Lars von Trier yfirheyrður

Lars von Trier á blaðamannafundinum í Cannes
Lars von Trier á blaðamannafundinum í Cannes Reuters

Danski leikstjórinn Lars von Trier sagði í dag að danska lögreglan hefði yfirheyrt hann í tengslum við ummæli hans á kvikmyndahátíðinni í Cannes varðandi Adolf Hitler. Segir von Trier að yfirheyrslan hafi verið að beiðni franskra saksóknara sem hafi lagt fram ákæru á hendur honum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá leikstjóranum í dag. Aftur á móti kannast frönsk yfirvöld ekki við að hafa lagt fram slíka beiðni.

Heldur von Trier því fram að lögreglan á Norður-Sjálandi hafi yfirheyrt hann vegna rannsóknar í tengslum við ákæru af hálfu saksóknaraembættisins í Grasse. Segir Trier í tilkynningunni að svo geti verið að hann hafi brotið frönsk lög sem banna ummæli sem upphefja stríðsglæpi.

Á blaðamannafundi í Cannes í maí eftir frumsýningu kvikmyndar von Triers Melancholia sat leikstjórinn fyrir svörum. Þar sagði von Trier að hann skildi Hitler.

„Mig langaði mikið til að vera gyðingur, en svo komst ég að því að ég væri í raun og veru nasisti. Þið vitið, vegna þess að fjölskylda mín er þýsk - Hartmann - sem gladdi mig örlítið,“ sagði leikstjórinn þegar hann var spurður út í þýskan bakgrunn sinn.

„Ég skil Hitler. Ég veit að hann gerði slæma hluti, já algjörlega, en ég get séð hann sitja í neðanjarðarbyrgi sínu í lokin.“

Þegar Kirsten Dunst, sem leikur aðalhlutverkið í myndinni og er einnig af þýsku bergi brotin, fór að ókyrrast í sæti sínu og muldraði: „Guð minn góður“ að leikkonunni Charlotte Gainsbourg sagði von Trier: „En það er ákveðinn punktur sem ég vil koma á framfæri með þessu.“

„Það sem ég er að segja er að ég skil manninn. Hann er ekki það sem við myndum kalla góður gaur, en jú, ég skil mikið varðandi hann, og ég hef pínulitla samúð með honum, já. En, í alvöru talað, þá er ég ekki stuðningsmaður síðari heimsstyrjaldarinnar. Og ég er ekki á móti gyðingum.“

Blaðamenn virtust nokkuð gáttaðir á ummælum leikstjórans sem var í framhaldinu spurður um skoðun sína á Ísrael og Albert Speer, sem var helsti arkitekt nasista.

„Ég styð gyðinga, hins vegar ekki of mikið, því Ísrael er verkur í afturendann. Eigi að síður - hvernig get ég lokið þessu - það sem ég vildi segja, um listina, er að ég er mjög hrifinn af Speer,“ sagði von Trier og bætti við að Speer, sem er dæmdur stríðsglæpamaður, hafi verið hæfileikaríkur.

„Allt í lagi, ég er nasisti,“ sagði von Trier og yppti öxlum. Hann bað síðar afsökunar á þessum ummælum sínum en það dugði ekki til því hann var rekinn af hátíðinni. Þrátt fyrir það keppti mynd hans um helstu verðlaunin í Cannes og hlaut Dunst verðlaun fyrir bestan leik í kvenhlutverki.

Í tilkynningunni í dag vísar hann til blaðamannafundarins og að framkoma hans þar sýndi að hann væri ófær um að tjá sig án þess að gera mistök og því hefði hann ákveðið að frá og með deginum í dag mundi hann hætta að tjá sig opinberlega.

Svo virðist sem það hafi ekki heldur tekist þar sem franski saksóknarinn, Jean-Michel Cailleau, segir að leikstjórinn hafi ekki verið ákærður fyrir eitt eða neitt. Ekki sé hægt að leggja fram ákæru fyrr en dómur hefur lagt mat á niðurstöðu rannsóknar. Hins vegar sitji saksóknaraembættið ekki með hendur í skauti eftir ummæli von Trier í Cannes í vor. Franska lögreglan hafi verið í sambandi við danska starfsbræður sína án þess að ákvörðun hafi verið tekin um framhaldið.

„Í þessu máli geta þeir ákært alveg eins og við getum ákært. Ég hef ekki enn tekið ákvörðun," segir Cailleau og bætir við að í Frakklandi gæti von Trier átt yfir höfði sér ákæru um að verja stríðsglæpi.

Kirsten Dunst, Lars Von Trier og Charlotte Gainsbourg
Kirsten Dunst, Lars Von Trier og Charlotte Gainsbourg Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þín á hleypidómum varðandi þá sem eru öðru vísi en þú. Taktu til þín það hól sem þú færð því þú átt það skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þín á hleypidómum varðandi þá sem eru öðru vísi en þú. Taktu til þín það hól sem þú færð því þú átt það skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir