skemmtilegasta minningin okkar Jöklasólar hingað til sé klárlega seinasta hundasýning. Það gekk allt ofboðslega vel og ég er svo stolt af henni. Það er bara eitthvað við það þegar maður sýnir hundana sína sjálfur – þá myndar maður svo skemmtilegt og sterk samband þar á milli og er það ólýsanleg tilfinning. Það er alltaf gaman þegar vinnan sem maður er búinn að setja í þjálfunina skilar árangri.

Ég get ekki beðið eftir sumrinu með þeim tveimur og að ferðast með þau saman og búa til fleiri minningar. Við litla fjölskyldan stefnum á að fara á Vestfirðina í sumar og erum við mjög spennt að búa til fleiri minningar með sætu fjórfætlingunum okkar.“

Kristín er spennt fyrir sumrinu og ætlar að vera dugleg …
Kristín er spennt fyrir sumrinu og ætlar að vera dugleg að ferðast með hundana.

Eru hundarnir með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Þar sem Jöklasól er með tvöfaldan feld, sem skiptist í þykkan undirfeld og yfirhár, þá kemur henni og gólfhitanum heima ekkert sérlega vel saman. Það sem hún elskar að gera þegar henni er heitt er að fara út á svalir í snjóinn, helst þegar það er stormur úti, og liggja þar og láta snjóa yfir sig. Einnig tekur hún nágrannagæslunni mjög alvarlega og getur staðið mínútunum saman á tveimur loppum upp við svalavegginn og horft á alla sem eiga leið framhjá án þess að það heyrist neitt í henni.“

Jöklasól kann vel við sig á svölunum.
Jöklasól kann vel við sig á svölunum.

„Rökkvi er mjög háður mér og vill helst vera límdur upp við mig allan daginn. Yfirleitt þegar ég sest við borðið heima til þess að læra þá hoppar hann upp á borð og liggur þar á meðan ég læri.“

Rökkvi og Kristín í topptjaldi á ferðalagi um landið.
Rökkvi og Kristín í topptjaldi á ferðalagi um landið.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Ég mæli alltaf með að skoða vel tegundina sem þið eruð að spá í að fá ykkur og athuga hvort sú tegund passi við ykkar lífsstíl, rútínu og heimili. Einnig finnst mér mikilvægt, sérstaklega fyrir fólk sem ekki hefur átt hund áður, að fara með þá á hvolpanámskeið og læra grunnatriðin þegar að kemur að hundauppeldi, atferli hunda, merkjamál og hlýðni.“

Kristín mælir með því að fólk kynni sér hundategundir vel …
Kristín mælir með því að fólk kynni sér hundategundir vel áður en tekin er ákvörðun um að fá sér hund.

„Einnig finnst mér mjög mikilvægt að fólk og aðrir hundaeigendur taki tillit til annarra hunda og hundaeigenda. Til dæmis þegar þið eruð að mæta öðrum hundi og sjáið augljóslega að það er manneskja með hund í þjálfun, til dæmis umhverfisþjálfun, ekki þá trufla heldur labbið bara framhjá. Mér finnst góð regla að spyrja hvort ég megi stoppa og klappa hundinum, og ég veit að hundaeigandinn yrði mjög þakklátur fyrir það.

Annars bara njótið á meðan hundarnir ykkar eru sprækir, farið með þá að hitta aðra hunda og búið til minningar með þeim. Gefið þeim besta lífið sem þeir eiga svo skilið þessi alltof stuttu ár sem þeir eru hérna með okkur.“

Kristín leggur áherslu á að gefa hundunum sínum gott líf …
Kristín leggur áherslu á að gefa hundunum sínum gott líf og skapa dýrmætar minningar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert