„Bandaríkin eru mun hundavænni en Ísland“

Ásta Haraldsdóttir er búsett í Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum, syni …
Ásta Haraldsdóttir er búsett í Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum, syni þeirra og hundinum Húgó. Samsett mynd

Förðunarfræðingurinn Ásta Haraldsdóttir og eiginmaður hennar Jón Skafti Kristjánsson fluttu til Boston í Bandaríkjunum fyrir fimm árum síðan þegar Jóni bauðst starf á skrifstofu Icelandair í Norður-Ameríku. Fyrir tveimur árum festu þau svo kaup á húsi í sætum strandbæ, Duxbury, sem er í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Boston. Þar hafa þau komið sér afar vel fyrir ásamt syni sínum og hundinum Húgó sem er af tegundinni Goldendoodle. 

Goldendoodle er blanda af tveimur vinsælum hundategundum, Golden Retriever og Poodle, og er tegundin afar vinsæl víða, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Ásta varð strax heilluð af þegar hún hitti hund af tegundinni og nokkrum árum síðar lágu leiðir hennar og Húgós saman á fullkomnum tímapunkti. 

Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í sætum strandbæ.
Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í sætum strandbæ.

„Húgó er fjögurra ára gamall. Hann er ótrúlega ljúfur hundur og ég hef ekki ennþá hitt hund sem fílar hann ekki. Hann elskar að fara í göngutúra, leika sér á ströndinni, synda í sjónum og er algjör kúrukall,“ segir Ásta.

Ásta segir Húgó vera mikinn kúrukall.
Ásta segir Húgó vera mikinn kúrukall.

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Leiðir okkar lágu saman í janúar 2020. Sem endaði á því að vera fullkominn tími til að fá sér hund, rétt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það hélt okkur uppteknum þegar allt var lokað og við gátum nýtt tímann í að þjálfa hann og sinna honum vel. Einnig var það gott fyrir andlegu heilsuna að þurfa að fara í reglulega göngutúra þegar maður var mikið fastur heima við.“

Húgó kom á fullkomnum tíma inn í líf Ástu og …
Húgó kom á fullkomnum tíma inn í líf Ástu og Jóns.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Þetta er mjög vinsæl hundategund hérna úti og ég man í fyrsta skiptið þegar ég hitti svona hund þá var ég alveg heilluð og fannst þeir svo sætir og skemmtilegir. En stóra ástæðan fyrir því að við völdum goldendoodle er vegna þess að þeir eru mjög skapgóðir, klárir og fara ekki úr hárum. Við völdum heldur betur rétt, því Húgó er alveg einstakur.“

Goldendoodle þykja klárir og skapgóðir hundar, en þar að auki …
Goldendoodle þykja klárir og skapgóðir hundar, en þar að auki fara þeir ekki úr hárum.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Já ég hef alltaf verið mjög hrifin af dýrum. Ég var dugleg að finna dýr sem vantaði heimili og taka þau að mér – móður minni til mikillar ánægju. Ég hafði átt kanínu, þrjá ketti og tvo hunda áður en ég eignaðist Húgó.“

Ásta hefur alla tíð verið mikil dýramanneskja.
Ásta hefur alla tíð verið mikil dýramanneskja.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Félagsskapurinn, óskilyrðislausa ástin sem þeir veita manni, útiveran og hreyfingin sem fylgir því að fara í reglulega göngutúra. Svo er algjör plús hvað hann er mikill vinur og leikfélagi sonar míns. Það er líka svo yndislegt að eiga hund til að kúra með!“

Húgó og sonur Ástu og Jóns eiga fallegt vinasamband.
Húgó og sonur Ástu og Jóns eiga fallegt vinasamband.

En ókostirnir?

„Helsti ókosturinn er að finna pössun fyrir hann þegar við erum að ferðast, sérstaklega þegar við viljum fara í heimsókn til Íslands þar sem við getum því miður ekki tekið hann með okkur. Einnig þarf að klippa, greiða og sjá vel um feldinn á Goldendoodle og því fylgir oft mikil vinna, en sem betur fer elskar Hugó góða hársnyrtingu.“

Húgó elskar að fá dekur í snyrtingu!
Húgó elskar að fá dekur í snyrtingu!

Er öðruvísi að eiga hund erlendis en á Íslandi?

„Bandaríkin eru mun hundavænni en Ísland. Það er mjög auðvelt að eiga hund hérna þar sem þeir eru velkomnir á flesta staði. Það má taka þá með í almenningssamgöngur, innanlandsflug, hótel, á marga veitingarstaði og brugghús auk þess sem margar búðir leyfa hunda. Einnig er mjög auðvelt að finna húsnæði sem leyfa hunda ólíkt því sem oft er á Íslandi.“

Ásta segir Bandaríkin vera mun hundavænni en Ísland.
Ásta segir Bandaríkin vera mun hundavænni en Ísland.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eð skemmtilegum minningum?

„Við höfum deilt mörgum eftirminnilegum og skemmtilegum minningum í gegnum tíðina. Það sem kemur fyrst upp í huga er þegar við sóttum hann á flugvöllinn en hann flaug til okkar alla leið frá Salt Lake City í Utah. Hann var svo spenntur að sjá okkur og gaf okkur marga kossa og kúrði í fanginu mínu alla nóttina.

Einnig þegar hann tók á móti syni okkar þegar hann kom heim af spítalanum eftir fæðingu og þeir hafa verið bestu vinir síðan. Við eigum einnig átt marga eftirminnilega frídaga þar sem við höfum ferðast með hann um Bandaríkin og Kanada. Hann fylgir okkur hvert sem við förum og er stór og mikilvægur partur af fjölskyldunni.“

Þetta fallega vinasamband hófst strax á fyrsta degi.
Þetta fallega vinasamband hófst strax á fyrsta degi.

„Í kórónuveirufaraldrinum vildi ég hafa eitthvað fyrir stafni og ákvað því að búa til Instagram síðu fyrir hann. Ég bjóst aldrei við því að hann yrði svona vinsæll, en það var skemmtileg lífsreynsla.“

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Heilt yfir er hann mjög auðveldur en hann er mjög vanafastur. Hann vill fá matinn sinn á réttum tímum, fara í göngutúra á sama tíma og svo krefst hann að fá að sofa uppi í rúmi með okkur og tekur það ekki í mál að vera á bælinu sínu. Það er sem betur fer miklu huggulegra að kúra með honum á nóttinni og því hefur hann komist upp með það – þó hann reyni stundum að yfirtaka rúmið þótt lítill sé.“

Húgó krefst þess að fá að sofa uppi í rúmi!
Húgó krefst þess að fá að sofa uppi í rúmi!

Einhver góð ráð til annarra hundaeigenda?

„Ég tel það vera mikilvægt að velja tegund sem hentar þínum lífstíl. Einnig tel ég mikilvægt að láta hundinn umgangast aðra hunda og upplifa allskonar umhverfi og aðstæður þegar þeir eru hvolpar. Það hjálpaði okkur að venja Hugó á það snemma og núna er mjög auðvelt að taka hann með okkur hvert sem við förum.“

Ásta gefur gæludýraeigendum góð ráð.
Ásta gefur gæludýraeigendum góð ráð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert